Hótel Bjarkalundur, elsta sveitahótel landsins

Hótel Bjarkalundur, elsta sveitahótel landsins
Áningarstaður undir hamrahöll
Í notalegum birkilundi er Hótel Bjarkalundur, elsta sumarhótel Íslands. Árið 1947 var hótelið vígt en Barðstrendingafélagið hafði af miklum dug og framsýni ráðist í byggingu þess því ljós var nauðsyn góðs áningarstaðar áður en lagt var upp í ferðir á Vestfirði. Hótelið naut strax mikilla vinsælda og enn í dag leggja fjölmargir þangað leið sína til að njóta hvíldar, náttúrufegurðar og annálaðrar vestfirskrar gestrisni.

Fuglalíf og friðsæld
Fyrir framan hótelið er Berufjarð­arvatn og þar má sjá sjaldgæfar anda­tegundir á sundi önnum kafnar við hreiðurgerð og ungauppeldi. Meðal þeirra fugla sem þar hafa haft viðkomu eru lómur, himbrimi og flórgoði. Við Breiðafjörðinn er ríki arnarins og daglega fljúga ernir fyrir hótelið og horfa hvössum augum yfir óðal sitt. Í Berufjarðarvatn rennur Alifiskalækur en heimildir eru um að reynd hafi verið fiskirækt í honum strax við landnám. Yfir svæðinu gnæfa svo Vaðalfjöll, 509 m háir gígtappar og í öðrum þeirra eru sérlega fallegar stuðlabergsmyndanir. Þangað upp er um 3-4 km. löng ganga en einnig er hægt að keyra að klettastálinu og ganga á toppinn. Þaðan er mjög víðsýnt og útsýnið stórfenglegt. Gamlar sagnir herma að í Vaðalfjöllum búi æðstu hulduhöfðingjar Vestfjarða. Um þau orti nágrannakona hótelsins, Bjargey Arnþórsdóttir talar um að fallega mótaðir drangarnir kyrri hugann.

Söguslóðir hetja og skálda
Reykhólar, sá þekkti sögustaður, er aðeins í 15 km fjarlægð frá hótelinu. Þar býðst möguleiki á einstæðri siglingu um Breiðafjörð auk þess sem slaka má í góðri sundlaug og velta fyrir sér hvort þar hafi Grettir sterki mýkt auma vöðva eftir að hafa brugðið bolanum á axlir sér. Þar eru líka áhugaverð söfn og þörungaverksmiðjan með sitt frumkvöðlastarf einstaklega áhugaverð.
Þrjú þjóðskáld fæddust í Reykhól­asveit, Matthías Jochumsson, Gestur Pálsson og Jón Thoroddsen ólust upp í þessu einstæða umhverfi. Hugsanlega hefur umhverfið fyrir vestan blásið þeim í brjóst orðgnótt og skáldaanda. Víst er að í nágrenni Bjarkalundar eru einnig bústaðir huldufólks en það hefur jafnan kunnað að velja sér aðsetur á mögnuðum slóðum.

Hótel Bjarkalundur
Bjarkalundur • 380 Reykhólahreppur
[email protected]
+354 434 7762
www.bjarkalundur.is

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0