„Ísland er mikið eldfjallaland og það mun halda áfram að gjósa á Íslandi. Stóra spurningin er hvort þessi hefðbundnu þekktu íslensku eldfjöll gjósi næst eða hvort það gjósi á nýjum stað sem menn hafa talið að væri ekki virkt gossvæði. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að slíkt gerist oft á Íslandi. Sjáum til dæmis Heimaeyjargosið þar sem eldfjall myndaðist í janúar 1973. Þetta er nokkuð sem við verðum að taka með í reikninginn,“ segir dr. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur. Hann er einn reyndasti og þekktasti jarðfræðingur Íslands. Árið 2011 sendi hann frá sér sjálfsævisögu sína sem ber heitið „Eldur niðri“. Þar rekur hann lífshlaup sitt sem að öðrum ólöstuðum hlýtur að teljast afar merkilegt.
Ekki hægt að spá fyrir um hvar gýs næst
Fyrir tíu árum síðan fór Haraldur Sigurðsson á eftirlaun eftir áratuga langan og ævintýralegan feril sem prófessor við háskólann á Rhode Island í Bandaríkjunum. Vísindastörf Haraldar leiddu hann til rannsókna á eldfjöllum víða um heim. Eftir að hann fór á eftirlaun sneri hann heim til æskuslóðanna í Stykkishólmi þar sem hann býr í dag. Í Stykkishólmi setti Haraldur á stofn Eldfjallasafnið sem er afar áhugavert að heimsækja. Eldfjallasafnið gefur mynd af jarðsögunni og eldfjöllum víða um heim. Það er vel til fundið að velja því stað einmitt í Stykkishólmi enda mörg eldfjöll á Vesturlandi og ekki síst á
Snæfellsnesi.
Land og saga hittu Harald að máli í Eldfjallasafninu. Umræðuefnið snerist vitanlega um eldfjöllin á Íslandi með vangaveltum um það hvort vænta megi eldgoss á næstunni. „Auðvitað eru þessi hefðbundnu svæði svo sem Askja, Grímsvötn, Bárðabunga, Katla og Hekla þeir staðir sem mestar líkur eru á að gjósi næst. Grímsvötn eru virkasta eldfjallið á Íslandi í dag. Þar má búast við gosi í náinni framtíð. Ég get þó ekki spáð um það hvar gýs næst. Ég get spáð um lok á gosum en ekki byrjun á þeim,“ segir Haraldur og brosir í kampinn.
Ólíkindatól en ekki ófyrirsjáanleg
Við spyrjum Harald að því hvort eldfjöllin séu þannig óútreiknanleg?
„Ég myndi ekki segja að þau séu óútreiknanleg. Þau gera boð á undan sér,“ svarar hann. „Við vitum að þegar jarðhræringaórói byrjar í eldfjallinu þá er eitthvað að gerast í því. Við vitum hins vegar ekki hvenær eldgos hefst, við vitum bara að eitthvað er að byrja. Slík virkni getur varað í langan tíma og svo dáið út. Dæmi um það er í Upptyppingum fyrir fáeinum árum síðan. Á hinn bóginn getur þessi óróleiki svo haldið áfram að vaxa þar til það kemur að gosi. Þannig séð er þetta óútreiknanlegt.“
Undanfarið hefur borið á umræðu á Íslandi um að hin fornfrægu eldfjöll Hekla og Katla hljóti bráðum að fara að gjósa. Haraldur segir þó að vart sé hægt að orða það svo að eldfjall sé komið á tíma. „Þetta er ekki eins og þunguð kona, þetta er allt annað fyrirbæri. Hér eru engin tímamörk. Hins vegar aukast líkurnar með tímanum frá því það gaus síðast á því að það komi aftur að gosi. Það er til að mynda enginn vafi á því að Hekla mun gjósa í náinni framtíð. Það geta hins vegar orðið löng hlé. Hekla tók sér yfir hundrað ára hlé þegar hún byrjaði að gjósa 1947. Upp úr 1970 gaus hún svo á um tíu ára fresti. Í þessu er mikil óregla. Eldfjöll eru ekki eins og klukkur.“
Virkni mælist undir Snæfellsjökli
Fáir gera sér betur grein fyrir því en einmitt jarðfræðingar að saga jarðar er löng. Það sem mönnum kann að þykja langur tími er einungis augnablik í jarðsögunni. Haraldur hefur einmitt varið stórum hluta af sínum vísindaferli í að rýna í þessa sögu, meðal annars með rannsóknum á jarðlögum.
„Hundrað ár eru stuttur tími í jarðsögunni. Sautján hundruð ár er líka stuttur tími,“ segir Haraldur með skírskotun til þess að þetta sé einmitt sá tími sem liðinn er síðan seinasta gos varð í Snæfellsjökli. Jökullinn er í reynd stórt eldfjall sem leynist undir íshettunni. „Áður fyrr litu menn svo á að eftir svo langan tíma án goss þá væri viðkomandi eldfjall dautt. Það varð þó ekki raunin í Heimaey og það á heldur ekki við um Snæfellsjökul. Í dag eru jarðskjálftar undir Snæfellsjökli en þar er ekkert eftirlit eða mælingar á þeim. Það er dálítið hneyksli hér á Íslandi, að þetta eldfjall sem er svo glæsilega áberandi frá þéttbýlinu í Reykjavík og með svo mikla byggð umhverfis það, að ekki skuli vera fylgst með þessu eldfjalli á neinn hátt,“ segir Haraldur Sigurðsson.
Engir jarðskjálftamælar á Vesturlandi
Hinn reyndi eldfjallafræðingur bendir máli sínu til sönnunar á þá staðreynd að þýskir vísindamenn settu fyrir tveimur árum síðan upp jarðskjálftamæla á Snæfellsjökli. „Viti menn! Strax kom á daginn að það voru staðbundnir jarðskjálftar beint undir jöklinum. Þetta var rannsókn sem varði aðeins í nokkra mánuði en leiddi í ljós að það voru skjálftar með upptök frá níu til 28 kílómetra dýpi, sennilega tengdir kvikuhreyfingum undir jöklinum. En síðan vitum við ekki meir. Mælingunum var hætt. Það eru engir jarðskjálftamælar á gervöllu Vesturlandi og þar af leiðandi enginn á Snæfellsnesi.“
Haraldur telur það mikið umhugsunarefni að ekki sé fylgst betur með eldfjallasvæðunum á Vesturlandi þar sem finna má mörg eldfjöll sem ekki eru gömul í jarðsögulegu samhengi. „Það er fylgst mjög vel með Kötlu, Bárðarbungu, Grímsvötnum og öðrum þekktum eldfjöllum á aðal gosbeltinu sem liggur austur yfir landið. Dreifingin á jarðskjálftamælanetinu er hins vegar dálítið vafasöm. Hún hefur að sumu leyti verið sett út frá því hvar virkjunum hefur verið valin staðsetning. Þannig tengist það áhættumati fyrir virkjanirnar en ekki því að fylgjast sem best með hugsanlegri eldvirkni á landinu öllu,“ segir Haraldur og dregur ekki dul á það álit sitt að þetta þurfi að taka til endurskoðunar.