Það eru tvær mjög ólíkar ljósmyndasýningar í gangi í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, sem er hluti af Borgarsögusafni Reykjavíkur. Í Skotinu er sýningin, Lýðveldishátíðin 1944, en þann 17. júní næstkomandi eru áttatíu ár síðan við urðum loksins sjálfstæð þjóð. Myndir sem sýna stemminguna í kulda og trekki á Þingvöllum 17. júní 1944, og síðan hátíðarhöldin í Reykjavík, sólarhring síðar í sól og sumaryl. Hin sýningin er Myndir ársins 2023, sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands, en hún hefur verið haldin árlega frá árinu 1980. Sýningin er ein af fjölsóttustu sýningum ársins, enda hafa flestir gaman af því að sjá góðar ljósmyndir sem spegla samtímann. Hvort sem það eru eldsumbrot í Grindavík, Palestínskir flóttamenn í Reykjavík, stríðið austur í Úkraínu eða bara mark skorað í handbolta. Fréttamynd ársins tók Kristinn Magnússon á Morgunblaðinu af hrærðum Grindvíkingum, og mynd ársins tók Golli á Heimildinni af Palestínskum flóttamanni hengja upp jólaskraut.
Reykjavík 02/05/2024 : A7C R – FE 1.4/24mm GM
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson