Fjölskylda lætur líða úr sér í heitum læknum í góða veðrinu í gær. Molddalahnjúkar í bakgrunni. 

Í sól og sumaryl

Það tekur 45 mín að keyra Hringveg 1 austur frá Reykjavík yfir Hellisheiðina til Hveragerðis. Þaðan tekur það um 45 mín plús að ganga upp í Reykjadal, eftir góðum göngustíg fram hjá Djúpagilsfossi að heita læknum í miðjum dalnum. Lækurinn er einn fjölsóttasti náttúrulegi baðstaður Íslands í afar fögru en viðkvæmu umhverfi. Fyrir tveimur árum, árið 2019 er talið að um hundrað þúsund manns hafi lagst í lækinn, enda er hitinn í læknum fullkominn, mjög nálægt líkamshita. Reykjadalur liggur inn í Hengil, fjalllendi milli Hveragerðis og Þingvallavatns, Hegillinn er virkt eldfjall, en þar gaus síðast fyrir um 1900 árum, þannig að það gæti verið stutt í næsta gos. Á morgun, hver veit.  

Hveragerði  10/08/2021  16:48 : RX1R II 35mm
Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson