Hugleiðingar um nýjan miðbæ á Selfossi

Að endurskapa gamlar byggingar
Hugleiðingar um nýjan miðbæ á Selfossi
Hinn 18. ágúst sl. var efnt til íbúakosningar um nýjan miðbæ á Selfossi. Bæjarbúum
hugnuðust vel fyrirliggjandi hugmyndir, 2130 greiddu atkvæði með nýjum miðbæ en 1425
voru á móti.


Þessi framkvæmd er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi en til stendur að reisa heilt
hverfi með eftirmyndum húsa sem áður stóðu víðsvegar á landinu en eru nú horfin. Fæst
þessara húsa hafa þó tengingu við Selfoss eða Árnessýslu heldur stendur til að endurbyggja
hús sem stóðu í Reykjavík, Stykkishólmi, á Ísafirði og Akureyri. Gagnrýnendur
hugmyndarinnar hafa einmitt nefnt að verið sé að endurgera hús annars staðar að, en líka
hefur heyrst nefnt að til standi að endurbyggja hús sem hafi brunnið og þá jafnvel orðið
manntjón. Við sum þessara húsa séu því bundnar slæmar minningar.

Að byggja í gömlum stíl
Þess eru fá dæmi hér á landi að horfin hús séu endurreist í sömu mynd. Á horni Túngötu og
Aðalstrætis annars vegar og á horni Austurstrætis og Lækjargötu hins vegar hafa þó verið
reistar eftirmyndir eldri húsa, en allmikið breytt. Sömu sögu er að segja af Canopy-hótelinu
við Hverfisgötu. Þar voru nýbyggingar látnar draga dám af eldra umhverfi svo það yrði
bæjarbúum ennþá kunnuglegt.
Margir hafa orðið til að gagnrýna framkvæmdir af þessu tagi og einn arkítekt orðaði
það svo að tónskáld nútímans semdu ekki tónlist fyrir Hauk Morthens ― tíðarandinn væri nú
annar og þarfirnar sömuleiðis. Gamalt útlit ætti því ekki við. Líka má benda á að hús er annað
og meira en ytra útlit þess. Öll heildarmyndin skiptir máli og klassískt útlit húsa sem var
ríkjandi fyrir heilli öld hentar sjaldnast nútímamanninum.
Heildarsvipur byggðar
Á móti hafa verið nefnd sjónarmið um heilsteypt ytra útlit bæjarhluta, en eins og kunnugt er
eru eldri hlutar íslenskra bæja jafnan æði sundurlaus samtíningur stíla og stefna í
húsbyggingum. Með því að byggja í gömlum stíl megi þannig ná fram meiri heildarsvip.
Eitt best heppnaða dæmi þessa að margra mati er viðbyggingin við
Eimskipafélagshúsið sem nú hýsir Radison Hotel 1919. Þar var fylgt sömu stíltegund nema
hvað inngangurinn var hafður nýtískulegur. Hér má einnig nefna Laugaveg 89 sem Bolli
Kristinsson kaupmaður reisti á tíunda áratug síðustu aldar. Það hús er byggt í nýklassískum
„Reykjavíkurstíl“ ef svo má orði komast en gluggarnir á jarðhæðinni eru mjög áþekkir
gluggunum á Laugavegi 3, þar sem Búnaðarbankinn var lengi til húsa.
Hugmyndir Sigmundar Davíðs
Umræður um þessi mál komust í hámæli þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá
forsætisráðherra, gerði tillögu að skrifstofubyggingu Alþingis á horni Tjarnargötu og
Vonarstrætis. Hann útbjó sjálfur lauslega útlitsteikningu þess húss og hafði þá í huga
teikningu að stúdentagarði sem Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, hafði gert fyrir um
heilli öld síðan, og til stóð að risi nokkru austar við Vonarstræti. Þessi hugmynd mætti mikilli
andstöðu og hugmyndir Sigmundar Davíðs um byggingu húsa í gömlum stíl á svokölluðu
Hafnartorgi við Tryggvagötu urðu til að vekja enn harðari deilur.

Miðbærinn nýi á Selfossi

Í ljósi alls þessa verður fróðlegt að fylgjast með uppbyggingu hins nýja miðbæjar á Selfossi.
Til stendur að þau verði leigð út undir ýmiss konar starfsemi og að þar verði sambland af
verslunum, veitingastöðum, þjónustu og íbúðum.


Gagnrýnendur nýja miðbæjarins á Selfossi og hafa nefnt að hverfið verði
yfirborðskennt og muni minna helst á leikmynd – það sé með öðrum orðum tilbúningur.
Talsmaður fasteignafélagsins sem stendur að framkvæmdinni svaraði þessu svo til í frétt í
Ríkisútvarpinu að jafnan væri lítið upprunalegt í endurgerðum húsum, jafnvel aðeins 3–4% af
gamla efninu, en þau teljist samt „upprunaleg“. Þetta má til sanns vegar færa og víða á
meginlandi Evrópu, sér í lagi í Þýskalandi má finna gamla miðbæi sem voru endurreistir frá
grunni í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Þar voru húsin þó jafnan endurgerð í upprunalegri
mynd á upprunalegum stað en á Selfossi stendur til að reisa eftirmyndir húsa sem stóðu víðs
vegar á landinu eins og áður sagði.


Til stendur að þarna verði reist safn um Mjólkurbú Flóamanna og þá merkilegu sögu
sem tengist framleiðslu mjólkurafurða á þessu svæði. Ef vel tekst til má ætla að nýi
miðbærinn á Selfossi muni hafa aðdráttarafl fyrir ferðamenn, sem gjarnan sækja í gamalt
borgarumhverfi. Gaman verður að sjá hvort í framhaldinu komi fram hugmyndir um
endurgerð fleiri gamalla húsa í heilsteyptri bæjarmynd, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu
eða á landsbyggðinni.

 

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0