Haraldur Jónsson: Róf

Sýningaropnun – Haraldur Jónsson: Róf
Yfirlitssýning á Kjarvalsstöðum
Yfirlitssýning á verkum myndlistarmannsins Haraldar Jónssonar, Róf, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum, laugardag 20. október kl. 16.00.

Verkin á sýningunni spanna tæplega þrjátíu ára feril Haraldar en sýningin er hluti af því markmiði Listasafns Reykjavíkur að rannsaka og kynna feril mikilsverðra starfandi listamanna.

Sýningin dregur fram sérstöðu listamannsins í íslensku listalífi. Ferill hans er fjölbreyttur og miðlarnir ólíkir en rauði þráðurinn er tilraun til þess að eima tilveruna. Í þrjá áratugi hefur Haraldur í verkum sínum skoðað hvernig við greinum umhverfi okkar, vinnum úr upplifun, tjáum okkur og eigum í samskiptum hvert við annað. Hver eru tengsl manns og rýmis, vitundar og umhverfis?

Haraldur Jónsson er fæddur árið 1961 í Finnlandi. Hann nam við Myndlista- og handíða-skóla Íslands 1984-87, við Listaakademíuna í Düsseldorf í Þýskalandi 1987-90 og varð Meisterschüler árið 1990. Verk Haraldar hafa verið sýnd á öllum helstu sýningarstöðum hér á landi en einnig alþjóðlega. Sýningin Róf teygir anga sína út fyrir sýningarsalinn, út í forsal Kjarvalsstaða, á Flókagötu, Klambratún og víðar.

Hluti verka Haraldar felst í þátttöku sýningargesta og gjörningi. Titilverk sýningarinnar, Róf, felst í uppsetningu litaðra gluggatjalda í gluggum íbúa við Flókagötuna. Á opnun verður fluttur gjörningurinn Fiðrildi sem er unninn af tvítyngdum þátttakendum. Daginn eftir, sunnudaginn 21. október, fer fram leiðsögn listamanns, kl. 14.00 sem lýkur á þátttöku gesta í fullgerð verksins Litun.

Á meðan sýningin stendur verður gestum boðið á auglýstum tímum að sérfræðingur dragi úr þeim blóð og er það endurgerð verks Haraldar frá 1998, Blóðnám. Þá verða nýir og eldri gjörningar hluti af virkjun skúlptúrs á sýningunni laugardagana 10. nóvember, 8. desember og 12. janúar.

Í tengslum við sýninguna gefur Listasafn Reykjavíkur út veglega sýningarskrá. Þar fjallar Sigríður Þorgeirsdóttir um listina að unna annmörkum, Sjón skrifar um gátur í samhengi verka Haraldar, Markús Þór Andrésson fer yfir sköpunarsögu listamannsins og rödd hans sjálfs birtist síðan í líflegu viðtali sem Kristín Ómarsdóttir tók við Harald. Auk sýningarskrárinnar er sýningunni fylgt eftir með viðamikilli dagskrá.

Sýningarstjóri og ritstjóri sýningarskrár er Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur.

Dagskrá

Laugardag, 20. október kl. 16.00
Opnun sýningarinnar Róf og þátttökuverkið Blóðnám

Sunnudag, 21. október kl. 14.00
Leiðsögn listamanns og þátttökuverkið Blóðnám

Sunnudag, 21. október kl. 15.00
Gjörningurinn Litun

Sunnudaga, 4. og 18. nóvember, 2. og 30. desember og 13. og 27. janúar, kl. 14.00
Þátttökuverkið Blóðnám

Laugardaga, 10. nóvember, 8. desember og 12. janúar kl. 15.00
Gjörningur