Skálholt

– miðstöð kirkju, valds og menningar

Skálholt var höfuðstaður Íslands í um 750 ár, miðstöð kirkjunnar og einn þéttbýlasti staður landsins. Saga staðarins er löng og samtvinnuð sögu kristni á Íslandi. Hér sat fyrsti biskup Íslands, Ísleifur Gissurarson. Gissur sonur hans tók við biskupsdómi eftir föður sinn, byggði dómkirkju á staðnum og gaf kirkjunni jörðina með þeim orðum að í Skálholti skyldi vera kirkja meðan kristni héldist í landinu.
Á miðöldum óx Skálholtsstaður mjög í andlegu og veraldlegu tilliti og varð snemma einn fjölmennasti staður landsins. Á staðnum var skóli og um tíma prentsmiðja. Mikill búrekstur var í Skálholti og allur húsakostur í samræmi við það. Árið 1630 brann staðurinn allur og margt menningarsögulegra verðmæta glataðist.

Öll hús staðarins, nema dómkirkjan, hrundu í jarðskjálftanum 1784 og biskupsstóllinn var fluttur til Reykjavíkur í kjölfarið. Árið 1802 var Brynjólfskirkja rifin og minni kirkja reist í staðinn. Um miðja 20. öld hófst svo endurreisn Skálholtsstaðar.

Skálholt fyrr og nú

Skálholt er einn af mikilvægustu sögustöðum Íslands. Í sögu staðarins eru glæsileg tímabil velgengni, en einnig tímabil mótlætis og niðurlægingar eins og í sögu þjóðarinnar allrar.
Gissur biskup Ísleifsson gaf kirkjunni föðurleifð sína Skálholt til þess að þar sæti biskup svo lengi sem kristni héldist í landinu. Frá þeim stað var uppbyggingu og skipulagi kirkjunnar í öllu landinu stýrt á 11. og 12. öld. í Skálholti varð miðstöð menningarlífs, auk þess sem biskuparnir voru áhrifamenn á öllum sviðum þjóðfélagsins. Adam frá Brimum sagði að Íslendingar hefðu lög sín í stað konungs, en að þeir hlýddu orðum biskupa sinna eins og þeir væru konungar.

Þar sem ekki voru til borgir eða bæir var Skálholt vel sett í landinu til að þjóna hlutverki sínu. Staðurinn stendur í blómlegu héraði. Stutt er til Þingvalla, en þangað átti biskupinn árlega erindi á Alþingi. Einnig er skammt í hálendis- vegi þá sem farið var um til norðurlands, austfjarða og vesturlands. Innflutningur barst í fyrstu um Hvalfjörð en svo upp að hinni hafnlausu suðurströnd landsins um Eyrarbakka.

Eftir átökin á 16. öld breyttist staða biskupsstólsins minna en gerðist í flestum þeim löndum sem þá gengu í gegnum svonefnda siðbótartíma. Gildi biskupsstólanna í Skálholti og á Hólum var áfram verulegt. T.d. má segja að á einveldis- tímanum hafi stólarnir verið þær valdastofnanir íslenskar sem höfðu einhverja sjálfstæða burði. Eftir erfiðleika 18. aldarinnar var ákveðið að flytja biskupinn og skólann til Reykjavíkur. Biskupsstóllinn sem slíkur var lagður niður og eignir hans seldar á uppboði. Vegna mikilvægis Skálholts í sögu Íslands særði niðurlæging staðarins þjóðarstolt og jafnvel trúarlegar tilfinningar margra. Á síðustu öld kom upp hreyfing um endurreisn staðarins. Alþingi ákvað að byggja nýja kirkju sem var vígð 1963. Um leið var Skálholtsstaður afhentur Þjóðkirkju
Íslands til eignar og umráða. Stofnaður var lýðháskóli sem starfræktur var um tvo áratugi og nefndur Skálholtsskóli.

 

Skólinn er nú miðstöð námskeiða og ráðstefnuhalds á vegum kirkjunnar. Þar eru einnig reglulega haldnir kyrrðar-dagar. Mikið tónlistarstarf fer fram í Skálholti. Þar er starfandi organisti og Sumartónleikar standa fyrir vandaðri tónlistardagskrá á sumrin. Sóknarprestur Skálholtsprestakalls situr nú á staðnum og síðan 1990 situr vígslubiskup Skálholtsstiftis í Skálholti.

Kirkjan nú

Núverandi kirkja í Skálholti mun vera tíunda kirkjan sem þar er reist, en allar hafa þær staðið á sama stað. Kirkjan sem Brynjólfur Sveinsson lét byggjabum miðja 17. öld var svipuð núverandi kirkju að grunnfleti. Kirkjan sem stóð í Skálholti framan af 20. öld var lítil timburkirkja, byggð af vanefnum og hrörleg orðin er hún var tekin niður. Nýja kirkjan er teiknuð af Herði Bjarnasyni húsameistara. Skreyting hennar innan dyra er að mestu eftir tvær listakonur og í henni er að finna gjafir frá öllum Norðurlöndunum. Kirkjan er þekkt fyrir góðan hljómburð og eftirsótt til tónlistarflutnings. Undir framkirkjunni er kjallari sem geymir minjar, merkust þeirra er steinkista Páls biskups Jónssonar sem lést 1211. Þó að kirkjan sé nútímaleg bygging er húnkrosskirkja að grunnfleti eins og kirkjurnar voru allt frá fyrstu miðaldakirkjunni og framundir 1800.

Timburkirkjur

Klængur biskup lét reisa fyrstu stóru miðaldakirkjuna um miðja 12. öld. Sú kirkja var stærri að grunnfleti en núverandi kirkja og svo stórar voru þær fram á 17. öld. Þessar kirkjur voru byggðar úr rekavið sem safnað var um landið og úr innfluttum við frá Noregi. Voru viðirnir dregnir á ís frá Eyrarbakka af járnuðum nautum. Mikið þrekvirki var að byggja slík hús og afar kostnaðarsamt, en stuðst var við forna hefð Norðmanna í gerð timburhúsa. Kappkostuðu biskuparnir að prýða dómkirkjuna steindum gluggum og fögrum myndum, svo að þær áttu þátt í því að kynna listaheim Evrópu fyrir þjóðinni. Sagt var að kirkjuklukkurnar í Skálholti væru svo stórar að heyrðist í þeim vestur á Lyngdalsheiði.

Texti: Kristinn Ólason
og Sr Sigurður Sigurðarsson

 

Skálholt by the artist John Cleveley jr. who was with Joseph Banks’ expedition to Iceland in 1772.
Skálholt by the artist John Cleveley jr. who was with Joseph Banks’ expedition to Iceland in 1772.

 

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0