Sofðu rótt

Sofðu rótt

Í dag eru um 11.500 hótelherbergi á Íslandi og fjölgaði þeim um 152% frá árinu 2010 til 2019, áður en heimsfaraldurinn setti ferðamannaþjónustuna í frost. Fyrir faraldur voru erlendir ferðalangar um og yfir 90% hótelgesta, og nú þegar allt er komið á fullt er hlutfallið það sama, eða jafnvel enn hærra yfir há sumarið þegar verðin eru sem hæst. Flest hótel á landinu eru full bókuð fram í miðjan ágúst. Síðan má ekki gleyma því að um 20% af gistináttaframboði á Íslandi er gisting í heimahúsum eða (sumar) bússtöðum. Þar er líka erfitt að fá gistingu með stuttum fyrirvara, enda er fjöldi erlendra ferðamanna hér nú, mun hærri en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir snemma í vor. Fyrir þá sem vilja ferðast ódýrara eru flestir bæir og sveitarfélög með ágætis tjaldstæði, sem og í Þjóðgörðunum, eins og tjaldstæðin í Ásbyrgi og Skaftafelli í Vatnajökulsþjóðgarði, sem eru til fyrirmyndar. En það getur tekið á, í kulda og vætutíð eins og var framan af sumri að gista í tjaldi, eins frábært og það er þegar vel viðrar.

Nýtt hótel með 129 herbergum, Hótel Reykjavík Saga opnar um helgina í Lækjargötu, á besta stað í miðbænum. Hótelið hefur verið 4 ár í byggingu, en framkvædir töfðust vegna heimsfaraldursins.
Það er ekkert hótel á Kópaskeri, en hér er laus lóð, og útsýnið er magnað á miðnætti vestur yfir Öxarfjörð. Lengst til vinstri er Tjörnes, síðan fjær eru Kinnafjöll, Flateyjarskagi og lengst í burtu má sjá fjöllin á Tröllaskaga vestan við Eyjafjörð, þar nyrst liggur Siglufjörður, með tveimur góðum hótelum.

Norður-Þingeyjarsýsla / Reykjavík :  A7R IV- A7C : FE 1.8/135mm GM, FE 1.4/24mm GMLjósmyndir & texti : Páll Stefánsson