Bakkafjörður liggur milli Þistilfjarðar og Vopnafjarðar á norðausturhorni Íslands. Fámennt byggðarlag þar sem tíminn gengur hægar, allt svo hófstillt, bæði landslagið og mannlífið. Síðan er það veðrið og birtan, þar er engin lognmolla. Paradís fyrir ljósmyndara. Frá Reykjavík er engin staður eins langt í burtu, það tekur góða tíu tíma að komast frá höfuðborginni þangað í friðsemdina og fegurðina. Bakkafjörður er í dag hluti af Langanesbyggð. Þar á bæ eru stór áform um að byggja stærstu höfn landsins í Finnafirði í Bakkafirði. Umskipunarhöfn fyrir stór gámaskip sem koma frá Asíu norðurleiðina, norðan við Rússland, þegar sú siglingarleið opnast. Það er verkfræðistofan Efla sem er að vinna með heimamönnum og Bremenports í Þýskalandi að tillögum um þessa risahöfn. En svæðið er einstaklega gott frá náttúrunnar hendi til stórskipahafnar. Eins er staðsetning frábær fyrir umskipunarhöfn, stutt vestur til Ameríku eða suður til Evrópu. Hér koma nokkrar stemmingar frá Bakkafirði.









Bakkafjörður 18/02/2024
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson