Nú liggur leið okkar frá Önundarfirði og höldum við þá upp eftir Breiðadal í áttina að Breiðadalsheiði. En í stað þess að fara yfir heiði þessa eins og gert var fyrrum stingum við okkur inn í jarðgöng og ferðumst neðanjarðar langa leið og komum loks aftur út í dagsljósið í Tungudal, örskammt fyrir ofan Ísafjarðarkaupstað. Eftir að hafa skoðað okkur um í þessum myndarlega höfuðstað Vestfirðinga, höldum við áfram og förum fyrir Skutulsfjörð og út austurströnd hans, þar til við beygjum hjá Arnardal í áttina að Álftafirði. Síðan höldum við inn eftir Súðavíkurhlíð og förum á leiðinni gegnum elstu bílfæru jarðgöng landsins. Innan skamms komum við þá í útgerðarþorpið snyrtilega í Súðavík. Þar ber sitthvað fyrir augu og sérstakan svip á umhverfið setur tindurinn Kofri sem rís upp úr fjallinu fyrir innan kauptúnið. En lengra inn með firðinum verður fyrir okkur bœndabýlið Svarthamar. Þar nemum við staðar til að virða fyrir okkur æskustöðvar Jóns Ólafssonar sem nefndur var Indíafari. Hann var víðförlastur íslendinga á sinni tíð og skrifaði einnig stórmerka bók um ferðir sínar og ævintýri.
Jón Indíafari var fæddur árið 1593 á Svarthamri í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson og Ólöf Þorsteinsdóttir. Eignuðust þessi hjón alls 14 börn, en aðeins þrjú þeirra náðu fullorðinsaldri. Ólafur bóndi andaðist aldamótaárið 1500, en ekkjan bjó áfram á Svarthamri með börnum sínum. Jón var sjö ára þegar hann missti föður sinn. Hann lærði ungur að lesa og skrifa, enda vel gefinn og eftirtektarsamur á marga hluti. Einnig vandist hann öllum daglegum störfum til lands og sjávar og leið þannig tíminn þar til hann var orðinn 22 ára gamall. Sumarið 1615 var hann með fleiri mönnum við sjóróðra frá verstöðinni Rómaborg við Ísafjarðardjúp. Enskt fiskiskip lá þá um tíma skammt undan landi og komst Jón í kunningsskap við skipstjórann og fleiri menn um borð. Leiddi það til þess að hann tók sér far með skipi þessu til Englands og fór síðan með öðru skipi til Danmerkur, en þangað var ferðinni heitið. í Kaupmannahöfn gekk hann brátt í herþjónustu í flota Danakonungs og fékk þar starfsheiti sem konungleg byssuskytta.
Sumarið 1616 tók Jón þátt í flotaleiðangri um norðurhöf og árið eftir var hann í siglingum á skipi Kristjáns 4. og gerðist þá konungi vel málkunnugur. Á árunum 1618 til 1619 gegndi hann herþjónustu í setuliði konungs í Krónborgarkastala, en um vorið þar á eftir fór hann aftur í siglingar og tók þá aftur þátt í flotaleiðangri um norðurslóðir og komst meðal annars til Svalbarða. Eftir heimkomuna gegndi hann um skeið þjónustu í týhúsi eða vopnabúri konungs í Kaupmannahöfn. Þar lenti hann að ósekju í mikilli ónáð hjá dönskum yfirmanni sem lét varpa honum í hið illræmda fangelsi Bláturn. Munaði mjóu að hann yrði tekinn af lífi, en konungur komst í málið og varð það honum til bjargar. Eftir týhúsvistina fór Jón aftur í siglingar á konungsskipi, en um haustið 1622 var afráðið að hann færi með í leiðangri til Austur-Indlands, þar sem Danir höfðu stofnað nýlenduna Trankebar og reist kastalann Dansborg. Jón dvaldist síðan í setuliði Dansborgarkastala fram til haustsins 1624 og lenti þar í ýmsum ævintýrum og hremmingum. Meðal annars gerðist það einu sinni að hann brenndist illa og missti nokkra fingur, þegar eitthvað fór úrskeiðis við að skjóta af fallbyssum virkisins. Loks hófst svo heimsiglingin sem reyndist bæði löng og erfið. Hrepptu menn þá hörð veður og hafvillur og liðu miklar þjáningar af veikindum, hungri og þorsta og týndu margir lífi af áhöfninni. Síðsumars 1625 náðu leiðangursmenn loks til Írlands og þar fór Jón frá borði. Komst hann þá á skip sem sigldi til Noregs og þaðan komst hann til Kaupmannahafnar. Hafði hann þá verið í rúmlega þrjú ár í leiðangrinum til Indlands.
