Suðvesturlínur stærsta og flóknasta verkefnið hingað til

-Viðtal við Guðmund Inga Ásmundsson, aðstoðarforstjóra Landsnets Úrskurður umhverfisráðherra um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína og öðrum hugsanlega tengdum framkvæmdum hefur vakið mikla athygli, en úrskurðurinn skapar talsverða óvissu um framtíð þessa viðamikla verkefnis. Guðmundur Ingi Ásmundsson aðstoðarforstjóri Landsnets telur að þó úrskurðurinn taki ekki til efnislegra þátta skapi hann nokkra óvissu um tímasetningar verkefnisins og muni leiða til a.m.k. 3-4 mánaða seinkunar.

„Það hefur verið gegnumgangandi í öllu verkefninu að lögbundnir umsagnaraðilar hafa ekki virt lögbundin tímamörk.“ Segir Guðmundur. ljósm. Ingó

Guðmundur segir jafnframt að í raun sé óraunhæft að Suðvesturlínur séu metnar sameiginlega með orkuframleiðslu á þeim stöðum sem Landvernd og Náttúruverndarsamtökin fara fram á, enda kerfið ekki háð orkuframleiðslu þar. Að mati Landsnets væri það mikil skammsýni að horfa einungis til einstakra framkvæmda í stað þess að spá fyrir um framþróunina til lengri tíma. Þetta gæti leitt til þess að mun fleiri og minni línur yrðu lagðar á svæðinu sem valda munu meiri röskun á umhverfinu. Að sögn Guðmundar hefur Landsnet aldrei eytt jafnmiklum tíma og fjármunum í undirbúningsvinnu nokkurs verkefnis þegar kemur að umhverfis- og skipulagsmálum.
 
Viðamikið verk
Suðvesturlínuverkefnið felst í endurnýjun raforkuflutningskerfis sem nær til 12 sveitarfélaga, allt frá Hellisheiði og út á Reykjanes. Gert er ráð fyrir því að verkefnið taki sjö ár í framkvæmd og verði lokið árið 2017. Yfir 500 ný möstur verða reist, en um 400 eldri möstur verða tekin niður og jarðstrengir lagðir á nokkrum svæðum.

Guðmundur segir að Suðvesturlínuverkefnið sé líklega bæði umfangsmesta og flóknasta verkefnið sem Landsnet hafi ráðist í til þessa. „Við erum sannarlega ekki að tjalda til einnar nætur þegar við ráðumst í verkefni af þessari stærðargráðu. Þegar horft er til framtíðar sjáum við fram á að það verði umtalsverð uppbygging í atvinnustarfsemi á þessu svæði og því höfum við lagt mikið kapp á að undirbúa verkefnið vel. Sökum þess að framkvæmdin fer í gegnum fjölda sveitarfélaga, nálægt mjög þéttri byggð, höfum við unnið mjög náið með bæði sveitarfélögum á svæðinu og öðrum hagsmunaaðilum. Við höfum reynt að samræma sjónamið allra þeirra sem að þessu máli koma og setja fram tillögur með því markmiði að byggja fáar, en endingargóðar flutningslínur, og koma með þeim hætti til móts við umhverfissjónarmið. Þessi vinna hefur að okkar mati tekist afar vel og munum við nánast eingöngu fara inn á svæði sem þegar hefur verið raskað og reyna að forðast eftir fremsta megni að fara með meginflutningskerfið inn á viðkvæmari svæði á borð við fjallgarðinn á Reykjanesi,“ segir Guðmundur.

Landsneti bárust yfir hundrað tillögur að hönnun nýrra háspennumastra í nýyfirstaðinni hönnunarkeppni.

