Hverfisgatan sem liggur norðan við og samsíða Laugavegi aðal verslunargötu Reykjavíkur, er og var alltaf litli fátæki bróðurinn. Og þó, neðst og vestast eru bæði Safnahúsið / Þjóðmenningarhúsið og Þjóðleikhúsið. Síðan eru við götuna bæði Bjarnaborg og Danska sendiráðið, ásamt nýju glæsilegu hóteli, Canopy by Hilton, sem stendur ská á móti sendiráðinu. Við miðja götuna eru síðan lítil bárujárnshús frá lokum 19. aldar, og Bíó Paradís, þar sem kvikmyndaunnendur geta séð úrvalsmyndir frá öllum heimshornum. Hverfisgatan liggur frá Lækjartorgi, þar sem Stjórnarráðið, skrifstofa forsætisráðherra er á horninu við Arnarhól að Hlemmi, aðalskiptistöð Strætó í höfuðborginni. Gatan fékk formlega nafn árið 1898, og er kennd við Skuggahverfið, sem liggur norðan við götuna, alveg niður að sjó.
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson
Reykjavík 11/04/2023 : RX1R II : 2.0/35mm Z