Nýsköpun í anda Nordic Built sáttmálans
Norræni byggingariðnaðurinn tekur höndum saman um sjálfbærni
Nordic Built er eitt af sex svonefndum kyndilverkefnum sem stofnað var til í tengslum við mótun nýrrar stefnu um samvinnu í iðnaðar- og nýsköpunarmálum, með áherslu á grænan vöxt, sem norrænu viðskipta- og iðnaðarráðherrarnir samþykktu í október 2011. Norræna ráðherraráðið fjármagnar verkefnið ásamt Nordic Innovation, sem er í forsvari fyrir framkvæmd þess.

_MG_7450Sáttmáli og samkeppni
Með því að hvetja til samvinnu á milli landa og atvinnugreina vilja Norðurlöndin stofna til nýstárlegs samstarfs sem skilar nýsköpun í byggingariðnaði. Markmiðið er að samkeppnisandinn í greininni stuðli að nýjum hugmyndum sem koma Norðurlöndunum í forystu hvað varðar vistvæna byggð.
Nordic Built fer fram í þremur tengdum áföngum á tímabilinu 2012-2014. Í fyrsta áfanga verkefnisins hefur áhersla verið lögð á að skilgreina þær sameiginlegu áskoranir og tækifæri sem norræni byggingariðnaðurinn stendur frammi fyrir. Sú vinna leiddi til Nordic Built sáttmálans, Nordic Built Charter, sem er kjarni verkefnisins.

A9R272FVerkefninu ýtt úr vör
Þann 8. ágúst síðastliðinn undirrituðu 20 stjórnendur úr norræna byggingariðnaðinum Nordic Built sáttmálann í Kaupmannahöfn, og sýndu þar með vilja sinn til framþróunar. Með undirskriftinni gefa þeir fyrirheit um að fylgja tíu meginreglum Nordic Built sáttmálans í starfi sínu og fyrirtækja sinna, og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að þróa samkeppnishæfar lausnir í sjálfbærri mannvirkjagerð. Af Íslands hálfu undirrituðu sáttmálann Óskar Valdimarsson f.h. Framkvæmdasýslu ríkisins, Helga Jóhanna Bjarnadóttir f.h. EFLU verkfræðistofu, Sigurður Einarsson f.h. Batterísins arkitekta og Sigríður Björk Jónsdóttir f.h. Vistbyggðarráðs. Þessir aðilar hafa tekið að sér að vera sendiherrar verkefnisins á Íslandi og kynna það innan mannvirkjageirans.