Það geta ekki allir staðir verið Gullfoss og Geysir, náttúruundur sem hátt í tvær milljón ferðamanna heimsækja á hverju ári. Það eru til staðir sem eru beinlínis ljótir á Íslandi, staðir sem fólk ætti alls ekki að heimsækja. Öxarfjörður norður í landi, Bíldudalur á Vestfjörðum eða Laki norðan við Kirkjubæjarklaustur á suður, líklegast suðausturlandi, staðir sem ætti að forðast eins og heitan eldinn.
Auðvitað er þetta grín. Allt einstaklega fallegir staðir. Íslensk náttúra er sérstök, það er veðrið, árstíðin og birta sem býr til ógleymanleg augnablik á þessum stöðum. Það er engin staður sem maður ætti að forðast í lýðveldinu, nema ofrukkuð bílastæði við náttúruperlur. Auðvitað er lagi að taka gjald fyrir þjónustu, en það er ekki lagi ef það er ekki hægt að stoppa og upplifa íslenska náttúru landsins án þess að greiða gjald á hverjum einasta stað fyrir að leggja bílnum. Stöðum þar sem er engin þjónusta, ekki einu sinni salerni. Við þurfum að ganga vel um landið, og líka koma fram við þá sem ferðast um landið af sanngirni, taka hæfilegt gjald fyrir vöru og þjónustu, þá verða allir staðir fallegir, jafnvel þeir ljótu…
Ísland 29/08/2024 : A7R III, RX1R II – 2.0/35mm Z, FE 2.8/90mm G, FE 1.2/50mm GM
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson