Listasafnið okkar

Listasafn Íslands er þjóðlistasafn Íslands, stofnað í Kaupmannahöfn 1884 af Birni Bjarnasyni síðar sýslumanni Dalamanna og alþingismanni. Árið 1916 er safnið gert að deild innan Þjóðminjasafns Íslands, og árið 1950 er ráðin fyrsti forstöðumaður safnsins, Selma Jónsdóttir og safninu fengin staður á efstu hæð nýrrar byggingu fyrir Þjóð- og Listasafn Íslands við Suðurgötu. Safnið flutti sig síðan í sitt eigið húsnæði árið 1988, að Fríkirkjuvegi 7, við Tjörnina. Þær sýningar sem eru nú í gangi á Listasafni Íslands eru; Muggur – Guðmundur Thorsteinsson, og þann sérstaka myndheim sem listamaðurinn bjó til. Fjársjóður Þjóðar, þar sem perlur í íslenskri myndlist, lykilverk í eigu safnsins eru sýnd, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Halló, geimur, þar sem skyggnst er í undraveröld himingeimsins með hjálp listaverka Listasafns Íslands. Forstöðumaður Listasafns Íslands er Harpa Þórsdóttir, fimmti forstöðumaður safnsins, og þriðja konan sem gegnir þessu embætti.

Listasafn Íslands á miðri mynd, hægra megin við Fríkirkjuna, er í byggingu sem Guðjón Samúelsson hannaði sem íshús árið 1916. Síðan 1988 hefur Listasafn Ísland verið þarna til húsa. 

Þegar ég var að taka myndina af Listasafni Íslands, sá ég þessa mynd. Færði ég sjónarhornið í norðaustur, og fékk þá þetta augnablik af Ráðhúsi Reykjavíkur og Dómkirkjunni í dagrenningu. Sami staður, sami tími, önnur mynd. 

 

Reykjavík 19/11/2021 08:59 & 09:00 – A7R III : FE 1.4/85mm GM

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson