Sveitarfélagið Skagaströnd við austanverðan Húnaflóa telur um 520 íbúa. Bærinn stendur á láglendi milli Spákonufells og Spákonufellshöfða sem gengur í sjó fram og liggur norður-suður með ströndinni. Víkur eru bæði norðan og sunnan Höfðans. Byggðin stendur við syðri víkina og þar er höfnin. Spákonufell setur vegna sérstaks útlits ákveðinn svip á bæjarstæðið. Í landnámu er ekki getið um neinn sérstakan landnámsmann á Skagaströnd,en hins vegar eru margar sögur af Þórdísi spákonu,sem uppi var á seinni hluta 10. aldar og bjó á Felli. Um Þórdísi leikur nokkur ævintýraljómi, hún var var talin fjölkunnug mjög og ráðríkur héraðshöfðingi.
Skagaströnd er forn verslunarstaður
Fyrstu heimildir um verslun á Skagaströnd eru frá 1586 en líklegt er að þá hafi verslunarrekstur verið búinn að standa um nokkurt skeið. Með tilkomu einokunarverslunarinnar 1602 var Skagaströnd gerð að lögboðinni verslunarhöfn. Lengi framan af var talað um að versla í Höfða og staðurinn því nefndur Höfðakaupstaður en líklegt er að slík nöfn hafi verið dönskum kaupmönnum óþjál í munni og því hafi þeir nefnt staðinn Skagaströnd eftir strandlengjunni á vestanverðum Skaga. Byggð tók að myndast um verslunina á seinni hluta 18.aldar. Þótt í smáu væri en um miðja 19.öld fjölgaði húsum nokkuð þegar saltfiskverkun hófst og fiskur varð að útflutningsvöru. Þéttbýli fór þó ekki að myndast á Skagaströnd fyrr en upp úr aldamótunum á eftir, einkum voru það breytingar á útgerð og fiskverkun sem gerðu það að verkum að fólk tók sér búsetu í þéttbýlinu. Þegar síldveiði brást kom jafnframt niðursveifla í þróun byggðarinnar og í íbúafjöldann. Seint á sjöunda áratugnum hófst útgerð togskipa og hefur togaraútgerð verið ein meginundirstaða atvinnulífsins á staðnum síðan.
Spákonufell er eitt svipmesta fjallið á Skaganum vestanverðum. Fellið er 646 metrar á hæð og efst er þverhnípt hamrabelti úr grágrýti sem kallast Spákonufellsborg, í daglegu tali nefnt Borgarhaus. Fyrir þá er hyggjast ganga á fjallið er bent á að fara upp að norðanverðu, er sú leið talin auðveldust og og ætti að vera flestum fær. Sagnir herma að Þórdís spákona sem fellið er kennt við hafi falið gull sitt í því. Spákonufellshöfði var friðlýstur fólkvangur árið 1980. Hann er úr stórgerðu stuðlabergsbasalti, líklega gamall gostappi.
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, segir að þeir sem komi til Skagastrandar megi ekki láta hjá líða að skoða Kálfshamarsvík sem er 23 kílómetra fyrir norðan Skagaströnd en í Kálfshamarsnesi myndaðist fyrsti vísir að þorpi í upphafi 20. aldar. Þorpið var nefnt Kálfshamarsvík eftir samnefndri vík. Það varð aldrei fjölmennt, rétt um 100 manns þegar flest var á árunum 1920-1930. Byggðinni hnignaði hratt upp úr 1930 og um 1940 höfðu flestir íbúarnir flust burtu af staðnum. Skýringin á myndun þessa þorps í Kálfshamarsvík á sínum tíma var hversu góð hafnaraðstaða var þar frá náttúrunnar hendi. Þetta var á þeim tíma þegar vélbátar voru að taka við af árabátum. Þaðan var sótt af þessum smábátum en tiltölulega stutt á fiskimiðin og fiskurinn saltaður í landi. Einkum var róið frá Kálfshamarsvík að sumarlagi og fram undir jól en þá var algengt að karlar héldu til Suðurnesja á vertíð. Í Kálfshamarsvík hafa húsarústir verið merktar með nöfnum húsanna sem þar stóðu ásamt nöfnum ábúenda. Einnig hefur verið sett upp auglýsingaskilti fyrir ferðamenn. Á nesinu stendur Kálfshamarsvíkurviti, en hann var teiknaður af Guðjóni Samúelsyni. Í Kálfshamarsvík er einstök stuðlabergsmyndun sem gleður auga ferðamanna, ekki síður að kynnast þeirri byggð sem þarna var og fræðast um sögu staðarins.