Allir umhverfisþættir til skoðunar
Guðmundur segir að í Suðvesturlínuverkefni nu séu í raun allir hugsanlegir umhverfisþættir til skoðunar. „Í matsferlinu skoðum við alla umhverfisþætti í samráði við sérfræðistofnanir, hvort sem það á við um sýnileika, nálægð við íbúabyggð, jarðrask eða áhrif á lífríki svæðisins. Það er vitaskuld mjög gott að fá ábendingar frá þessum stofnunum og við leggjum okkur fram við að bregðast við þeim. Við leggjum mikla áherslu á að ganga mjög vel um þau svæði sem við erum að vinna á og skila landinu í eins góðu ástandi og mögulegt er,“ segir Guðmundur.
12_Lina
Umræðan um sýnileika háspennulína hefur verið einna mest áberandi í þessu sambandi, en stefna Landsnets er að leggja jarðstrengi þar sem mjög sérstakar aðstæður krefjast þess, t.d. þétt íbúabyggð, eða á lægri spennu þar sem slíkt er hagkvæmt. Guðmundur segir það stafa fyrst og fremst af óhóflegum stofnkostnaði við lagningu jarðstrengja, auk minni líftíma og tæknilegra vandamála af rekstri þeirra á svo hárri spennu. Hann segir gjarnan koma upp misskilning í þessari umræðu þar sem svokallaðar dreifilínur með lágri spennu eru settar undir sama hatt og háspenntar flutningslínur á borð við Suðvesturlínur. Því hafi Landsnet farið sérstaklega ofan í saumanna í þessari umræðu. „Lágspenntari dreifilínur er hægt að plægja niður og valda því minna raski, en þegar leggja á háspenntar flutningslínur í jörð þarf að grafa breiða og stóra skurði og leggja veg meðfram þeim. Þetta getur valdið miklu raski þegar farið er í gegnum ósnert hraunasvæði eins og á Reykjanesinu þar sem þyrfti að sprengja skurði í hraunið. Þar yrðu mjög sýnilegar og varanlegar rásir í hrauninu. Það má svo ekki gleyma því að bygging loftlína er afturkræfari framkvæmd en lagning jarðstrengs. Ef framtíðin ber í skauti sér hagkvæmari kost getum við því einfaldlega tekið línurnar niður þegar kemur að endurnýjun þeirra,“ segir Guðmundur.

03_Gylfaflöt_9Allt að tífaldur kostnaður
Kostnaður við lagningu háspennulína í jörð og tæknilegir annmarkar vega þó hvað þyngst í þessari umræðu. Stofnkostnaður við gerð jarðstrengja er margfaldur á við loftlínu og segir Guðmundur að ef allar háspennulínur Íslands ættu að grafast í jörð myndi samkeppnisstaða orkuiðnaðar Íslands versna verulega og uppbyggingin nánast stöðvast. „Kostnaður við að leggja háspennulínur í jörð er mjög mikill, en veldisvöxtur er á kostnaði við aukna flutningsgetu. Þannig getur stofnkostnaður við að leggja háspennulínu í jörð verið allt að tífaldur miðað við loftlínu, en ef við horfum til Reykjanessins þá er stofnkostnaður við að leggja línuna í jörð að meðaltali fimmfaldur á hvern kílómeter. Þá ber að vekja athygli á því að í þessum útreikningum er einungis tekið tilliti til stofnkostnaðar, en endingartími jarðstrengja er helmingi styttri en loftlína og er því raunkostnaður hærri,“ segir Guðmundur.

Í einhverjum tilvikum, einkum á lægri spennustigum, er verjandi út frá kostnaði að leggja háspennulínu í jörð að sögn Guðmundar og mun Landsnet því til dæmis leggja 132 kV jarðstreng frá Nesjavallavirkjun til Reykjavíkur. „Það er einnig hugsað sem mótvægisaðgerð þar sem mjög margar háspennulínur eru þegar á þessu svæði og erfitt að fjölga þeim frekar. Þá verða samkvæmt stefnu okkar lagðir jarðstrengir í Reykjanesbæ, en álverið tengist í gegn um byggðina. Þar að auki þurftum við að taka tillit til nálægðar við flugvöllinn. Tæknilegir annmarkar og rekstaröryggi strengja skipta einnig verulegu máli þegar ákvarðanir eru teknar. Þar spilar m.a. inn í vandamál vegna jarðskjálfta og jarðhita á svæðum eins og Reykjanesskaga. Á svæði Suðvesturlína er talsverð jarðskjálftahætta auk þess sem hitastig jarðvegsins er hátt á hluta svæðisins og því illmögulegt að leggja jarðstrengi á hluta svæðisins,“ segir Guðmundur.

