Í Skorradal er einhver þekktasta sumarhúsabyggð landsins, en Skorradalshreppur liggur að Lundareykjadal, með Skorradalsháls á milli, og nær að Hvalfjaðrarsveit; Skarðsheiði, Dragarfelli og að Botnsfelli. Í sveitarfélaginu búa sextíu manns og segir oddvitinn, Davíð Pétursson, Skorradalshrepp fyrst og fremst vera landbúnaðarsvæði. Auk þess er hér mikil frístundabyggð, eða um sjö hundruð frístundahús. Hvað þjónustu við íbúana varðar, segir Davíð: ,,Við erum með samning við Borgarbyggð um að börnin fara í skóla á Kleppjárnsreykjum og Hvanneyri, sem og í tónlistarskólann í Borgarnesi. Félagsþjónustan hér er í samvinnu við Borgarbyggð og síðan erum við með þjónustusamning við Slökkvilið Borgarbyggðar. Ennfremur erum við aðilar að Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi.
Í Skorradalshreppi eru hvorki hótel né bændagisting, en tjaldsvæði er á Indriðastöðum og í Selsskógi.“ Þegar Davíð er spurður hvað ferðamaðurinn dundi sér við í sveitarfélaginu hans segir hann: „Hér er hægt að fara í skoðanaferðir um héraðið. Það er stutt í miklar náttúruperlur. Það er hægt að fara upp að Eiríksvatni og svo er stutt hringinn hér upp í Reykholt, að Barnafossum og Húsafelli. Ef farið er línuveginn inn á Uxahryggjaleið er hægt að fara Kaldadal niður í Húsafell, en þessar leiðir eru aðeins færar jeppum. Hvítserkur í Fitjaá er hér rétt fyrir neðan Eiríksvatn og þar er mjög fallegt. Það er fyrst og fremst náttúran sem fólk er að skoða hjá okkur og flestum finnst gaman að eyða deginum í Klausturskógum í Vatnshornshlíð. Þar er hávaxnasti náttúrulegi birkiskógurinn á suðvesturlandi og var friðlýstur af umhverfisráðherra í janúar s.l. Þar er gaman að vera í góðu veðri og hægt að fara í góðar lautarferðir.“
Sjá nánar á www.skorradalur.is