„Nýsköpun skemmtilegri en skipulagsmálin“

Gestur Ólafsson er maður sem lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi, hafi það á annað borð með velferð og vellíðan þegnanna að gera. Eftir áratuga starf sem arkitekt og skipulagsfræðingur er hann um þessar mundir á kafi í áhugaverðri frumkvöðlastarfsemi og hefur sem fyrr bæði nóg fyrir stafni og sterkar skoðanir á hlutunum.

„Það stendur upp á þá sem standa að opinberum framkvæmdum að fara vel með fjármuni almennings. Það er bara grundvallaratriði,“ segir Gestur þegar talið berst í byrjun að skipulagsmálum. „En ítrekað gerist það að fólk sem hefur komið sér í valdastöður heldur því fram alveg pukrunarlaust, að það sé enginn munur á því annars vegar að teikna hús, og hins vegar að stjórna dýnamísku og síbreytilegu kerfi sem er borgarsamfélagið, sem er miklu flóknara fyrirbrigði heldur en að teikna hús – þó það geti verið nógu flókið út af fyrir sig – og þetta bara viðgengst óáreitt.“

Ábyrgðarleysi og hagsmunir

Það sem helst plagar skipulagsmálin um okkar daga er að mati Gests ábyrgðarleysi. „Það er enginn sem vill taka ábyrgð á sig lengur. Í gamla daga vorum við með starfsgreinina bartskera, eða rakara. Það voru menn sem kunnu að fara með hnífa og tóku því að sér að gera allt mögulegt annað en hárskurð og skeggsnyrtingu.“ Þarna á Gestur við hinar ýmsu aukavinnur sem rakarar fengust við í eina tíð með rakníf og önnur áhöld, meðal annars tanndrátt, blóðtökur, jafnvel minni háttar skurðaðgerðir og aflimanir. „Svo kom að því að ákveðið var að þetta fyrirkomulag gengi ekki lengur, menn yrðu að kunna almennilega til verka áður en þeir fengju að spreyta sig með hnífinn á mannslíkamanum. Við erum því miður ekki komin jafnlangt í skipulagsmálunum og þetta ástand er núna farið að kosta okkur tugi milljarða á hverju ári – að nauðsynjalausu“

Og hvernig skyldi standa á því? Ekki stendur á svari hjá Gesti. „Hagsmunir, peningar. Líttu á Borgarlínuna og þann tíma og fjármuni sem sú vitleysa er búin að taka. Ég held að það séu tvær eða þrjár verkfræðistofur sem eru búnar að sjúga sig fastar á þetta verkefni og geta verið með fjölda manns í vinnu við það, og senda svo stóran reikning fyrir þá vinnu í hverjum mánuði. Jafnmargar eða fleiri arkitektastofur eru að hanna mismunandi útfærslur á dótinu og það fær enginn að sjá þetta. Það erum samt við, almenningur, sem erum að borga þetta – þetta eru okkar peningar – en það er enginn stjórnmálamaður sem stendur upp og segir krakkar mínir, hingað og ekki lengra.“

Best að leggja þessa stofnun niður!

