„Það sem knýr okkur áfram í Borgarleikhúsinu er að sýna fólki hvað gerist þegar það situr í fullum sal og upplifir eitthvað sameiginlegt því leikhúsið getur búið til þessa töfra,” segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins.

„Leikhúsið er heimili mennskunnar“

Borgarleikhúsið er heimili Leikfélags Reykjavíkur, sem er eitt elsta menningarfélag landsins,127 ára á þessu ári. Leikárið framundan býður upp á ferskar nýjungar í bland við verðlaunaða klassík, íslenskt efni í bland við erlent og þegar líður á leikárið mun landskunn þjóðargersemi ljóstra því upp hver viðkomandi í raun og veru er.

„Við leggjum náttúrulega alveg ómælda vinnu í að stilla upp leikári sem höfðar til okkar áhorfenda,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, þegar hún er spurð út í það árlega verkefni að setja saman dagskrá vetrarins. „Við stillum árinu upp af kostgæfni. Að reka leikhús – að selja andlega upplifun – það þýðir það að við þurfum að ná augum og eyrum fólks og við vitum að við erum í samkeppni við alla afþreyingu og sömuleiðis í samkeppni um tíma fólks og þá peninga sem það hefur milli handanna.“

Aðspurð að því hvernig best sé að bera sig að við þetta verkefni hugsar Brynhildur sig um og bætir svo við: „Það er alltaf farsælla að lesa salinn þegar kemur að því að setja saman leikár. Leikhúsið er óhjákvæmilega á sinn hátt uppeldisstofnun og við nærum gesti okkar en gleðjum þá líka. Við getum aldrei verið hér til að stappa einhverju ofan í kokið á fólki. Við predikum ekki og getum ekki sagt fólki hvernig eitthvað á að vera. Við segjum hins vegar söguna og það kemur í hlut þess sem situr í salnum, hvar sem hann kann að vera á sínu ferðalagi í sínu lífi, að taka það inn og melta það, ganga svo út og hugsanlega skipta um skoðun. Það er galdurinn við listina. Þess vegna verður listin að fá að rífa stundum í, hún þarf að fá að vera óþægileg. Hún getur ekki alltaf verið bara flauel og silkihanski. Stundum þarf listin að vera harkaleg. Þá upplifir maður heiminn á annan hátt.“

 

Stærsti leikhússalur landsins

Borgarleikhúsið hóf sýningar í húsi sínu við Kringluna árið 1989 og hefur því starfað þar í tæp 35 ár. „Stærsti salurinn okkar, sem jafnframt er víðasta, stærsta, og best tækjum búna svið landsins, tekur 550 áhorfendur. Þarna erum við að keyra stóru söngleikina sem við erum sérfræðingar í, einnig stóru barnasýningarnar og svo er ákveðinn hópur áhorfenda sem sækist eftir góðri klassík. Við höfum verið með hana á stóra sviðinu.“

Borgarleikhúsið er vinsælasta leikhús landsins og tekur á móti hátt í 200.000 manns á ári. Undanfarin ár hafa hafa margar sýningar verið settar þar á svið sem ganga út leikárið og halda svo áfram að hausti. „Hér hefur það gerst hjá okkur, ef við tökum sem dæmi sýninguna 9 líf, sem hætti hér fyrir fullu húsi á 250. sýningu,“ bendir Brynhildur á. „Það þýðir það að 30% þjóðarinnar komu og sáu einu og sömu sýninguna.

Annað gott dæmi er hin rómaða sýning Elly, sem sló á sínum tíma öll met og snýr aftur á Stóra sviðið vegna fjölda áskorana. „Best er ef við erum í upphafi leikárs að taka með okkur eitthvað efni frá fyrra ári eða jafnvel fyrri árum, og það erum við að gera núna því Elly er komin aftur, fimm árum síðar. Við frumsýndum verkið fyrir sjö árum síðan og það var leikið í tvö ár. Nú er það á sviðinu aftur og áhuginn leynir sér ekki því við erum búin að selja upp á 13 sýningar.“
Það hlýtur að teljast nokkuð gott á ekki stærri markaði en raun ber vitni og Brynhildur samsinnir því, með skýringu á reiðum höndum. Hana er að finna í erfðaefni okkar Íslendinga. „Við erum sérstök, við erum sagnaþjóð og við elskum að láta segja okkur sögur, og ég held að þetta sé í DNA-inu okkar – við erum ennþá fólkið í baðstofunni sem þurfti bara að láta segja sér sögu til að komast annað í huganum og þannig í gegnum lífið.“

