,,Tækifærin eru í íslenskri sérþekkingu”
– segir Hjörtur Þór Steindórsson, viðskiptastjóri orkumála hjá Íslandsbanka

Orkubúskapur Íslendinga byggist á jarðhita, vatnsafli og innfluttu eldsneyti. Orkunotkun á hvern íbúa hér á landi er með því mesta sem þekkist og hlutfall endurnýjanlegrar orku er hærra en hjá öðrum þjóðum. Hlutur innlendra orkulinda hefur aukist mikið á undanförnum áratugum og hefur hlutfall innlendrar orku aldrei verið hærra. Árið 2011 voru um 86% af heildarorkunotkun hér á landi innlend og kom frá endurnýjanlegum orkulindum. Nýting jarðhita er stærsti hluti af heildarnotkun eða um 67% og munar þar mestu um hitaveitu til húshitunar. Vatnsafl er um 19% og afgangurinn, um 14% kemur frá innfluttum orkugjöfum. Hjörtur Þór Steindórsson, viðskiptastjóri orkumála hjá Íslandsbanka, segir að árið 2011 hafi raforkuvinnsla hér á landi verið um 17.210 GWst og er Ísland í þrettánda sæti miðað við aðrar Evrópuþjóðir þegar kemur að heildar raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum auðlindum. Hjörtur Þór segir að Ísland sé hins vegar með langmestu endurnýjanlegu raforkunotkunina í heiminum ef miðað er við höfðatölu (53,9 MWst/íbúa).

jardhitaradstefna.jpg

,,Tækifærin eru í íslenskri sérþekkingu” – segir , viðskiptastjóri orkumála hjá Íslandsbanka

–    Hverjir eru helstir þessir innlendu orkugjafar, Hjörtur Þór?
,,Þetta eru vatnsaflið og jarðhitinn. Landið okkar er blessað með miklum orkulindum sem við höfum nýtt okkur á undanförunum árum og áratugum. Til að mynda gleymist oft hve einstakt það er að geta nýtt jarðhitann til húshitunar miðað við að nota t.d olíu eða kol. Svo ég tali nú ekki um gjaldeyrissparnað vegna þessa, sem hefur verið áætlaður um 60-80 milljarðar á ári.”

Tækifæri í sérþekkingu Íslendinga
Mörg tækifæri eru fyrir Íslendinga tengd orkugeiranum, bæði innanlands og erlendis. Innanlands eru helstu tækifærin í tengslum við virkjun rafmagns frá endurnýjanlegum orkugjöfum og hugsanlega uppbyggingu á Drekasvæðinu.
,,Mörg tækifæri liggja einnig erlendis fyrir t.d. verkfræði- og þjónustufyrirtækin. Sem dæmi má nefna að nú þegar eru spennandi verkefni í löndum eins og Ungverjalandi, Chile, Kenía, Eþíópíu, Nýja-Sjálandi, Grænlandi, Noregi og á fleiri stöðum. Þessi verkefni eru fjölbreytt og eru flest öll tilkomin vegna tengslanets eða orðspors fyrirtækjanna sem þau hafa skapað sér í öðrum sambærilegum verkefnum. Þessi verkefni eru allt frá því að vera ráðgjöf, rannsóknir og eftirlit á sviði jarðhita yfir í að bora jarðhitaholur og byggja mannvirki. Dýrmæt reynsla hefur myndast á frekar stuttum tíma í verkfræði- og þjónustufyrirtækjum innanlands vegna uppbyggingarinnar sem átti sér stað hér á landi, þessa sérþekkingu hafa fyrirtækin nýtt erlendis og fengið lof fyrir.”

