Nýjung sem slær í gegn í Stykkishólmi

Ókeypis netaðgangur fyrir alla ferðamenn sem sækja Stykkishólm heim

Stykkishólmur hefur ekki farið varhluta af fjölgun ferðamanna á Íslandi. Varla er ofmælt að tala um að þessi vinalegi og fallegi bær við innanverðan Breiðafjörð sem telur alls 1.100 íbúa hafi á síðustu misserum upplifað algert ævintýri í ferðaþjónustu. Hvar sem litið er í „Hólminum“ má sjá ferðamenn á kreiki. Veitingastaðir eru fullir af fólki. „Staða ferðamála er allgóð hér í Stykkishólmi miðað við það hversu margir gestir koma hingað. Það bendir til að bærinn sé vinsæll áfangastaður. Þar kemur margt til. Við erum á þjóðleið samganga við Breiðafjörð og í nágrenni við þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Síðan er margt að sjá hér hjá okkur í Stykkishólmi. Það er því eftirspurn eftir því að koma hingað,“ segir Sturla Böðvarsson bæjarstjóri.

Atvinnuvegur með störf árið um kring
Sjálfur er Sturla fyrrverandi þingmaður til margra ára.  Hann gegndi einnig stöðu samgönguráðherra um átta ára skeið frá 1999 til 2007. Sem slíkur var hann æðsti yfirmaður ferðamála á Íslandi. Sturla hefur því ákveðna reynslu og innsýn í málaflokkinn. „Ferðamannastraumurinn hingað í Stykkishólm hefur aukist geysilega mikið. Hið góða er svo að fjölgunin er að dreifast á allt árið. Ferðamenn eru að koma hingað um vetur, á haustin og um vor. Áður var umferðin mest um hásumarið. En sem betur fer eru viðskipti við ferðamenn allan ársins hring í dag. Vöxturinn er sannast sagna ævintýri líkastur. Þetta gerir ákveðnar kröfur. Við þurfum að vanda okkur.“
Fjölgun ferðamanna kemur sér afar vel fyrir atvinnulífið í Stykkishólmi. Sturla segir að ferðaþjónustan í bænum hafi á síðustu misserum þróast þannig að nú megi tala um hana sem heilsárs atvinnuveg. „Ég lít svo á að það sé orðið þannig núna. Við hjá Stykkihólmsbæ höfum meðal annars brugðist við með því að hafa söfnin hér í bænum opin yfir veturinn. Við erum að reka saman bæði Vatnasafnið og Eldfjallasafnið og það eru mikil tengsl við Byggðasafnið. Það eru margir sem hafa áhuga á söfnunum okkar. Við trúum því að fólk sé að koma hingað allan ársins hring, ekki bara til að gista, heldur til að kynnast bænum, sjá gömlu húsin og virða fyrir sér þessa menningarsögu sem er á bak við byggðina sem hefur staðið hér allt frá 18. öld.“

Mikil og vaxandi uppbygging
Ör fjölgun ferðamanna reynir óneitanlega á inniviðina í ekki stærra bæjarfélagi. Aðspurður hvort framboð á gistirými, veitingum og annarri þjónustu anni slíkri umferð segir Sturla að mestu álagstímarnir geti sannarlega reynt á. „Núna í ágúst virtist til dæmis allt vera fullt. Við vorum ekki að anna öllu. Það hefur verið mikil auking í eftirspurn eftir gistiaðstöðu í bænum, bæði í heimagistingu og á hótelum. Þó hefur verið bætt úr og gistirýmum fjölgað. Hér er nýlega búið að opna gott hótel þar sem áður var barnaheimili Fransiskusystra. Það er geysilega góð viðbót. Síðan eru hér leigðar út íbúðir á vegum félagasamtaka og svo þessi mikla heimagisting. Nú síðast er svo búið að óska eftir upplýsingum um möguleika á að fá úthlutað lóð fyrir nýbyggnu hótels. Við hér hjá Stykkishólmsbæ erum að skoða það og sjáum hvað setur. Það er alveg ljóst að það eru margir að velta fyrir sér fjárfestingum innan ferðaþjónustunnar hér í Stykkishólmi og þá fyrst og fremst í gistirými. Síðan hefur veitingastöðunum hér einnig fjölgað. Þeir eru nú opnir allt árið um kring,“ segir Sturla.

Ókeypis net og sameiginleg heimasíða
Sturla segir að það séu fyrst og fremst ferðaþjónustufyrirtækin sjálf sem veiti upplýsingar um það hvað sé í boði fyrir það fólk sem kýs að sækja Stykkishólm heim. Stykkishólmsbær er síðan í samstarfi við Markaðsstofu Vesturlands um markaðssetningu á bænum sem áfangastaðar fyrir ferðamenn.
Fjölgun ferðamanna hefur gert kröfur um bætta skilvirkni í upplýsingagjöf til gestanna sem koma alls staðar að úr heiminum. Hér hafa bæjaryfirvöld og ferðaþjónustuaðilar tekið höndum saman um að fara nýjar leiðir. „Nú í upphafi sumars tókum við þá ákvörðun að reka ekki lengur upplýsingamiðstöð þar sem fólk situr og bíður eftir því að spurt sé um einhverja hluti. Í staðinn er opinn þráðaus internetaðgangur sem ferðamenn geta nýtt sér án þess að greiða neitt fyrir það. Ferðaþjónustuaðilar hér í Stykkishólmi settu upp sameiginlega heimasíðu með upplýsingum um það sem í boði er fyrir gesti hér (visitstykkisholmur.is). Ferðamenn fara inn á hana um leið og þeir notfæra sér þennan ókeypis internetaðgang.“

Nýjung sem slær í gegn
Með þessari nýjung færa bæjaryfirvöld og ferðaþjónustuaðilar í Stykkishólmi sér í nyt þá staðreynd að flestir ferðamenn í dag eru með snjallsíma sem hæglega má nota til að vafra um á óravíddum internetsins. Sturla segir að Stykkishólmsbær kosti fyrir sitt leyti reksturinn á þessu netsambandi. Upphæðin sem fer í það er óveruleg samanborið við ávinninginn og hagræðið, auk þess sem stórfé sparast árlega með því að nú þarf ekki lengur að halda opinni upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. „Þetta er algerlega ný braut sem við höfum rutt hér í Stykkishólmi. Þetta hefur gefist vel. Inn á þetta netsamband fara fleiri hundruð manns á hverjum degi. Fólk tyllir sér hér niður og rýnir í netið. Við ætlum að halda þessu áfram, læra af reynslunni sem við höfum fengið nú í sumar og þróa betur þessa sameiginlegu heimasíðu með fleiri upplýsingum til ferðamanna og leita frekara samstarfs við þá sem best þekkja til í þessari markaðssetningu. Ég met það svo að þetta sé framtíðin. Nútíminn hefur hafið innreið sína hér í Stykkishólmi hvað þetta varðar,“ segir Sturla Böðvarsson bæjarstjóri.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0