Orkuveitan horfir til framtíðar

Sævar Freyr Þráinsson

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir gríðarleg tækifæri framundan í orkuvinnslu á Íslandi. Í nýrri og metnaðarfullri stefnu fyrirtækisins til framtíðar kemur fram að auka þurfi við framleiðslu grænnar orku ásamt því að á borðinu er margvíslegt og metnaðarfullt samstarf við nýsköpunarfyrirtæki á sviði orkumála – næstu ár og áratugi.

 

 

 

Nýliðinn ársfundur Orkuveitunnar bar yfirskriftina Hrein tækifæri sem er að sögn Sævars orðaleikur með þau markmið sem Orkuveitan er að vinna með til framtíðar. „Orðið Hrein vísar til grænnar orku sem við leitumst við að auka með margvíslegum hætti, á meðan tækifærin sem við tölum um eru þau sem við höfum sem samfélag, og möguleikarnir sem við höfum sem fyrirtæki til að hafa jákvæð áhrif. Það birtist í raun í framtíðarsýn okkar sem segir einfaldlega: Við erum aflvaki sjálfbærrar framtíðar. Hvert orð hefur mikla þýðingu og merkingu fyrir okkur. Við sækjum mikinn tilgang í það sem við gerum útfrá þessari sýn.“

Tölum um tækifæri – ekki um orkuskort

„Eitt af því sem við erum að vinna með hér á landi, ekki bara hér á landi heldur um allan heim, er hlýnun jarðar og Ísland er búið að skrifa undir skuldbindingar um að taka þátt í því verkefni að vinna gegn hlýnun jarðar um eina og hálfa gráðu,“ segir Sævar. „Heimurinn ætlar sér að þrefalda umfang grænnar orku til 2030 og tvöfalda orkunýtni á sama tíma. Við erum búin að vera að ná utan um hvaða hlutverki Orkuveitan ætlar að gegna í þessu verkefni og vinna að þessum markmiðum. Við lögðumst í það að greina stöðuna og hún er bara alls ekki nógu góð. Staðan er einfaldlega sú að það er verið að tala um orkuskort á Íslandi, þegar við ættum vera að ræða um tækifærin og möguleikana.“

Við þurfum að sögn Sævars að horfa öðruvísi á möguleikana og setja þá í annað samhengi. Hvar viljum við vera eftir 10 ár eða 15 ár? „Til að ná markmiðum okkar þurfum við vissulega að framleiða næga græna orku. Og þegar ég segi græna orku þá er ég bæði að tala um raforku og varmaorku, þ.e. hitaveituna okkar. Við þurfum að auka við og bæta í beggja megin til að komast út úr því ástandi að verið sé að tala um orkuskort. Þess vegna erum við að leggja áherslu á verulega aukna orkuframleiðslu. Þegar við erum svo búin að leysa orkuskortinn þá eigum við eftir að leysa það sem kallað er orkuskiptin. Það er í rauninni okkar mikilvægasta verkefni núna og er hluti af þessari vegferð sem heimurinn er á, að færa okkur úr mengandi eldsneytisgjöfum. Ísland er vissulega komið töluvert lengra í þeim efnum en aðrar þjóðir, með hitaveitunni og öðru, en við þurfum að komast enn lengra. Við þurfum að nýta bæði heita vatnið okkar og framleiða næga græna orku svo við getum raunverulega leyst orkuskiptin.“

Straumhvörfin sem framundan eru

Þar með er aðeins hálf sagan sögð, bendir Sævar á. „En þá eigum við eftir tækifærin. Þau köllum við straumhvörfin, og við höfum búið til allskonar orð yfir það sem við sjáum sem möguleikana. Orkuskorturinn, orkuskiptin og straumhvörfin – þetta eru bara orð yfir þessi tækifæri sem við erum að sjá og við erum nú þegar í samtali við mörg af áhugaverðustu nýsköpunarfyrirtækjunum á þessu sviði, og um leið stöndum við frammi fyrir nokkrum af álitlegustu viðskiptatækifærum sem Ísland hefur nokkurn tíma séð.“