Endurskoðunarákvæði viðheldur óvissu
–    Hvað ber helst að gefa gaum í nýlega samþykktri rammaáætlun?
,, Markmið rammaáætlunar var og er göfugt og gott en mikil umræða hefur skapast út af vinnubrögðum tengdum rammaáætlun eftir að faghópar skiluðu sínum niðurstöðum til ráðherra. Nokkrir virkjanakostir færðust á milli flokka undir þeim forsendum að frekari rannsókna þyrfti að afla fyrir þau svæði þó svo að á sumum svæðum lægju fyrir áralangar rannsóknir. Það sem skýtur einnig skökku við er að samkvæmt þessu mun ráðherra endurskoða rammaáætlun á fjögurra ára fresti sem orsakar það að þessi áætlun er í eðli sínu til skamms tíma og eyðir mun minni óvissu til framtíðar ólíkt því sem upphaflega var lagt upp með. Framkvæmdir af þessum toga taka langan tíma í undirbúningi og framkvæmd og krefjast mikilla fjárfestinga. Við þurfum að setja skýrari línur til framtíðar í virkjanamálum. Það væri ákjósanlegt fyrir framkvæmdaraðila að geta séð lengra fram í tímann, t.d. 10-15 ár með meiri vissu en nú er fyrir hendi. Af þessum sökum viðheldur þetta endurskoðunarákvæði óvissu fyrir þau fyrirtæki sem hyggja á framkvæmdir með tilheyrandi auka kostnaði.
Annað sem vekur eftirtekt í rammaáætluninni er að af þeim16 svæðum sem samþykkt voru í nýtingarflokk eru einungis tvær vatnsaflsvirkjanir, restin eru jarðvarmavirkjanir.”

Rúmlega 250 milljarða króna fjárfestingarþörf
,,Miðað við hvernig rammaáætlun var afgreidd í þinginu, þá gerum við ráð fyrir að fjárfestingaþörf vegna þeirra framkvæmda sem eru í nýtingarflokki og orkufyrirtækin stefna á að ráðast í framkvæmdir á næstu árum sé meira en 250 milljarðar króna. Það er hins vegar alveg ljóst að ekki verður farið í þessar framkvæmdir í bráð eða á sama tíma.”
Hjörtur Þór segir að mörg ljón standi enn í veginum, t.d. þarf að finna sterka kaupendur rafmagnsins sem sé auðvitað lykilatriði. Þar að auki, þá þarf að skapast sátt um þessar framkvæmdir og orkusölu. Það þarf auðvitað ekki að virkja meira fyrir heimilin í landinu. Allar framtíðarframkvæmdir verða til þess fallnar að selja raforku til stóriðju og því er áhugavert að spyrja hvort að vert sé að gera það á vegum opinberra fyrirtækja með ábyrgð skattborgara eða sér félaga, eins og Orkuveita Reykjavíkur er að skoða í tengslum við Hverahlíð.

Íslandsbanki tilbúinn í framtíðina
Íslandsbanki og forverar hans hafa á undanförnum árum haslað sér völl á sviði endurnýjanlegrar orku og umhverfisvænna orkugjafa. Á þessu sviði byggir bankinn á áralangri reynslu og þekkingu Íslendinga á nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Íslandsbanki hefur ákveðið að vera í fararbroddi þegar kemur að uppbyggingu íslenska orkugeirans, enda mikil og fjölbreytt tækifæri framundan.
,,Eins og mörgum er kunnugt er Ísland í sérstöðu þegar horft er til endurnýjanlegrar orku og möguleikarnir miklir. Íslendingar hafa nýtt sér þá þekkingu sem hér hefur myndast samfara uppbyggingu innlenda orkugeirans til að afla verkefna erlendis. Þar að auki hafa myndast ný tækifæri eins og með hugsanlegri lagningu sæstrengs til Evrópu og olíuvinnsla á Drekasvæðinu og þjónusta því tengd.
Bankinn hefur verið að skoða hvaða efnahagslegu áhrif sú þróun sem hefur átt sér stað á norðurslóðum mun hafa á Ísland, þ.m.t. Drekasvæði og einnig tækifæri tengd Grænlandi. Til þess að tryggja afburðaþjónustu við þennan geira hefur verið myndaður hópur sérfræðinga innan bankans sem samanstendur af starfsfólki með áralanga reynslu í fjármálageiranum og orkumálum. Þá hefur bankinn staðið fyrir útgáfu á skýrslum um orkumarkaðinn bæði hér heima og í völdum löndum erlendis.”

Íslenski jarðvarmaklasinn slítur barnsskónum
–    Eru aukin tækifæri í orkugeiranum í náinni framtíð?

