Lóðum hugsanlega úthlutað á norðursvæði borgarinnar eftir gerð Sundabrautar- segir Birgir Hlynur Sigurðsson skipulagsstjóri.
Birgir Hlynur Sigurðsson, var skipulagsstjóri í Kópavogi í 18 ár áður en hann tók við starfi skipulagsstjóra í Reykjavík, eða sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs, á síðasta ári. Hann hafði því fylgst vel með öllu skipulagsferli í Reykjavík áður en hann tók við starfinu. Birgir segir það undirliggjandi í öllu starfi að skipulagsmálum í borginni nú hvað það sé mikill kraftur í því, það sé eins og borgin sé að vakna enda ótal verkefni í gangi, bæði stór og smá, ekki síst hvað varðar eldri hverfin og miðborgina auk þess sem lögð er mikil rækt við ný svæði. Reykjavíkurborg sé augljóslega að vakna og taka betur á því forystuhlutverki sem hún á að vera í sem höfuðborg og lang stærsta sveitarfélagið.
“Sveitarfélögin í kringum Reykjavík hafa töluvert vaxið undanfarin ár á kostnað Reykjavíkurborgar, borgin var ekki alltaf að svara kalli um lóðaframboð og því leituðu þeir sem vildu fá lóð og byggja til nágrannasveitarfélaganna. Nú hefur hins vegar verið lögð fram ákveðin áætlun um lóðaframboð af hálfu meirihluta borgarstjórnar sem miðar að því að hafa byggingalóðir tiltækar, og sett hefur verið fram það markmið að tiltækar séu lóðir fyrir um eitt þúsund íbúðir út þetta kjörtímabil sem lýkur árið 2010. Ég tel að það anni eftirspurninni, en hingað til hefur eftirspurn verið mikil og hreinlega verið slegist um allar lóðir sem hafa verið auglýstar. Búast má við að þetta jafnist nokkuð.
Úlfarsárdalurinn er það byggingasvæði sem við horfum fyrst og fremst til nú og okkur sýnist að árið 2010 höfum við náð að úthluta öllum svæðum í Úlfarsárdal sem liggur norðan við Úlfarsá. Skipulagsráð hefur samþykkt deiliskipulag þarna fyrir rúmlega 100 íbúða sébýlishúsabyggð sem kemur til úthlutunar í næsta mánuði. Það svæði heitir Reynisvatnsás og við teljum að það muni njóta vinsælda vegna landgæða. Í Úlfarsárdal verður um 12.000 manna byggð sem verður væntanlega fullbyggð innan 10 ára auk allrar þeirrar þjónustu sem þarf að vera í þessum hverfum, s.s. miðkjarna, skólum og íþróttasvæðis neðst í dalnum með sundlaug, íþróttahúsi og knattspyrnuvelli en knattspyrnufélagið Fram verður þarna með sína framtíðaraðstöðu og flytur úr Safamýrinni. Byggð í Úlfarsárdal er hugsuð mjög þétt, bæði með sérbýli og fjölbýli. Þegar núverandi meirihluti tók til starfa fyrir rúmu ári síðan var tekin ákvörðun um að auka framboð á sérbýlishúsalóðum. Að því höfum við hér á skipulags- og byggingasviði verið að vinna að. Lóðaumsóknum verður fyrst og fremst beint að Úlfarsdalnum á næstunni en einnig verðum við með þéttingasvæði á öðrum stöðum í borginni.”
Norðursvæðin
Reikna má með að næstu svæði sem verða deiliskipulögð og lóðum úthlutað á í borginni verði á Geldinganesi og hugsanlega í Álfsnesi. Þær áætlanir munu ef að líkum lætur ekki komast á fullt skrið fyrr en Sundabraut hefur verið tekin í notkun en skipulag þeirra svæða byggir mikið á fyrirkomulagi og legu Sundabrautar. Í dag virðist allt benda til þess að verið sé að ná víðtæku samkomulagi um að Sundabraut verði í göngum yfir á Kjalarnes sem væri góð lausn hvað varðar mengun og umhverfismál á svæðinu almennt.
Þessa dagana er unnið að endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur og þar er verið að horfa mjög langt fram í tímann, eða allt til ársins 2030. Í því skipulagi verður tekin ákvörðun um það hvert byggð í Reykjavíkurborg verður beint á næstu áratugum.
Gríðarlegt framboð á lóðum undir atvinnuhúsnæði á Hólmsheiði
Skipulagsstjóri segir gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði við Vesturlandsveginn og þar mun m.a. þýska byggingafyrirtækið Bauhaus byggja verslunarhúsnæði og handan götunnar er að rísa stórhýsi Rúmfatalagerins en það hús mun hýsa fleiri verslanir og einnig ýmsa þjónustustarfsemi.
