Dyrhólaey kletturinn með gatinu á miðri mynd var syðsti oddi Íslands fram að Kötlugosinu 1918. Við gosið myndaðist Kötlutangi sunnan við Hjörleifshöfða, 20 km / 12 mi austar en Dyrhólaey og náði hann rúman kílómetra lengra í suður en Dyrhólaey. Í náinni framtíð mun þó Dyrhólaey sem myndaðist í neðarsjávargosi fyrir 100 þúsund árum, endurheimta titilinn sem syðsti staður á meginlandi Íslands. Kötlutangi minnkar hratt vegna strauma og brims og nær nú aðeins 250 metrum sunnar en Dyrhólaey. Árið 1910 var fyrst byggður viti á þessari 120 metra háu landföstu eyju, hann var endurbyggður 1927. Dyrhólaey var friðlýst árið 1978, vegna sérstakrar náttúru, en ekki síst vegna mikils fuglalífs, en í Dyrhólaey er mikil lundabyggð. Á toppi Dyrhólaeyjar er feyki fallegt útsýni vestur suðurströndina að Pétursey og að Eyjafjallajökli. Í norðri blasir við Mýrdalurinn grænn og grösugur, Mýrdalsjökull og Katla, og í austri Reynisfjara, Reynisdrangar og Reynisfjall. Í há suðri má glitta Suðurskautslandið…. nei það er reyndar lygi.
Vestur-Skaftafellssýsla 14/08/2021 08:34 : A7RIV 1.8/135mm GM
Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson