Steinasafn Petru á Stöðvarfirði, einstakt í sinni röð

Talað við steininn

Steinasafn Petru á Stöðvarfirði er ævintýraheimur lita og forma sem á hvergi sinn líka.  Þetta einstæða safn er þess virði að gera sér ferð austur til Stöðvarfjarðar og reika í leiðslu um húsið og garðinn. Saga safnsins er ekki síður sérstök. Það varð til vegna ástar einnar konu Ljósbjargar Petru Maríu Sveinsdóttur á sköpunarmætti íslenskrar náttúru og átti í raun aldrei að verða safn opið almenningi.

1Allt frá barnæsku heilluðu steinarnir fallegu á Austfjörðum Petru. Sú tilviljun að nafn hennar, Petra skuli dregið af gríska orðinu petros, sem þýðir steinn, er í meira lagi  einkennileg í ljósi þess að þetta kvennafn hefur aldrei verið sérlega algengt á Íslandi. Kannski markaði nafngiftin örlög hennar en Petra var aðeins sjö ára þegar hún flutti heim með sér fyrsta steinninn en söfnunin hófst fyrir alvöru árið 1946. Þá fluttu hún og eiginmaður hennar í Sunnuhlíð, lítið einbýlishús sem ekki þykir stórt á nútímamælikvarða en var í huga Petru höll sem hafði nóg rými til að geyma alla fjárssjóðina sem hún rakst á.

Fljótlega sprengdu steinarnir af sér húsið og tóku að safnast upp í garðinum og skreyta blómabeðin sem Petra ræktaði af næmni og umhyggju. Ekki fór hins vegar hjá því að gestir á Stöðvarfirði tækju eftir þessum einstæða garði þar sem litríkur gróður og fegurstu steinar kölluðust á. Ekki er ofsagt að þar hafi mátt njóta litbrigða jarðar á litlum bletti. Fólk tók að banka upp á og biðja um að fá að skoða garðinn og Petra af íslenskri gestrisni leiddi það um garðinn og húsið. Ágangurinn jókst og  í fjöldamörg ár var Petra hvött til þess að þiggja greiðslu af gestum sínum en hún hafnaði því. Hún taldi steinana ekki sína eign heldur væru þeir allra Íslendinga. Að lokum var kostnaðurinn við gestakomurnar einfaldlega orðinn henni ofviða og hún sá sér ekki annað fært en opna safn.

Stórkostlegt innsæi
Nú eru steinarnir hennar Petru varðveittir af afkomendum hennar en þessi einstæða kona lést í janúar í ár, 89 ára að aldri. Hún var mikið náttúrubarn og engu var líkara en hún hefði til að bera eitthvert sjötta skilningarvit þegar kom að steinum. Oft tók hún steina sem ekki á nokkurn hátt virtust skera sig frá öðrum gráum bræðrum sínum og bar heim. Þegar steinarnir voru opnaðir komu hins vegar í ljós fegurstu kristallar eða geislasteindir. Þetta stórkostlega innsæi brást henni aldrei.

Steinasafn Petru 1Steinarnir í safninu skipta hundruðum þúsunda og beðin í garðinum næra ótal tegundir platna. Á hverju ári fer mikil vinna í að hreinsa beðin, þvo steinana svo þeir njóti sín og hlúa að gróðrinum. Að ganga um húsið hennar Petru er ekki síðra ævintýri og það er mjög skiljanlegt að hvers vegna hún kaus að safna þeim svo mörgum í kringum sig. Fjölbreytnin í formi og lögun slík að ef annar listamaður en náttúran hefðu hér verið að verki stæðu menn agndofa yfir slíkri hugmyndaauðgi. Auk þess eru steinarnir síbreytilegir eftir því hvernig birtan fellur á þá og eru aldrei eins.

museum inside 1Allar helstu steinatengundir landsins má finna í safninu en nefna má jaspis, brúna, græna og mislita, silfurberg með sitt tæra ljósbrot, geislasteina eins og stilbií og heulandít, kvarsteina eins ópal, bergkristall, karsedóna ametyst og ónyx. Að auki er þar steindarlíki á borð við hrafntinnu og svo ótalmargt fleira. Petra sjálf gerði ávallt lítið úr þekkingu sinni á steinafræðum en bréfaskriftir hennar við vísindamenn sýna að hún hafði miklu að miðla. Hún lagði einnig sitt af mörkum til eflingar rannsókna á íslenskri jarðfræði með því að safna sýnum fyrir fræðimenn.

detail museum 1Dýrmætur arfur
Allir Íslendingar eiga Petru mikið að þakka. Flestum steinunum safnaði hún á Stöðvarfirði og fyrst í stað aðeins í fjöllunum fyrir ofan húsið sitt. Eftir því sem samgöngur bötnuðu stækkaði könnunarland hennar en engu að síður er það ótrúlegt að allir þessir fjölbreyttu og fallegu steinar hafi fundist á svo litlu landssvæði. Þeir eru til vitnis um hversu fjölbreytt og auðugt þetta land okkar er og náttúran rík. Safnið hennar Petru dýrmætur arfur fyrir alla Íslendinga að njóta um alla framtíð.

Steinasafn Petru
Fjarðarbraut • 755 Stöðvarfjörður
475 8834
[email protected]
www.steinapetra.is

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0