Þyrlurekstur hafinn á Suðausturlandi í fyrsta sinn
– Atlantsflug byrjar að bjóða upp á þyrluflug frá Skaftafelli
Atlantsflug hefur nýjan kafla í flugþjónustu í framhaldi af byggingu á Skaftafell Terminal – Tour Center, nýjum höfuðstöðvum félagsins í Skaftafelli. Félagið bætir nú þyrlurekstri við sína þjónustu, til viðbótar við þá flugþjónustu sem félagið hefur boðið upp á árum saman frá Skaftafelli og á Bakkaflugvelli á Suðurlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem þyrla verður staðsett á Suðausturlandi, og eru útsýnisferðir á þyrlu yfir Skaftafell og hálendi Suðausturlands nú þegar í boði.
Þyrlan er af gerðinni Airbus AS350 A-Star, en hún getur tekið 5 farþega og býður upp á fyrsta flokks þægindi í útsýnisflugi þar sem hver farþegi fær óhindraða sýn. Þyrlan er afar fjölhæf og virkar einstaklegavel í ýmis verkefni, og hafa vélar þessarar gerðar reynst afar vel hér á landi sem erlendis. Um er að ræða öfluga viðbót við þjónustu Atlantsflugs sem gerir út allt árið frá Skaftafelli á einu fjölmennasta ferðamannasvæði landsins sem býr yfir fjölbreyttri flóru afþreyingar og mörgum helstu náttúrukennileitum landsins. Svæðið býður upp á möguleika til fjölda spennandi ferða og til vöruþróunar með annarri afþreyingarferðaþjónustu. Félagið hefur unnið náið með Vatnajökulsþjóðgarði og ferðaþjónustufyrirtækjum í Öræfum að þróun á nýrri tegund ferðaþjónustu sem nú verður hægt að bjóða upp á. Þá hefur lögreglu, almannavörnum og Heilbrigðisstofnun Suðurlands verið kynnt starfsemin, en áhugi er fyrir því að sett verði bundið slitlag á flugvöllinn í Skaftafelli svo hægt sé að nota hann fyrir sjúkraflugvélar í neyðarflugi fyrir Öræfi og nágrenni. Atlantsflug hlaut á dögunum verðlaunin Lifestyle Award frá tímaritinu Luxury Travel Guide sem ferðaþjónustuaðili ársins á Íslandi 2018/2019, og koma þyrlunnar gerir Atlantsflugi enn betur kleift að veita hágæða og sveigjanlega þjónustu. Þyrlan mun gera út frá Skaftafell Terminal – Tour Center, nýjum höfuðstöðvum Atlantsflugs sem einnig er ferðaþjónustumiðstöð með afgreiðslu- og farþegamóttöku fyrir ferðaþjónustuaðila. Tröll Expeditions gerðist nýlega fyrsti ferðaþjónustuaðili til að ganga til liðs við Skaftafell Terminal – Tour Center, ogviðræður við fleiri aðila eru í gangi.
Jón Grétar Sigurðsson, forstjóri Atlantsflugs:
„Ég hef unnið lengi að þessu takmarki sem við erum að ná með því að fá þyrlu inn til okkar í Skaftafelli, en fyrst þurfti aðstöðuna sem nú er komin. Þetta er frábært og spennandi næsta skref hjá okkur og hvet ég aðila sem áhuga hafa á að vinna með okkur að þeirri uppbyggingu og vegferð sem
við erum í til að setja sig í samband við félagið.“