Reynisvatnsás

Yfir 100 sérbýli í nýju íbúðahverfi í Úlfarsárdal.

Reynisvatnsás er nýtt skipulagssvæði í Reykjavík og er svæðið eingöngu hugsað fyrir einbýlis-, par- og raðhús. Slík hverfi hafa ekki verið í boði á höfuðborgarsvæðinu lengi en stefna borgaryfirvalda er að allir sem vilja geti byggt og búið í Reykjavik og að borgin verði fyrsti búsetukostur sem flestra.

Skipulagssvæðið við Reynisvatnsás er lítt snortið svæði norðaustan við Grafarholtið. Það afmarkast til suð-vesturs af Reynisvatnsvegi, „hægakstursgötu“ sem tengir saman íbúðarbyggðina í Grafarholti og Úlfarsárdal til norð-vesturs. Óbyggt svæði liggur að hverfinu að suðaustan- og austanverðu og verndarsvæði Úlfarsár afmarkar skipulag svæðisins til norðurs. Reiturinn er í landhalla og mótast byggðin af þeim aðstæðum ásamt spennandi útsýni og nálægð við náttúruna. Aðkoman að hverfinu er um fyrrnefnda hægakstursgötu, annars vegar frá Reynisvatnsvegi Grafarholtsmegin og hins vegar frá gatnakerfi Úlfarsárdals. Suð-austan skipulagssvæðisins, ofar í Reynisvatnsási, er skógræktarsvæði sem er hluti af Græna treflinum.

Mynd01Einstakt hverfi
Í íbúðarhverfinu er gert ráð fyrir um 106 íbúðum, auk hugsanlegra aukaíbúða. Samkvæmt deiliskipulagi skiptast íbúðagerðir þannig að tæplega helmingur húsanna verður í rað-og parhúsum og rúmlega helmingurinn verður í einbýlishúsum. Aukaíbúðir, allt að 60 fermetrar, er heimilaðar á lóðum tveggja hæða einbýlishúsa þar sem skipulags- og landfræðilegar aðstæður leyfa að mati skipulagsfulltrúa.
Óskar Bergsson, formaður framkvæmdaráðs Reykjavíkurborgar, segir tilganginn að koma til móts við sífellt vaxandi eftirspurn eftir lóðum undir sérbýli. „Þarna erum við í fyrsta sinn í langan tíma að skipuleggja heilt hverfi sem eingöngu er ætlað fyrir sérbýli. Því er í raun um einstakt nýbyggingarsvæði að ræða innan borgarmarkanna og hverfið sem heild mun bera sterkan sérbýliskarakter. Umhverfið er jafnframt einstaklega fallegt og ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta hverfi verður mjög eftirsótt“ segir Óskar.

OskarBergsson1Rólegt og fjölskylduvænt
Við hönnun skipulagssvæðisins við Reynisvatnsás hefur verið lögð sérstök áherla á að hverfið verði fjölskylduvænt og aðlaðandi. Gangandi umferð innan hverfisins verður alfarið á gangstétttum meðfram götum og hverfið tengist vel aðliggjandi opnum svæðum með göngustígum. Gestabílastæði verða samsíða götum til þess að styrkja bæjarmynd og stuðla að hægum akstri. „Það verða góðar aðkomuleiðir að hverfinu og  innan  hverfisins verður 30 km hámarkshraði,“ segir Óskar.
Hefðbundið gatnakerfi verður víða brotið upp með trjágróðri, hraðahindrunum og öðrum umhverfisútfærslum sem stuðlað geta að velferð íbúanna og auknu umferðaröryggi innan hverfisins. Gert er ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð allra íbúða og að auki rúmlega einu gestastæði í götu fyrir hverja íbúð.

Aðlaðandi heildarsvipur
Gert er ráð fyrir trjáröðum beggja vegna við aðalaðkomugötu hverfisins, sem og á torgum, en Reykjavíkurborg mun gróðursetja og viðhalda trjágróðrinum. „Við munum gera ráð fyrir vönduðum yfirborðsfrágangi á götum og torgum en á gatnamótum verður yfirborð víða upphækkað og hellulagt í því skyni að stemma stigu við hraðakstri. Torgin í hverfinu verða hellulögð og prýdd lággróðri”, segir Óskar.
Útfærsla húsagerða verður að miklu leyti frjáls en þó háð skilyrðum sem ætluð eru til að ná fram aðlaðandi heildarmynd. Við hönnun húsa skal þess gætt að landkostir lóða verði nýttir sem best og að byggingar falli vel að landi. Þar sem hús verða samtengd skal samræma þakform, lita- og efnisval. Samtengd hús skulu hönnuð af sama aðila og lögð fyrir byggingarnefnd sem ein heild. Fjöldaframleidd hús skulu einnig falla undir þessa skilmála.

Útivistarparadís
Hverfið við Reynisvatnsás er við svokallaðan Grænan trefil sem umlykur höfuðborgarsvæðið.  Græni trefillinn er skipulagt útivistarsvæði þar sem skiptast á skógur og opin svæði. Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er litið á „Græna trefilinn“sem frístundasvæði fyrir allt höfuðborgarsvæðið þar sem lögð er áhersla á jafnt aðgengi allra þjóðfélagshópa. Óskar segir að Græni trefillinn muni þegar fram líða stundir, mynda hlýlega umgjörð, skapa skjól í hverfinu og bjóða uppá  frábæra útvistarmöguleika fyrir íbúana. „Hverfið í Reynisvatnsásnum er einstaklega vel staðsett hvað alla útivist varðar. Stutt verður í íþróttasvæði í Úlfarsárdalnum og ný sundlaug, vatnaparadís, mun rísa í nágrenninu. Verið er að vinna að deiliskipulagi fyrir útivistarsvæði í Úlfarsárdal og er lögð áhersla á góðar og öruggar gönguleiðir út úr hverfinu. Börnin eiga þannig að geta gengið örugg á göngustígum alla leið í skólann,“ segir Óskar.

Framboð, fjölbreytni og gæði
Skipulagssvæðið við Reynisvatnsás er eitt þeirra svæða í Reykjavík sem ætlað er að fullnægja vaxtarþörf borgarinnar á næstu árum. Hin skipulagssvæðin eru meðal annars: Úlfarsárdalur norðan ár, Slippasvæðið, Geldinganes, Örfirisey og Vatnsmýrin. Samkvæmt áætlun borgaryfirvalda, um uppbyggingu í borginni, er gert ráð fyrir 1.000 íbúðum í nýjum hverfum árlega auk áframhaldand uppbyggingar á þéttingasvæðum. „Almenna reglan er sú að lóðum undir sérbýli í hefðbundnum úthverfum verður úthlutað eins og meirihlutinn er þegar farinn að starfa eftir. Á þéttingasvæðum verða lóðirnar hins vegar boðnar út.  Þetta hefur leitt af sér lægra lóðaverð og munu  íbúar nýja hverfisins við Reynisvatnsás njóta góðs af því“ segir Óskar Bergsson og minnir á að fleiri áhugaverð hverfi í Úlfársárdal komi til úthlutunar á næstu mánuðum og misserum.  Hann bendir fólki á að fara inná vef Reykjavíkurborgar og finna svæðið Veldu þinn stað þar sem fram kemur lóðaúthlutunarstefna meirihlutans næstu fjögur árin.  Þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.