Viðamikil yfirlitssýning á verkum listakonunnar Louisu Matthíasdóttur (1917-2000) þar sem kærkomið tækifæri gefst til að fá yfirsýn yfir feril listakonu sem á einstakan hátt hefur túlkað íslenskt landslag.
Á sýningunni má vel sjá þá breidd sem býr í verkum hennar. Nærumhverfi hennar varð í langflestum tilfellum efniviður verkanna, hvort sem um var að ræða landslag, uppstillingar eða myndir af henni sjálfri. Hún málaði fjöldann allan af sjálfsmyndum sem sýna raunsanna mynd af listakonunni – og eins málaði hún gjarnan vini og vandamenn við leik og störf. Uppstillingar hennar innan af heimilinu málaði hún í hreinum og tærum litum og formum. Verk hennar hafa yfir sér ákveðna kyrrð og hreinleika sem endurspeglar e.t.v. persónu listakonunnar og yfirbragð. Jafnvel þótt hún byggi mestan hluta ævi sinnar fjarri föðurlandinu málaði Louisa margar myndir af íslensku landslagi og Reykvískum götumyndum auk verka erlendis frá.
Louisa er einn af fremstu listamönnum Íslendinga á sviði málaralistar. Hún ólst upp í Höfða frá átta ára aldri en fjölskylda hennar bjó í húsinu frá 1925 – 1937. Louisa byrjaði snemma að teikna og mála og var í hópi framsæknustu listamanna sinnar kynslóðar strax á unga aldri. Hún var hluti af hópi fólks sem hittist gjarnan í Unuhúsi við Garðastræti, en þar var athvarf skálda og listamanna í Reykjavík á fyrri hluta tuttugustu aldar.
Louisa fór ung til listnáms í Danmörku og síðar í París en sneri aftur heim 1939. Hún hélt til frekara myndlistarnám í New York árið 1942 þar sem hún settist síðan að með bandarískum eiginmanni sínum, listmálaranum Leland Bell. Einföldun og föst formbygging einkenna verk Louisu. Þótt hún fyndi myndefni í sínu nánasta umhverfi og málaði heimilið og fólkið í kring um sig var Ísland henni ætíð innblástur. Louisa málaði landið á þann hátt að tær náttúra Íslands skín í gengum frjálslega endurgerð þess landslags sem hún upplifði í æsku.
Louisa tilheyrið hópi virtra listamanna vestanhafs og hélt sína fyrstu einkasýningu í Jane Street Galleríinu árið 1948 og árið 1958 í Tanager Gallery, auk þess sem hún tók þátt í fjölda samsýninga. Í áraraðir sýndi Louisa ekki mikið hér á landi en árið 1993 var efnt til sýningar á verkum hennar á Kjarvalsstöðum og hún var einnig meðal 28 íslenskra listamanna sem áttu verk á sýningunni Íslensk málverk á 20. öld í Hong Kong og síðar í Peking árið 1998. Hún átti einnig verk á sýningu tólf kvenna í Norræna húsinu árið 1998 og það sama ár var fyrsta sýningin á pastelmyndum hennar í Hafnarborg í Hafnarfirði.
Við opnun sýningar í New York árið 1963, þegar Louisa hafði verið búsett erlendis í meira en tvo áratugi, sagði hún að sig langaði til að mála íslenskt landslag því það væri henni mjög hjartfólgið. Það kemur greinilega fram í myndum hennar frá Íslandi sem eru alveg einstakar, bæði í einfaldleika og litbrigðum. Hún málaði verk sem byggðu á minningum hennar frá landinu en þegar hún fór að geta verið meira á Íslandi þá málaði hún það sem hún sá, mótívin birtust henni við hver gatnamót í gamla miðbænum þar sem hægt var að sjá til sjávar. Fjöll bernskunnar hafði hún í bakgrunninum, þau voru henni stöðugt í minni þó svo að hún byggi á fjarlægri strönd.
Louisa var heimsborgari sem hugsaði og málaði á íslensku. Sjálf sagði hún að uppvaxtarárin í Höfða og fjallasýnin þaðan hefðu haft mikil áhrif á sig: „Ég horfði á Esjuna dagsdaglega í tíu ár, svo hún hlaut að festast í mér. Ég er enn að mála þessi mótíf: Esjuna, Skarðsheiðina, Akrafjallið og allt það.“