Sævar segir ástæðuna fyrir því að þessi tækifæri séu að verða til vera þá gríðarlegu gerjun sem sé að verða til í heiminum. „Gerjun sem gengur út á að það dugir ekki eingöngu að ætla að fanga koldíoxíð úr andrúmsloftinu og vera um leið með framleiðsluðaferðir sem eru mengandi. Þess í stað þarf að umbreyta framleiðsluaðferðum þannig að þær verði hreinar. Við erum í viðræðum við mögnuð fyrirtæki einmitt á þessum vettvangi sem hafa verið að þróa nýja tækni sem umbreytir framleiðsluaðferðunum sjálfum. Þannig verða til grænar framleiðsluaðferðir og í framhaldinu vilja þessi fyrirtæki vitaskuld ekki spilla sínum árangri og eyðileggja sína stefnu með því að kaupa svo orku sem ekki er framleidd með grænum hætti.“

Heimurinn er því allur að fara í mikla umbyltingu að sögn Sævars og þarf að gera það á næstu áratugum. Ísland sé í þeirri stöðu með sína grænu orku að geta fangað þessi viðskiptatækifæri, laðað þau til landsins og skapað hér umhverfi og atvinnutækifæri sem íslenskt samfélag geti verið gríðarlega stolt af. „Þarna ætlar Orkuveitan að nota sína framtíðarsýn – við erum aflvaki sjálfbærrar framtíðar – til að fanga þessa möguleika alla, og þess vegna segjum við hrein tækifæri. Því það er það sem við sjáum framundan.“  „En áherslur okkar snúast líka um jafnvægi.  Jafnvægi í landvernd, líffræðilegum fjölbreytileika, loftslagsvernd, fjárhagslegri áhættustýringu, uppbyggingu fyrir samfélagið, atvinnulífið, sveitarfélögin, efnahagslífið, með okkar samstarfsaðilum og fyrir okkar viðskiptavini.  Við þurfum að ganga fram með metnaði en sömuleiðis af ábyrgð.“ segir Sævar Freyr.

 

Nýstárlegir orkugjafar til framtíðar

Þarna liggja í senn brýnustu verkefni Orkuveitunnar og stærstu tækifærin, að sögn Sævars. „Okkar hlutverk liggur í því að vera veitu- og orkufyrirtæki, ásamt því að vera í kolefnisbindingu, þannig að við erum að valda alla reiti í þessu. Þegar þetta kemur allt saman getum við með markvissum og árangursríkum hætti unnið með þá möguleika sem fyrir hendi eru.“

Fyrir bragðið er Orkuveitan að setja alla anga út hvað þetta varðar. „Í þessu fyrirtæki býr gríðarleg þekking og hæfni í jarðvarma og við erum að skoða öll tækifæri og alla möguleika í þessum efnum. En ekki síður að skoða alla aðra möguleika á því hvernig við getum framleitt græna orku með nýjum aðferðum til framtíðar – til dæmis vindorku, birtuorku og ölduorku. Í öllum þessum flokkum erum við að leggja í vinnu á mismunandi stigum, allt frá frumrannsóknum yfir í skoðun á samstarfsaðilum þar sem tækifærin geta þróast yfir í eitthvað sem verður raunveruleg framleiðsla. og að sækja í því sjónarmiði inn nýja hæfni sem mögulega er ekki til staðar hjá okkur nú þegar.“

Þegar kemur að vindorku er Orkuveitan að skoða þau svæði sem þegar eru að einhverju leyti röskuð. „Þar viljum við setja upp vindorkumöstur og erum að fara í mælingar á þessum svæðum og ef marka má fyrirliggjandi gögn þá erum við þar með mjög álitlega möguleika á orkuvinnslu. Um leið erum við að skoða samstarf við fleiri aðila varðandi vindorku sem gæti gert það að verkum að við munum stíga frekari skref á þeim vettvangi.“