Möstur fjarlægð af viðkvæmum svæðum
Mótvægisaðgerðir við áhrif Suðvesturlína eru talsverðar, en til mótvægis við þau 500 möstur sem stendur til að reisa, verða um 400 gömul möstur tekin niður. „Það er því tiltölulega lítil fjölgun á möstrum á þessu svæði og eldri línuleiðir eru nýttar eins og framast er kostur. Við erum ekki að stækka þau svæði þar sem línur eru sýnilegar í dag. Þar að auki munum við taka niður línur á mjög viðkvæmum svæðum, t.d. háspennulínuna frá Geithálsi í gegnum Heiðmörk og íbúðarbyggðina í Hafnarfirði. Þannig munum við fjarlægja mjög há og sýnileg möstur á viðkvæmum svæðum og færa línur fjær byggðinni og tengja notendur með öðrum hætti. Einnig er gert ráð fyrir mikilli samvinnu við leyfisveitendur, heilbrigðiseftirlit á svæðunum og Umhverfisstofnun varðandi ýmsa þætti framkvæmdar. Það má því segja að vel hafi verið vandað til verks þegar kemur að mótvægisaðgerðum í Suðvesturlínuverkefninu“ segir Guðmundur.

Ný tegund mastra
Fyrir skemmstu stóð Landsnet fyrir alþjóðlegri hönnunarsamkeppni um hönnun á nýjum háspennulínumöstrum. „Keppnin var mjög vel heppnuð, en við fengum yfir hundrað tillögur og var þetta að margra mati einhver best heppnaða samkeppni í heiminum um hönnun á útliti háspennumastra. Það er mjög tímafrekt og kostnaðarsamt að vinna að útfærslu á nýjum möstrum, en við erum sífellt að horfa til framtíðaruppbyggingar og gætum fengið út úr keppninni mjög spennandi mastragerðir í framtíðinni sem falla betur að umhverfinu,“ segir Guðmundur.

Óvissa framlengd
Landsnet er um þessar mundir að fara yfir úrskurð umhverfisráðherra sem felldi úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína og annarra hugsanlega tengdra framkvæmda. Guðmundur segir að úrskurðurinn virðist fyrst og fremst gera athugasemd við vinnulag Skipulagsstofnunar og feli ekki í sér efnislega afstöðu til þeirra ákvarðana sem þegar hafa verið teknar. Hann segir ákveðinn misskilning ríkja um þetta mál og tekur fram að ekki sé verið að draga til baka álit Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum verkefnisins. „Það sem málið snýst um er að í upphafi þessa ferils var athugað hvort Suðvesturlínur og önnur verkefni ættu að fara í sameiginlegt umhverfismat. Í ákvörðun sinni færði Skipulagsstofnun margvísleg rök fyrir því að þess þyrfti ekki og það er þessi ákvörðun sem hefur verið felld úr gildi með úrskurði umhverfisráðherra. Þetta virðist einvörðungu gert vegna formgalla og hefur þá ekkert efnislega með umhverfismatið sjálft að gera. Vissulega mun úrskurðurinn framlengja óvissu í verkefninu. Ef niðurstaða málsins verður hins vegar sú að Suðurvesturlínur þurfi að fara í sameiginlegt mat með áformum um orkuöflun í Reykjanesfjallgarðinum mun það valda verulegum töfum á verkefninu. Við teljum hins vegar engin rök fyrir slíkri ákvörðun þar sem framkvæmdirnar við Suðvesturlínur eru að mjög litlu leyti háðar þessum áformum,“ segir Guðmundur.

Sameiginlegt mat óraunhæft
„Við höfum raunar alla tíð verið þeirrar skoðunar að sameiginlegt mat í þessu verkefni sé ekki raunhæft. Hér er í undirbúningi flutningskerfi sem er mun víðtækara en þær virkjanir sem vísað er til í úrskurðinum. Við horfum langt fram í tímann og erum að byggja línur sem munu standa í áratugi. Þar sem við erum að gera ráð fyrir atvinnuuppbyggingu og þróun íbúabyggðar langt fram í tímann finnst okkur það skjóta skökku við að setja verkefnið í umhverfismat vegna tiltekinna framkvæmda sem eru þó aðeins hluti af heildarmyndinni. Við teljum það því óraunhæft að setja verkefnið í sameiginlegt umhverfismat þar sem slíkt myndi leiða til mun þrengri sýnar en eðlilegt er. Ef kerfið er klæðskerasaumað að þörfinni á hverjum tíma myndi það að öllum líkindum leiða til þess að fleiri minni línur yrðu lagðar um allt svæðið, sem vart þjónar hagsmunum umhverfisins.