Um vorið 1626 sigldi Jón heim til Íslands og leit þá ættland sitt á ný eftir ellefu ára fjarveru. Fljótlega hélt hann þá heim á æskustöðvarnar á Vestfjörðum. Vorið eftir gerðist hann sendimaður Ara sýslumanns í Ögri og fór þá suður að Bessastöðum. Þar var hann staddur, þegar Tyrkjaránsmennirnir illræmdu komu þangað í nágrennið sumarið 1627. Hann kvæntist fjótlega eftir heimkomuna Ingibjörgu Ólafsdóttur og hófú þau búskap á Tröð í Álftafirði. Áttu þau einn son sem dó í æsku. Árið 1639-40 var Jón fenginn til að vera virkisvörður í Vestmannaeyjum, en hélt svo aftur vestur sakir óyndis Ingibjargar. Kona Jóns varð ekki langlíf, því að hún drukknaði í bátsferð skömmu eftir að þau komu aftur vestur. Jón kvæntist á ný og var seinni kona hans Þorbjörg Einarsdóttir. Þau bjuggu fyrst á Uppsölum og síðar í Eyrardal í Álftafirði, en þá jörð fékk Jón afgjaldslausa fyrir langa og dygga þjónustu við konung. Þau Jón og Þorbjörg áttu soninn Ólaf sem upp komst og eru ættir frá honum komnar.
Jón Indíafari var maður skáldmæltur og skemmtilegur. Þá var hann fjölhæfur mjög og meðal annars sagður góður skraddari og kunnáttusamur sem læknir. Talsvert liggur eftir hann af ljóðum og lausu máli, en þar af er ferðabók hans víðfrægust. Þá bók skrifaði hann á efri árum sínum og segir þar frá siglingum sínum og ævintýrum sem og kynnum af mönnum og málefnum. Varð bók hans svo vinsæl og víðlesin að hún gekk um aldir milli manna í fjölmörgum afskriftum. Loks kom hún út á prenti árið 1908. Einnig hefur hún verið þýdd á dönsku, þýsku og ensku og þykir merkileg heimild um mannlíf og atburði í Norður-Evrópu á 17. öld. En auk sögulegra heimilda um Jón, þá gengu líka af honum þjóðsögur og er ein þeirra birt hér sem sýnishorn:
„Jón Indíafari var með Kristjáni 4. Danakonungi. Einhverju sinni átti konungur orrustu við Svía og fylgdust þeir Jón að. Bardaganum kom svo að Danir létu undan síga. Gengu Svíar hart fram og sóttu að konungi. Einn þeirra hjó til hans og kom höggið á eyrað. Sneiddist eyrað nokkuð, en konungur féll í ómegin. Jón var þar nær staddur og lagði Svíann þegar í gegn. Síðan þreif hann til konungs og kom honum undan á óhultari stað. Þar var hann hjá honum þangað til af honum rann ómeginið. Eftir þetta hafði konungur meiri mætur á honum en öðrum mönnum.“
Þessi víðförli maður, Jón Indíafari, féll frá árið 1679, tæplega 86 ára gamall.