Ýrúrarí í vinnustofudvöl

PEYSA MEÐ ÖLLU FYRIR ALLA – Ýrúrarí í vinnustofudvöl

 

22/01/21 – 29/05/21
Um sýninguna
PEYSA MEÐ ÖLLU FYRIR ALLA

Ýr Jóhannsdóttir er textílhönnuður og listakona sem starfar undir nafninu Ýrúrarí. Verk hennar eru að mestu unnin í prjóni og í þeim mætast húmor, handverk og hreyfing.
Ýr stundaði nám í textílhönnun við Myndlistarskólann í Reykjavík og lauk BA gráðu í faginu í Glasgow School of Art árið 2017 og stundar nú nám í listkennsludeild LHÍ.

Á vinnustofu Ýrúrarí á Hönnunarsafni Íslands mun fara fram vinna að framhaldi verkefnisins “Peysa með öllu” sem hún vann í samstarfi við fatasöfnun Rauða Krossins fyrir HönnunarMars 2020. Í “Peysu með öllu” vann Ýrúrarí með peysur sem lent höfðu í óhöppum í fyrra lífi og voru því ekki boðlegar til sölu í verslunum Rauða Krossins.

Enn safnast upp töluvert magn af ósöluhæfum peysum til fatasöfnunarinnar og þörf er á fleiri hugum og höndum í verkið. Framhald verkefnisins er því “Peysa með öllu fyrir alla”. Hér verður unnið áfram með aðgengilegar og skapandi fataviðgerðir með miðlunarleiðum sem gera fataviðgerðirnar persónulegar og skemmtilegar.
Markmið verkefnisins er að stuðla að lengri samverutíma okkar með þeim fötum sem við eigum nú þegar og koma í veg fyrir að þeim sé hent um leið og örlítið er farið að sjá á þeim.

Gestum og gangandi er boðið að kynna sér ferlið og jafnvel prufa sjálf fataviðgerðir sem vekja áhuga þeirra.

Fólki verður boðið að taka að sér peysu, koma á námskeið í fataviðgerðum og fleira skemmtilegt sem auglýst verður síðar.

Verkefnið er hluti af lokaverkefni Ýrar í listkennsludeild Listaháskóla Íslands.

Verk Ýrar hafa verið sýnd í grasrótar listarýmum í Reykjavík m.a í Gallerý Port, Ekkisens og Flæði auk Textile Art center í New York. Auk þess hafa verk hennar verið keypt í safneign Textiel Museum í Hollandi, Museum für Kunst und Gewerbe í Þýskalandi og Museum of International folk Art í Nýju Mexíkó. Umfjallanir og verk Ýrúrarí hafa birst víða um heim m.a á Vogue.com, Designboom, Cultured Magazine og Die Zeit. Einnig hafa listafólkið Erykah Badu, Tierra Whack, Noel Fielding og Miley Cyrus sérpantað af henni prjónaverk.

heimasída:www.yrurari.com/
Ljósmyndir: Axel Sigurðsson

RELATED LOCAL SERVICES