Hjörtur Þór Steindórsson segir að Jarðvarmaklasinn sé áhugavert verkefni og vinna sem Íslandsbanki hefur verið með í frá upphafi. Iceland Geothermal, er fyrirtækjadrifið klasasamstarf sem hófst í júní árið 2011 og hefur nýverið verið framlengt með stofnun félags í kringum samstarfið. Með í þessu nýja félagi eru 43 fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir á landinu og þeim mun örugglega fara fjölgandi á næstu vikum og mánuðum en öllum sem vilja vinna að markmiðum félagsins er frjálst að gerast aðili að því.
Tilgangur klasasamstarfsins er að tengja saman ólíka klasaaðila, fyrirtæki og stjórnvöld og stuðla að nýsköpun í jarðvarmatækni, þar með talið þróun nýrra vara. Samstarfið á einnig að stuðla að bættri samkeppnishæfni jarðvarmaklasans og þar með Íslands, auka verðmæti afurða og þjónustu í jarðvarma og efla núverandi fyrirtæki í jarðvarmanýtingu. Vonast er til að samstarfið muni stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja á sviði jarðvarma, laða að innlenda og erlenda fjárfestingu og stuðla að útflutningi á þjónustu og framleiðslu sem tengist jarðvarmanýtingu.”

Olíuvinnsla á Drekasvæðinu og við austurströnd Grænlands
Töluverð tækifæri geta leynst á Drekasvæðinu og Grænlandi fyrir Íslendinga og þá sérstaklega með að þjónusta framkvæmdaraðila. Þjónustuiðnaður við olíuleit er gríðarlega stór og umfangsmikill og töluverð tækifæri liggja þar.
,,Þessir aðilar munu m.a. þurfa að kaupa vistir og fá ýmsa þjónustu í landi. Ljóst er að stórir aðilar eru að skoða olíuvinnslu við austurströnd Grænlands og því skiptir máli að Ísland sé í fararbroddi við að þjónusta þessa aðila eins vel og hægt er þar sem Ísland er sannarlega nærtækasta landið. Við teljum að sem þjóð þurfum við að skoða gaumgæfilega hvað er að fara í gang í grennd við okkur og reyna að teikna upp hvernig við getum nýtt okkur legu landsins til að ná viðskiptum. Ef ekki, þá verður það bara gert annarsstaðar frá. Gott dæmi um þetta eru nýstofnuð samtök, Arctic Services, sem er að kortleggja tækifæri vegna aukinna og vaxandi umsvifa í námu- og olíuvinnslu á Grænlandi og Drekasvæðinu og kynna þá þjónustu sem hægt er að bjóða á Eyjarfjarðarsvæðinu.”

Með sæstreng geta fleiri orkukostir orðið arðbærir
,,Lagning sæstrengs er mjög áhugavert verkefni og vert að skoða mjög vel. Það þarf að kortleggja kosti og galla þessa verkefnis og meta útfrá heildar þjóðhagslegum áhrifum,” segir Hjörtur Þór. ,,Ísland er ríkt af auðlindum sem hægt er að beisla til framleiðslu rafmagns. Sæstrengur getur haft marga kosti fyrir land og þjóð en hugsanlega geta fylgt þessu ókostir sem þarf að greina gaumgæfilega. Miðað við þróun á rafmagnsverði í dag og sífellt aukna eftirspurn eftir endurnýjanlegri grænni orku t.d. í Evrópusambandinu með markmiði sínum um að 20% af orku komi frá endurnýtanlegum orkugjöfum árið 2020, hefur Ísland sterka samkeppnisstöðu og það sem meira skiptir hefur landið meira en nóg af grænni orku sem hægt væri að nýta á alþjóðvísu, landi og þjóð til heilla.Að auki geta orkukostir sem eru í dag óarðbærir orðið arðbærir með sæstreng vegna hærra orkusöluverðs á alþjóðlegum markaði.Lagning sæstrengs gæti haft þau áhrif að orkuöryggi Íslands eykst, að ótöldu hagræði og bættri nýtingu á núverandi virkjunum,” segir Hjörtur Þór Steindórsson, viðskiptastjóri orkumála hjá Íslandsbanka.

islandsbank1_graf2.png

Þróun rafkorkuframleiðslu.

 

islandsb_graf1.png

Frumorkunotkun