Hulunni svift af Ladda

Það er nefnilega það, og sögurnar sem Borgarleikhúsið ætlar að segja í vetur ættu að flytja leikhúsgesti á öllum aldri vítt um lönd. „Tökum Ladda til að mynda. Snillingurinn, ljúflingurinn og þjóðargersemin hann Laddi, sem er búinn að gleðja kynslóðir Íslendinga – áratugum saman – hann ætlar að koma og vera hjá okkur á stóra sviðinu frá og með mars án næsta ári og beinlínis ljóstra því upp hver Laddi er. Sýningin heitir Þetta er Laddi og er nýjasta smíð Ólafs Egils Egilssonar sem skrifaði og leikstýrði hinu áðurnefnda og geysivinsæla verki 9 líf.“
Hátíðasýningin Borgarleikhússins að þessu sinni er svo Ungfrú Ísland, byggð á samnefndri verðlaunaskáldsögu sem sem er ein vinsælasta bók Auðar Övu Ólafsdóttur.“ Þetta magnaða verk Auðar Övu fjallar um ungt fólk í Reykjavík árið 1963, á tímum þegar karlmenn fæddust skáld og konum var boðið að verða ungfrú Ísland. Þetta er ógleymanleg saga sem gerist fyrir 60 árum síðan en hefur engu að síður svo sterka skírskotun og talar inn í samtímann. Hér er fjallað um sköpunarþrána og þörfina til að skapa en samfélagið býður þér ekki upp á það. Þetta er alveg veruleiki margra. Björninn er ekki unninn, hvorki í kvennabaráttu né málefnum hinsegin fólks þar sem við höfum séð ákveðið bakslag hin seinni ár.“

Gullaldarklassík og forboðin ást á fjöllum

„Svo erum við með bandaríska gullaldarklassík, Kött á heitu blikkþaki eftir Tennessee Williams, þar sem stórafmælisveisla snýst upp í eldfimt ástand allskonar tilfinningaspennu, sígilt og mikið drama í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar, og þetta er aðeins í annað sinn sem þetta sögulega verðlaunaverk er sett upp af atvinnuleikhúsi hér á landi. Í beinu framhaldi af klassíkinni langar mig svo að nefna nýtt og bráðfyndið bandarískt leikrit, Óskaland. Þar segir frá sjötugum hjónum sem hafa verið saman í 50 ár en nú er svo komið að þau ætla að skilja. Það neita hinsvegar synirnir og tengdadóttirin að sætta sig við!“ Brynhildur hlær við tilhugsunina. „En þetta er ekki leikrit um gamalt fólk heldur um frelsi fólks og eignarhald uppkominna barna á foreldrum sínum.“
Fjallabak nefnist leikgerð Borgarleik-hússins á hinni geysivinsælu kvikmynd Brokeback Mountain frá 2005. Þar segir frá kúrekunum Ennis Del Mar og Jack Swift sem kynnast við smölun í fjallahéruðum Wyoming um miðbik síðustu aldar og þvert á öll gildi samtíma síns laðast þeir hvor að öðrum. „Hér erum við að stíga svolítið fallegt skref, að okkur finnst, að segja sögu af karlmönnum sem búa við þær aðstæður að þeir hafa ekki einu sinni hugmyndaflug í að láta sér detta í hug að þeir gætu hugsanlega fallið hvor fyrir öðrum. Tilfinningar sínar geta þeir ekki látið í ljós því slíkt væri upp á líf og dauða. Þarna erum við með tvo af fremstu karlleikurum hússins í tímalausri sögu um ást í meinum.“

Að skilja eftir fallegt fingrafar á sálinni

Borgarleikhúsið er sjálfseignarstofnun, ekki á ríkisstyrk en á 40% styrk frá Reykjavíkurborg eins og Brynhildur útskýrir. „Í þeim samningi felst meðal annars að við bjóðum hingað 4500 börnum úr grunnskólum og leikskólum Reykjavíkur, endurgjaldslaust í leikhús á hverju einasta ári, á sýningar sem eru sérsniðnar fyrir hvern aldurshóp. Og það er burðugt leikhús en ekki bara eitthvað húllumhæ. En að vera með 60% sjálfsafla í leikhúsi, það er satt að segja hálfgerð sturlun. Svo mikið hefur verið sagt á menningarsíðum dagblaðanna, en einhvern veginn gerum við þetta,“ bætir hún við og kímir. „Það sem knýr okkur áfram í Borgarleikhúsinu er að sýna fólki hvað gerist það situr í fullum sal og upplifir eitthvað sameiginlegt því leikhúsið getur búið til þessa töfra. Það er upplifun sem skilur eftir sig fallegt fingrafar á sálinni og getur opnað inn í áður óþekktar óravíddir og skilið okkur þar eftir – orðlaus, en samt með öll orðin tilbúin.“

Texti: Jón Agnar Ólason

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0