“Skortur hefur verið á lóðum fyrir atvinnuhúsnæði á öllu höfuðborgarsvæðinu en með því nýja svæði sem við höfum verið að vinna að síðustu mánuði á Hólmsheiði verður við með gott framboð af lóðum undir atvinnustarfsemi. Þar verða tiltækar bæði stórar og litlar lóðir þannig að svæðið muni henta sem flestum svo í framtíðinni sjáum við fyrir okkur þar öflugt og fjölbreytilegt atvinnusvæði. Mörg gamalgróin fyrirtæki í Reykjavík hafa sýnt þessu svæði mikinn áhuga svo við höfum gefið forsvarsmönnum þessara fyrirtækja tækifæri til að kíkja yfir öxlina á okkur meðan á skipulagsvinnu okkar fyrir svæðið hefur staðið. Við erum því að vinna þetta talsvert í samráði við væntingar og þarfir þessara fyrirtækja. Húsnæði margra þessara fyrirtækja er orðið óhentugt og svarar ekki kröfum tímans og því vilja þau taka sig upp og byggja yfir starfsemina samkvæmt kröfum tímans.
Í Úlfarsárdal verður um 12.000 manna byggð sem verður væntanlega fullbyggð innan 10 ára auk allrar þeirrar þjónustu sem þarf að vera í þessum hverfum, s.s. miðkjarna, skólum og íþróttasvæðis neðst í dalnum með sundlaug, íþróttahúsi og knattspyrnuvelli en knattspyrnufélagið Fram verður þarna með sína framtíðaraðstöðu og flytur úr Safamýrinni. Byggð í Úlfarsárdal er hugsuð mjög þétt, bæði með sérbýli og fjölbýli.
Með þessu verklagi léttum við nokkuð á því álagi sem fylgir beiðnum um breytingar. Sumum finnst þetta svæði kannski langt upp í sveit en borgin er að teygja sig bæði í norður- og austurátt og samgönguæðar eru mjög góðar við þetta svæði. Reykjavíkurborg hefur ekki haft neitt land til að mæta kröfum og væntingum þessara fyrirtækja fyrr en nú.
Mig langar jafnframt að nefna að sum eldri atvinnusvæðin í borginni munu sannarlega fara í einhverja endurgerð. Við getum nefnt Borgartúnið þar sem mjög stór og öflug fyrirtæki eru að setjast að á svæði þar sem voru iðnaðarfyrirtæki, vörugeymslur o.fl. Gamalt og úr sér gengið húsnæði sem t.d. tengdist framleiðslu er einfaldlega rifið þegar þessi öflugu fyrirtæki koma í staðinn. Atvinnuhúsnæði munu því rísa á svæðum norðar og austar í borginni, t.d. upp á Hólmsheiði eða á öðrum afmörkuðum svæðum fyrir atvinnuhúsnæði, og einnig í einhverju mæli í nágrannasveitarfélögunum. Það er bara eðlilegt að borg sé í endurnýjun, en það má einnig velta því fyrir sér hvort sú endurnýjun hafi verið nægjanlega hröð undanfarin ár. Borgaryfirvöld þurfa að vera opin fyrir því að greiða götur fyrirtækja sem vilja fara í endurbyggingu og það held ég að sé að gerast, enda hef ég orðið var mjög góðrar samvinnu og samhljóms milli nefndarmanna í skipulagaráði, hvar svo sem þeir eru í pólitík.
Hagkvæmt að þétta byggð
Birgir segir það hagvæmt að þétta byggð í borginni enda sé byggðin afar dreifð. Sjá megi á ferðum erlendis að milljónaborgir séu á sömu stærð svæðis og Reykjavík. Til þess að geta nýtt betur gatnakerfið, lagnakerfið og alla þjónustu sé mikilvægt að koma fleirum inn á minna svæði en er í dag. Því hefur verið unnið að þéttingu borgarinnar.
Birgir segir helstu svæðin sem verið sé að horfa til þéttingar á íbúabyggð séu í jaðri miðborgarinnar, s.s. Mýrargatan, Slippasvæðið og Skuggasvæðið og byggð milli Einholts og Þverholts svo fá dæmi séu tekin. Húsbruninn í Austurstræti í sumar hafi orðið til þess að hrundið var af stað ákveðinni hugmyndaleit um hvernig standa ætti að uppbyggingu í Kvosinni. Flestir virðast sáttir við þá niðurstöðu sem þar fékkst, enda er sú niðurstaða í takt við söguna en gefur engu að síður tækifæri til að tengja saman nýtt og gamalt en svo má að orði komast.
Svo mun Landsbankinn byggja höfuðstöðvar sínar í miðborginni ekki fjarri menningarhúsinu sem er að rísa á hafnarbakkanum. Þetta bankahús verður væntanlega eitt af glæsihúsum miðborgarinnar en í gangi er hugmyndasamkeppni um það. Gangi allar þessar áætlanir eftir muni það efla miðborgina til mikilla muna, ekki síst mannlífið.