Slíkir hagsmunir ráða ekki bara verkefnum, að sögn Gests – þeir geta hreinlega ráðið niðurlögum mikilvægra, opinberra starfseininga. Dæmi um það eru t.d. örlög Húsnæðisstofnunar, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins sem Gestur veitti forstöðu. „Við tókum fyrir ákveðin mál á Skipulagsstofunni, og það reyndist lærdómsríkt. Fyrst er að nefna frárennslismál á höfuðborgarsvæðinu, sem við bentum á að væru í ólestri, og ekki forsvaranlegt fyrir okkur sem samfélag að láta þetta vera svona. Ástandið var skelfilegt og kvartað var undan því á Akranesi að í sunnanátt fylltust fjörurnar þar af smokkum sem sturtað hafði verið niður í klósettin í Reykjavík. Við tókum þetta mál fyrir og lögðum fram tillögur til úrbóta. Mörgum fannst að þarna værum við að skapa útgjöld fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Hitt málið var að við fengum mjög góðan jarðfræðing, Jón Jónsson, til að gera jarðfræðiúttekt á berggrunni höfuðborgarsvæðisins sem við erum að byggja á. Hann benti á að rétt austan við höfuðborgarsvæðið er einn af fjórum, stórum sprungusveimum sem liggja yfir Reykjanesskagann. Við áttuðum okkur á því að þetta væri alvörumál og því óvarlegt annað en að taka tillit til þessa við frekara skipulag og framkvæmdir. Það varð allt vitlaust, og í kjölfarið var snarlega ákveðið að leggja þessa Skipulagsstofu niður, fyrir að benda á svona óþægileg mál sem gætu kostað peninga!“
Gestur bendir í framhaldinu á að engum dytti í hug að láta aðila sjá um jafn flókið verkefni og heilaskurðaðgerð nema viðkomandi hefði til þess menntun, kunnáttu og tilhlýðilegt próf. Samt sem áður viðgangist hér á landi að fólk er að fást við svo flókið verkefni sem skipulagsmál eru án þess að hafa til að bera grundvallarmenntun í skipulagsfræðum. Fyrir bragðið fái að hans mati margs konar vitleysa að viðgangast sem skoða þyrfti miklu betur. Þá skorti einnig víða langtímahugsun þegar ráðist er í hin ýmsu verkefni. „Tökum dæmi. Kaldárbotnar er eitt af stóru vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins, og því mjög dýrmæt auðlind. Með það í huga tel ég rétt að athuga talsvert betur þessa kolefnisniðurdælingu sem verið er að skoða núna í landi Hafnarfjarðar. En hagsmunirnir eru bara svo fyrirferðarmiklir að ég veit ekki hvernig við eigum að vinna okkur út úr þeim ógöngum sem skipulagsmálin eru víða komin í, án þess að ég sé nokkuð að minnast á staðarval Landspítalans og Sundabraut.“

Úr skipulagsmálum í nýsköpun

Það er meðal annars að samanlögðum framangreindum umræðuefnum sem Gestur er meira eða minna orðinn afhuga skipulagsmálum hér á landi og finnst þau heldur leiðinleg viðfangs. Ungt fólk sem fer með stórfé í að læra skipulagsfræði við bestu háskóla, austan hafs og vestan fær oft lítið að nýta þessa sérfræðiþekkingu hér á landi. Það þýðir þó engan veginn að hann sitji auðum höndum nú um stundir. „Þess vegna ákvað ég á gamals aldri að fara út í þörungarækt, sem er oft miklu skemmtilegri. Ekki síst vegna þess að þörungar bregðast alltaf við með rökréttum hætti,“ segir hann kíminn. „Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur, Bjarni Bjarnason tryggingasérfræðingur og ég stofnuðum í þessum tilgangi fyrirtæki sem heitir Hyndla og höfum verið að rækta þörunga uppi á landi, bæði til manneldis, en einnig innihalda þeir ýmis verðmæt efni. Okkar ræktunaraðferð er einnig umhverfisvæn og hefur engin neikvæð áhrif á vistkerfið. Til þessa fengum við aðstöðu hjá Hafró, á Stað, rétt vestan við Grindavík.“

Vítamínríkur og notadrjúgur

Gestur bendir á að í þörungum sé að finna efni með geysimikla möguleika fyrir mannkynið. „Þetta er virkilega spennandi viðfangsefni og við erum sannfærð um að þetta verður framtíðarfæða manna í umtalsvert vaxandi mæli. Áður en mannkynið tók að klifra upp í trén, með ákveðnum afleiðingum, þá vorum við að öllum líkindum í fjörunni og lifðum á þessum gróðri sem við fengum í flæðarmálinu. Við höfum mikið verið að rækta íslenskan rauðþörung sem heitir klóblaðka. Hann vex vel og margfaldar vigt sína á einum til tveimur mánuðum. Hann fannst seint hér á landi, bara fyrir nokkrum árum, er afar sérstakur og svipaður þörungur vex ekki nema á tveimur öðrum svæðum í heiminum. Fyrir utan að vera auðugur af vítamínum þá er að finna í honum litarefni sem mun koma sér vel í matvælaiðnaði, nú þegar verið er að banna alls konar gervilitarefni. Þannig er notagildið margvíslegt og ótvírætt. Hér er um framtíðarverkefni að ræða og þó ég sé kominn á níræðisaldur þá munu aðrir taka við þegar þar að kemur. Þetta er ekkert minna gaman þó ég átti mig á því að ég lifi að líkindum ekki nógu lengi til að sjá þetta verkefni klárast að fullu.“
Eins og í öllum frumkvöðlaverkefnum eru engu að síður áskoranir í þörungaræktinni sem Gestur og samstarfsfólk hans eru að fást við þessa dagana. „Þetta er dálítið flókið mál. Við viljum meðal annars ná tökum á því hvernig þörungarnir fjölga sér. Við ræktum þörungana uppi á landi, í borholusjó sem dælt er upp af 20 til 30 metra dýpi. Þessi borholusjór er fullur af öllum þeim næringarefnum sem þörungarnir þurfa og eru stöðug yfir allt árið. Hann er því ekki eins og sjórinn sem er fullur af næringarefnum á vorin en næringarsnauður í kjölfarið. Þarna getum við því verið með margar uppskerur af þörungum á hverju ári, ef við náum tökum á fjölguninni – sem við erum smám saman að gera.“