Hvað birtuorkuna varðar er litið til samstarfs með fyrirtækjum til að nýting birtu- eða sólarorku geti orðið að veruleika. „Á nýafstöðnum ársfundi var tilkynnt að við værum að huga að samstarfi við fyrirtæki sem heitir Transition Labs, sem aftur er í samvinnu fyrir fyrirtækið Space Solar, um að vinna birtuorku í geimnum en þar er sólarljósið 13 sinnum sterkara en birtan sem skilar sér niður á yfirborð jarðar, og raforkan þar af leiðandi mun öflugri,“ útskýrir Sævar. „Uppsafnaðri orkunni er svo beint til jarðar í útvarpsbylgjum á þá staði sem hennar er þörf. Þessi vinna er á rannsóknastigi og verður það væntanlega í áratug eða tugi og þar tökum við þátt með lykilaðilum.“

Sævar bætir við að Orkuveitan sé að sama skapi farin af stað með rannsóknaverkefni í ölduorku, sem sé reyndar komið skemur á veg heldur en vind- og sólarorka. „En á næstu árum eða áratugum munu þær athuganir vonandi leiða í ljós hagkvæmni í því að beisla þá orku til lengri tíma.“

Samstarfið er forsenda framfara í orkumálum

Lykilatriði í markmiðum Orkuveitunnar gengur út á það að verið er að opna fyrirtækið fyrir samstarfi, að sögn Sævars. „Það mun birtast með ýmsum hætti, meðal annars að við förum í samstarf með aðilum sem hafa hæfni og þekkingu sem ekki er til staðar hjá okkur. Þannig munum við með markvissum hætti byggja upp þessa þekkingu innan Orkuveitunnar. Sömuleiðis sjáum við fyrir okkur að orkugeirinn geti þróast með ekkert ósvipuðum hætti og hefur gerst í sjávarútvegi þar sem frekari verðmæti liggja í þeim náttúruauðlindum sem við erum nú þegar að nýta – hvort sem það er í kalda vatninu, heita vatninu, fráveitunni og svo framvegis – sem við eigum eftir að finna leiðir til að nýta og vinna. Þessu ætlum við ná fram, ekki með því að gera allt sjálf heldur finna rétta samstarfsaðila til að stuðla að því að góðir hlutir fái að raungerast. Þannig viljum við vera aflvaki sjálbærrar framtíðar og hver veit nema samstarf með öflugu nýsköpunarfyrirtæki gefi af sér nýja auðlind áður en langt um líður, eitthvað sem enginn hefur enn gert sér grein fyrir? Ég nefni sem dæmi fituna sem verður til í fráveitunni, rétt eins og ensímin í þorskroðinu og urðu þess valdandi að afskurður varð að verulegum verðmætum.“

Ný orkumiðstöð verður til

Sævar bendir að lokum á að unnið sé að því að ná öllum fimm starfseiningum samstæðunnar – sem auk Orkuveitunnar eru Orka náttúrunnar, Veitur, Carbfix og Ljósleiðarinn – undir eitt þak í höfuðstöðvunum við Bæjarháls. Engu að síður er byggingin að hans sögn talsvert of stór fyrir Orkuveituna.

„Auða plássið viljum við nýta til að draga til okkar öflugustu frumkvöðlana og ná árangri með því að rannsaka auðlindirnar og nýta möguleikana til verðmætasköpunar sem í þeim kunna að liggja. Við ætlum að búa til umhverfi fyrir þá hér í þessu húsi, í frumkvöðla- og nýsköpunarumhverfi fyrir slíka aðila og þannig getum við líka ýtt undir þann hluta stefnu okkar að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar.“

 

Author

  • Editorial

    Icelandic Times Magazine - the only magazine in Iceland published in English, German, French and now Chinese. Icelandic Times Magazine's sister publication Land og Saga is published in Icelandic.

    View all posts
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0