– Sumar áætlanir um þéttingu byggðar hafa valdið óróa meðal þeirra íbúa sem búa í nágrenni svæðisins, s.s. við Keilugranda og Ánanaust. Kemur það þér á óvart?
“Nei, raunar ekki. Það má einnig nefna Lýsislóðina og BYKO-reitinn í vesturborginni og á sínum tíma voru miklar athugasemdir gerðar vegna byggingaáforma á Slippasvæðinu. Það er ekkert óeðlilegt við það að menn staldri aðeins við þegar slíkar áætlanir eru lagðar fram.”
– Eru þessar athugasemdir byggðar á því að fólk er að mestu samþykkt þeim en bara ekki í bakgarðinum hjá þeim?
“Bæði og. En ég ber fulla virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem þarna hafa komið fram. Borgurunum er gefinn kostur á að koma með athugasemdir við uppbyggingaráform og yfir þær er farið. Við höfum kappkostað að eiga samræður við næstu nágranna þegar farið er inn í svona áform á þessum þéttingasvæðum. Þær viðræður eru ákaflega mikilvægar fyrir okkur sem erum að vinna að skipulaginu og eins fyrir íbúana sem þá sjá vonandi að það er reynt af fremsta megni að taka tillit til þeirra sjónarmiða.
Það er yfirlýst stefna borgaryfirvalda að þétta byggð í borginni með skynsamlegum hætti og það gefur auga leið að þessi þéttingasvæði eru í eða inni í grónum hverfum.”
Hólmsheiði
Vesturhluti borgarinnar tekur miklum breytingum
“Svo eru áform um landfyllingar eins og við Ánanaust og á Grandagarði og það verkefni er í undirbúningi. Innan ekki margra ára mun yfirbragð vesturhluta borgarinnar kringum höfnina taka miklum breytingum sem felast fyrst og fremst í því að þarna koma inn íbúar, en það er liður í því að styrkja miðborgina.
Það er vinna í gangi milli Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna um framtíðarskipulag Örfiriseyjar og hvaða möguleikar felist þar.”
– Sumir óttast að uppbygging í Örfirisey muni eyða öllum minjum um sjósókn og fiskvinnslu á Grandanum og ekki verði hægt að finna fiskilykt þarna sem margir telja að verði að vera. Er þessi ótti ástæðulaus?
“Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að ryðja út þessu gamla umhugsunarlaust og ég veit að það var gerð sú breyting á skipulagi Slippasvæðisins nýverið að Daníelsslipp yrði haldið inni að hluta en í fyrri áætlunum átti hann að hverfa. Þannig væri áfram hægt að sjá minjar um þá atvinnustarfsemi sem þarna var og tengist ekki síst útgerðinni á síðustu öld. Það væri einnig akkur fyrir svæðið að hafa einhverja minningu um það hvaða starfsemi var þarna tengd sjávarútvegi og hvernig hún var. Þetta er bara spurning um útfærslu.
Í Halifax er glæsilegt bryggjuhverfi, og þar við bryggju eru bundnir gamlir dallar og bátar sem búið er að leggja. Þessi skip eru hluti af atvinnusögunni og kennslunni fyrir ungviðið, þarna er hægt að sjá hvernig lífið var um borð í þessum skipum fyrir margt löngu. Það er reyndar vísir að þessu hér á Grandanum fyrir tilstilli Sjóminjasafnsins, en það má eflaust gera betur.”
Deiliskipulag í Vesturbæ að Slippa- og Ellingssensvæði
– Framtíð Vatnsmýrarinnar hefur mikið verið til umræðu undanfarin ár. Fer fram einhver vinna því svæði tengdu?
“Það fer fram hugmyndasamkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar og í nóvembermánuði ætti vonandi að vera komin niðurstaða í það mál. Þetta er tveggja þrepa samkeppni, þ.e. það gátu allir tekið þátt í henni í upphafi og komu þá vel yfir 100 tillögur. Dómnefnd valdi svo 16 tillögur til áframhaldandi þátttöku. Þessi hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina er líka liður í því að styrkja miðborgina.”
– Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan fékk nýverið úthlutaða lóð undir kirkju við Mýrargötuna. Muslimar hafa líka sótt um lóð fyrir alllöngu, m.a. í Öskjuhlíð, en ekki fengið svar frá borginni. Má búast við að þeir fái svör innan tíðar?
“Það er ákveðin vinna í gangi til að finna lóð fyrir muslimana. Bygging muslima gæti orðið eitt af kennileitum borgarinnar og því þarf að vanda til staðarvalsins. Erlendis eru þessar byggingar reisulegar og fallegar, og það sama verður eflaust uppi á teningunum hér í Reykjavík,” segir Birgir Hlynur Sigurðsson skipulagsstjóri.
Ljósmyndir: Einar þorsteinsson