Þegar undirbúningsvinna við verkefnið hófst kom í ljós að óvissa er um ákveðna virkjanakosti, bæði stærð þeirra og staðsetningu. Það voru því of óljósar forsendur og óvarlegt að leggja í kostnað við undirbúning framkvæmda sem ekki var meiri vissa um. Því var ákveðið í samráði við sveitafélögin og Skipulagsstofnun að miða undirbúninginn við meginflutningskerfið, sem í öllum tilvikum þarf að byggja, ásamt tengingu þeirra virkjana sem vissa var um. Þó við höfum vissulega skoðað hvaða leiðir eru færar til að tengja við meginflutningskerfið þessa mögulegu virkjanakosti sem Landvernd og Náttúruverndarsamtökin benda á.

Það liggur hins vegar fyrir að hluti framkvæmdanna þolir ekki bið þar sem einungis ein lína liggur eftir Reykjanesskaganum í dag. Þörf er fyrir þessa línu bæði af öryggisástæðum og til að þjóna almennri uppbyggingu á svæðinu. Þetta er eina flutningsleiðin og ef hún liggur niðri koma virkjunaraðilar orkunni sinni ekki á markaðinn, en hlutverk Landsnets er meðal annars að tengja virkjanir inn á kerfið,“ segir Guðmundur.

Erfitt starfsumhverfi
Samtök atvinnulífisins hafa bent á að ákvörðun umhverfisráðherra hafi í raun borist of seint og sé því ólögmæt. Samkvæmt 14. grein laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 skal umhverfisráðherra úrskurða um kærur innan tveggja mánaða frá því þær berast. Kæra Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands barst 24. Apríl, en úrskurður umhverfisráðherra barst 29. September, eða þremur mánuðum eftir lögbundinn frest.

„Vinna við þetta verkefnii hefur dregist mjög mikið miðað við upphaflegar áætlanir vegna stjórnsýslunnar. Við gerðum ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika í tímaáætlunum til að mæta töfum af þessu tagi byggða á reynslu síðustu ára. Nú er raunin sú að þessi slaki er uppurinn. Það hefur verið gegnumgangandi í öllu verkefninu að lögbundnir umsagnaraðilar hafa ekki virt lögbundin tímamörk. Þetta gerir okkur mjög erfitt fyrir og er sérstaklega bagalegt þegar við erum að vinna með fyrirtækjum sem starfa í hörðu samkeppnisumhverfi og þurfa að taka ákvarðanir um gríðarstórar fjárfestingar. Til þess að koma í veg fyrir að Landsnet skaðist höfum við þurft að gera ráðstafanir í samningum vegna þessara mála, en auðvitað væri það betra fyrir alla aðila að stjórnsýslan væri skilvirk,“ segir Guðmundur.

Metnaður lagður í að mæta auknum kröfum um umhverfisvernd
Sífellt auknar kröfur eru gerðar til umhverfisverndar á Íslandi og segir Guðmundur að búast megi við að þær aukist enn meir með tíð og tíma. „Allir ferlar varðandi umhverfismál verða sífellt flóknari og þarf því að vanda til verks. Þá þarf að verja meiri tíma og fjármunum í undirbúning en áður hefur verið. Þetta eru staðreyndir sem við höfum sætt okkur við og við höfum mikinn metnað til að fylgja þessari þróun. Í viðleitni okkar til að bregðast við þessum auknu kröfum hefur Landsnet líklega aldrei eytt jafnmiklum fjármunum og tíma í undirbúning vegna umhverfismála og samráðsvinnu en gert er í Suðvesturlínuverkefninu. Við höfum haft mikið samstarf við hagsmunaaðila og nær þar til 30-40 aðila, auk landeigenda sem eru afar margir á þessu svæði. Við höfum fundað með öllum sveitarfélögunum, haldið opna fundi með íbúum, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum, opnað sérstaka heimasíðu (www.sudvesturlinur. is) þar sem allar upplýsingar um verkefnið eru aðgengilegar og lagt okkur fram við að kynna þetta mál eins mikið og kostur er, raunar mun meira en lög gera ráð fyrir. Þetta hefur skilað niðurstöðu sem við teljum vera ásættanlega þegar litið er til heildarhagsmuna á þessu svæði,“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir að úrskurður umhverfisráðherra muni fresta verkinu um a.m.k 3-4 mánuði.

„Landsnet hefur líklega aldrei eytt jafnmiklum fjármunum og tíma í undirbúning vegna umhverfismála og samráðsvinnu en gert er í Suðvesturlínuverkefninu.“

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0