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri á Skagaströnd, var spurður hvað þeim sem heimsækja Skagaströnd stendur helst til boða. Magnús segir að ekki síst sé bent á tvær góðar gönguleiðir, enda vilji margir ganga um og sjá, ekki bara aka um. ,,Annars vegar er það gönguleið á Spákonufellshöfða og hins vegar á Spákonufell, en á heimasíðu sveitarfélagsins er hægt að sjá greinagóða lýsingu á gönguleiðum. Nokkur veiði er í nágrenninu, á Skagaheiðinni þar sem eru fjölmörg vötn en veiðileyfi eru ekki dýr, kosta sum ekkert en það þykir almenn kurteini hér að biðja um veiðileyfi. Veiðin er auðvitað misjöfn og fiskurinn sem menn fá misstór, en í einhverjum vötnunum er hann fremur smár, og þar þyrfti auðvitað að grisja svo sá fiskur sem eftir lifir hafi meiri vaxtamöguleika, sem auðvitað gleður veiðimanninn.
Á Spákonuhöfða er sýning í spákonuhofinu um Þórdísi spákonu sem talin var göldrótt, og er fyrsti íbúi Skagastrandar sem getið er um, okkar landnámsmaður. Þar er líka boðið upp á spádóma, spáð í lófa og spil og sitthvað fleira. Við höfum fengið viðurkenningu fyrir tjaldstæðið hér af þeim sem þar hafa verið, þar er gott skjól í náttúrulegu klettaumhverfi með góðu þjónustuhúsi og erum með litla sundlaug, en ákaflega notarlega Í Árnesi er sýning á heimili frá því um 1920, það er ekki safn í eiginlegri merkinu þess orðs, heldur heimili sem komið er inn í. Ekki má gleyma Kántrýbæ sem býður upp á frábæran matseðil en á síðustu árum hefur fjöldi ferðamanna á Skagaströnd aukist, ekki síst fyrir þá sérstöðu sem staðurinn hefur áunnið sér sem vagga kántrýtónlistar hérlendis.
Einnig er hér kaffihús sem heitir ,,Kaffi Bjarmanes” og er rekið af Áslaugu Ottósdóttur, en kaffihúsið er í uppgerðu gömlu skólahúsnæði á sjávarbakkanum í fallegu og notarlegu umhverfi. Þar er hægt að sitja úti á bekkjum og horfa yfir fjörðinn, yfir Skagastrandarhöfn eða á líflegt fuglalífið á sjónum.”
Á Skagaströnd er rekin listamiðstöð þar sem listamenn geta komið að starfað að list sinni. Hún er ekki opin fyrir ferðamenn en það er ekki bundið við heimamenn að fá að starfa þar í um mánaðartíma. Allflestir þeir listamenn sem þarna starfa koma erlendis frá, margir þeirra ferðast um heiminn og vinna að list sinni. Þeir listamenn sem þarna starfa hafa því margir hverjir kynnst vel íbúum Skagastrandar, menningunni og notið náttúrunnar. M.a. hefur verið gerð risavaxinn andlitsmynd sem prýðir einn veggja gömlu síldarverksmiðjunnar sem var strarfrækt á síldarárunum, en er eðlilega löngu aflögð.
,,Það er því vel þess virði að nema staðar á Skagaströnd og njóta og kynnast því sem staðurinn hefur upp á að bjóða,” segir Magnús B. Jónsson sveitarstjóri.