Tvær sýningar verða opnaðar í Hafnarborg föstudaginn 25. ágúst kl. 20. Það eru sýningarnar Málverk – ekki miðill í aðalsal safnsins og samanstendur að verkum níu listamanna og sýningin Erindi, innsetning Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur, verður opnuð í Sverrissal.
Haustsýning Hafnarborgar 2017 er sýningin Málverk – ekki miðill. Á sýningunni eru verk eftir Fritz Hendrik Berndsen, Hildi Bjarnadóttur, Huldu Stefánsdóttur, Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur, Jakob Veigar Sigurðsson, Magnús Helgason, Melanie Ubaldo, Sigurð Guðjónsson og Þorgerði Þórhallsdóttur.
Sýningarstjóri Málverk – ekki miðill er Jóhannes Dagsson en hugmynd hans að sýningunni var valin úr innsenndum sýningartillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu í Hafnarborg árið 2017. Sýningin fjallar um málverkið og forsendur þess í því eftir-miðla umhverfi sem einkennir list samtímans. Hún er tækifæri til að hugsa um þá hugmynd að málverk verði best skilið sem eitthvað annað en sá miðill sem listamaðurinn velur sér að vinna í.
Í sýningunni Erindi skoðar Anna Júlía Friðbjörnsdóttir breytingar í vistkerfinu sem myndgerast í smáfuglum sem reglulega finnast á Íslandi. Verkin bregða upp ólíkum kerfum sem tengjast skrásetningu tegunda og siglingarfræði. Þau eru innblásin af evrópskum sönglögum 19. aldar og samfélagsmálefnum nútímans.
Á sýningartímabilinu verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Sunnudaginn 3. september kl. 14 verður Anna Júlía Friðbjörnsdóttir með listamannsspjall, málþing í tengslum við sýninguna Málverk – ekki miðill fer fram fimmtudagskvöldið 14. september kl. 20 og sunnudaginn 1. október kl. 14 verður Jóhannes Dagsson með sýningarstjóraspjall.
Sjá nánar um sýninguna hér og hér.
Málverk – ekki miðill er sjöunda sýningin í haustsýningaröð Hafnarborgar þar sem hugmynd sýningarstjóra er valin úr innsendum tillögum. Áður hafa verið settar upp, sem hluti af sama verkefni, sýningar Ólafar Gerðar Sigfúsdóttur mannfræðings, Í bili, haustið 2011, sýning Guðna Tómassonar listsagnfræðings, SKIA, haustið 2012, sýning Önnu Maríu Bogadóttur arkitekts, Vísar-húsin í húsinu, haustið 2013, sýning Helgu Þórsdóttur, Rás, haustið 2014, sýning Aðalheiðar Valgeirsdóttur myndlistarmanns og listfræðings og Aldísar Arnardóttur listfræðings, Heimurinn án okkar, haustið 2015 og sýning Rúnu Thors, vöruhönnuðar, og Hildar Steinþórsdóttur, arkitekts, Tilraun – leir og fleira, haustið 2016.
Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir og vera vettvangur þar sem myndlist fær notið sín mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Hafnarborg kallar nú eftir tillögum að haustsýningu árið 2017. Frekari upplýsingar um má nálgast á heimasíðu Hafnarborgar: www.hafnarborg.is
Nánari upplýsingar veitir:
Áslaug Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar, s. 694-3457 Jóhannes Dagsson, sýningarstjóri, s. 663-1183 Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, listamaður, s. 691-4139
Dagskrá:
Listamannsspjall, Erindi
Sunnudag 3. september kl. 14
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir
Málþing um Málverk – ekki miðill
Fimmtudag 14. september kl. 20
Sýningarstjóraspjall, Málverk – ekki miðill
Sunnudag 1. október kl. 14
Jóhannes Dagsson
Nánar um dagskrá á heimasíðu safnsins: www.hafnarborg.is