Best geymda leyndarmálið á Kirkjubæjarklaustri

Það gæti verið freistandi að þeysast í gegnum Kirkjubæjarklaustur á Suðurlandi á leiðinni í vestur- eða austurátt, en í þessu litla samfélagi með risastóru sálina ertu umvafinn töfrandi náttúru og munt svo sannarlega ekki sjá eftir því að staldra við. Bærinn stendur við hringveginn á milli tveggja þekktustu jökla Íslands, Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls. Á Kirkjubæjarklaustri var nunnuklaustur frá 1186 til 1550 og má finna vísanir í klaustrið og nunnurnar sem þar bjuggu í ýmsum staðarheitum í nánd við bæinn, svo sem Systrastapa, Systrafoss og Systravatni. Ótal fleiri náttúruperlur má finna í kring og má þar helst nefna Fjaðrárgljúfur, Dverghamra, Lakagíga og Jökulsárlón. Í hjarta bæjarins er að finna Hótel Klaustur þar sem miklar endurbætur hafa átt sér stað. Hafa öll herbergin, veitingastaðurinn og kokteilbarinn fengið andlitslyftingu og er lokaútkoman einstaklega glæsileg. Með alls 57 nútímalegum herbergjum til að velja úr og töfrandi náttúru allt í kring mun ekki væsa um þig á Hótel Klaustur. Ef þú gistir í svítunni eða deluxe herbergi færðu einnig aðgang að sundlaug, heitum potti og tækjasal við hliðina á hótelinu.

Morgunverðarhlaðborðið er allt hið glæsilegasta og á veitingastaðnum hefur matreiðslumeistarinn Einar B. Halldórsson sett saman girnilegan matseðil sem innblásinn af hráefnum frá Kirkjubæjarklaustri, þar á meðal er lindarbleikjan, íslenska skyrið og fersk íslensk ber.

Eitt er víst að Hótel Klaustur er einstakt og náttúran í kring engri lík. Leyfðu þér fullkomna afslöppun á þessum töfrandi stað.