ÍSLENSK JARÐVARMAÞEKKING NÝTIST KÍNA VEL

Viðtal við Guðna A. Jóhannesson, fyrrverandi forstjóra Orkustofnunar

Orkustofnun er til húsa á Grensásvegi sem fyrir fimmtíu árum var í útjaðri Reykjavíkur. Hún var stofnuð á sjöunda áratug 20. aldar þegar lengsta jökulfljót landsins, Þjórsá, var virkjuð. Virkjun Þjórsár ásamt álverinu í Straumsvík mörkuðu þáttaskil í atvinnuháttum Íslendinga; – iðnvæðing gerbreytti íslensku samfélagi og myndaði aðra meginstoð atvinnuhátta þjóðarinnar.

Orkustofnun var stofnun á vegum iðnaðarráðuneytisins sem nú er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Orkustofnun fer með stjórnsýslu og ráðleggur ríkisstjórn um orkunýtingu; vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir; aflar þekkingar á orkulindum landsins. Stofnunin annast stjórnsýslu og eftirlit með raforkulögum.

Skömmu eftir að Orkustofnun var stofnuð upp úr miðjum sjöunda áratugnum, var Ísland í miklum efnahagserfiðleikum eftir að síldin hvarf af Íslandsmiðum. Þúsundir landsmanna fluttu úr landi, einkum til Svíþjóðar en líka Kanada og Ástralíu. Ísland var þá undir verndarvæng Alþjóðabankans en er nú meðal ríkustu þjóða heims.

ÍSLAND Í FYLKINGARBRJÓSTI JARÐVARMA Í VERÖLDINNI

Forstjóri Orkustofnunar frá 2013 er Guðni A. Jóhannesson. Hann stundaði verkfræðinám í Svíþjóð og varð prófessor við Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi. „Rannsóknir á íslenskum orkulindum bæði vatnsafls og jarðvarma hafa skipað stofnuninni í fylkingarbrjóst jarðvarmarannsókna og þekkingar í veröldinni undangengna þrjá áratugi,“ sagði Guðni A. Jóhannesson í samtali við Land & sögu.

„Orkustofnun hefur verið helsti ráðgjafi ríkisstjórna um nýtingu og þróun jarðvarma og ráðlagt sveitarfélögum, fyrirtækjum og erlendum ríkisstjórnum um nýtingu jarðvarma,“ bætti hann við.

NÝJAR ÁSKORANIR Á NÝRRI ÖLD

Á nýrri öld hefur stofnunin breyst mikið við það að mæta nýjum verkefnum með nýjum raforkulögum þar sem raforku-og flutningi var skipt upp. Framleiðsla raforku og flutningur hennar eru nú algerlega á höndum raforkufyrirtækjanna og Landsnets; samkeppni ríkir nú á raforkumarkaði.

Gagngerð breyting á skipulagi Orkustofnunar tók gildi í ársbyrjun 1997. Tilgangur skipulagsbreytinganna var að aðskilja ráðgjöf til stjórnvalda og stjórnun á opinberu fé til orkurannsókna frá framkvæmd rannsóknanna. Rannsóknirnar voru eftir það stundaðar í orkurannsóknarhluta Orkustofnunar sem aftur skiptist í tvær sjálfstæðar rekstrareiningar; rannsóknasvið og vatnsmælingar. Hinn hluti stofnunarinnar, orkumálahlutinn, skiptist á hinn bóginn í auðlindadeild og orkubúskapardeild, auk Jarðhitaháskóla Sameinuðu þjóðanna.

Frá 2003 hafa markvisst verið stigin skref til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði Orkustofnunar. Rannsóknarsvið var skilið frá og ný stofnun, Íslenskar orkurannsóknir, varð til. Starfsemi Vatnamælinga var sjálfstæð eining og sameinuð Veðurstofa Íslands.

JARÐHITAHÁSKÓLI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Frá árinu 1979 hefur Jarðhitaháskóli Sameinuðu þjóðanna verið starfandi en Guðni er stjórnarformaður skólans. Skólinn hefur verið rekinn sem sértök stofnun innan Orkustofnunar á grundvelli samnings við utanríkisráðuneytið og Jarðhitaháskólann í Tokyo í Japan sem stofnaður var árið 1975 að tillögu UThant þáverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Frá 2008 hefur skólinn hér á landi verið fjármagnaður af Íslendingum.

„Námsmenn alls staðar í veröldinni koma til náms. Íslensk jarðvarmaþekking er í fararbroddi svo gæði náms eru meðal þess besta sem gerist í heiminum. Um eitt hundrað kennarar með einstaka þekkingu kenna við skólann,“ segir Guðni. Í ársbyrjun 2020 tengdist Jarðhitaskólinn sjávarútvegs-, landgræðslu- og jafnréttisskólum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, í gegnum GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu Íslands.

„Árið 2015 var stjórnunarnámi bætt við skólann og sjálfbær markmið Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál tekin upp. Við höfum boðið stutt námskeið þjóðum A-Afríku og hafa um 60 manns, þar af 30 frá Kenýa tekið þátt. Kenya er í níunda sæti í veröldinni í framleiðslu jarðvarmaorku og nálgast Ísland hratt. Sama námskeið hefur verið í boði í El Salvador fyrir spænskumælandi þjóðir,“ segir Guðni.

SAMSTARF Í KÍNA

Íslenska jarðvarmafyrirtækið Arctic Green Energy var stofnað til að flytja út íslenska jarðvarmaþekkingu og leiðsögn til Asíu, einkum Kína. Samstarf Arctic Green Energy við stærsta fyrirtæki Kína, Sinopec Group, hefur verið afar farsælt. Saman stofnuðu þessi fyrirtæki Sinopec Green Energy sem nú er stærsta hitaveitufyrirtæki veraldar með 700 starfsmenn; 328 hitaveitur og nýtir yfir 500 borholur í 40 borgum í Kína; aðallega í héruðunum Hebei, Shaanxi, Shandong og Tianjin. Þannig hefur íslensk jarðvarmaþekking átt þátt í hljóðlátri byltingu í Kína. Sinopec Green tekur nú þátt í að byggja upp Ziongxian í útjaðri Peking; fyrstu sjálfbæru „grænu borg“ Kína.

„Við erum afar stolt af hinu mikla starfi í Kína, stolt að hafa orðið að liði. Um 90 kínverskir sérfræðingar hafa fengið þjálfun í Jarðhitaskólanum. Kína hefur stórfelld áform um frekari uppbygging í 26 stórborgum Kína. Þar leikur íslensk þekking lykilhlutverk,“ sagði Guðni A. Jóhannesson. -HH