Þegar velferðin rekst utan í kerfið

Þörungaverkefnið er semsé vel á veg komið og auðheyrilega er hugur í Gesti um að sjá það ná fram að ganga svo markmið þess náist. En hann hefur komið að annars konar velferðarverkefnum sem ekki náðu fram að ganga, eins og byggingu heilsuþorpa bæði hér á landi og erlendis – hvað sem síðar kann að verða.
„Hér áður fyrr, fyrir hundrað árum, þá bjuggu fjölskyldur líka saman víða um land. Þá á ég við að foreldrar, börn, ömmur og afar bjuggu saman í einu húsnæði. Með þessu móti gat eldri kynslóðin kennt þeim sem yngri voru ansi mikið svo þekking og kunnátta glataðist ekki, auk þess sem foreldrar höfðu barnagæslu frá hendi ömmu og afa og því mikið um góða samveru. Fyrir um ári síðan teiknaði ég einbýlishús í Blesugróf sem var hannað á þeirri hugmyndafræði að þar gætu húsráðendur tekið inn foreldra sína, það er foreldra þeirra beggja, og búið með börnunum líka, og ef börnin tækju nú upp á því að skjóta sig í einhverjum gæti unnustinn eða unnustan búið þar líka. Þetta byggir á þeirri grundvallarhugmynd að þannig vistarverur, sem fólk bjó þá í hér á landi fyrir hundrað árum út um allt land hafði ýmsa kosti. Svefnherbergin í þessu einbýlishúsi voru rúmgóð, aðstaða til að hita te og kaffi á hverjum stað, salerni og sturta sem fylgdi öllum herbergjum.

Fjölskyldan skal ekki fá að búa saman

Hugmyndin fannst okkur góð og við héldum ekki að þetta yrði neitt stórmál. En þegar kom að því að fá þetta húsnæði samþykkt var þetta kolfellt hjá Reykjavík, með þeim rökum að þarna væri verið að laumast til að útbúa hótel. Tæplega tvöhundruð fermetrar í Blesugróf,“ segir Gestur og hristir höfuðið. „Samt var sameiginlegt eldhús og sameiginleg borðstofa, bara eins og á hefðbundnu heimili. Húsráðandi, sem er Vestfirðingur eins og ég og lætur því ekki bjóða sér hvað sem er, kærði það til Úrskurðarnefndar skipulagsmála. Úrskurðarnefndin sagði að athugun lokinni að þetta væri bara bull-afgreiðsla hjá Reykjavíkurborg – þetta væri einbýlishús! Svo málið er um þessar mundir hjá Reykjavíkurborg, sem reynir að halda fast við sinn keip og tefja málið eins og þau geta. Þetta er bara Ísland í dag.“
Ekki er því útséð um hverjar málalyktir verða með fjölskylduhúsið að Blesugróf en í millitíðinni er þörungaræktin ofarlega á blaði hjá Gesti – það er að segja þangað til fleiri hugðarefni banka upp á síkvikan og frjóan huga hans. Verði eitthvað á vegi hans sem varðar skipulag, velferð og almannaheill er ekki að vita nema hann láti til sín taka á þeim vettvangi.

Texti: Jón Agnar Ólason

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0