Gunnuhver

Upplifðu jarðfræðileg undur Reykjaness

Eldgos, Bláa Lónið og allt þar á milli – njóttu vel!

Keilir

Reykjanesskaginn hefur löngum verið þekktur fyrir stórbrotna landslagstöfra sína sem samanstanda af hraunbreiðum, hverum og hraunhellum. En frá og með nú í mars 2021 geta ferðamenn – eftir stutta gönguferð – orðið vitni að gjósandi eldfjalli, spúandi heitri kviku sem ekkert lát virðist á. Atburðinn má einnig sjá úr þyrlu ef þess er heldur óskað.

Nýjasta aðdráttarafl Reykjaness

Að kvöldi nítjánda mars sl. hófst eldgos í Geldingadölum sem eru fyrir aftan Fagradalsfjall á Reykjanesi. Gosið hafa gárungar kallað „ferðamannagos“ vegna staðsetningar og greiðs aðgengis að því, hvort sem er gangandi eða í þyrlu. Móðir Jörð tekur þar hlýlega á móti gestum sínum og það má með sanni segja að kraftur jarðarinnar sé engu líkur.

Enn frekari jarðfræðilegur kostuleiki

Jarðhitasvæði Krýsuvíkur hefur löngum verið vinsælt bæði meðal jarðfræðinga og göngufólks. Sjóðandi hverasvæði þar sem leirinn, rauður, gulur og appelsínugulur, leyfir litadýrðinni að dansa við gufuna. Göngustígar um svæðið gefa fólki kost á að hverfa inn í annan heim um stund, nær hinum frumstæða veruleika sem íslensk náttúra býður upp á.

Seltún í Krýsuvík

Yfir Mið-Atlantshafshrygginn

Á Reykjanesinu er einstakt svæði þar sem Mið-Atlantshafshryggurinn rís úr sæ. Táknræn göngubrú liggur yfir togsprungu sem rekja má til gliðnunar jarðskorpu vegna plötu-(fleka-)reks um Mið-Atlantshafshrygginn og býður gestum uppá glæsilegt útsýni yfir hrygginn sem tengir Evrasíu og  Norður-Ameríkuflekana

Þar sem jarðhitinn býður upp á frið og ró

Bláa lónið hefur löngum verið einn þekktasti staður Íslands og hefur í áravís dregið að gesti frá öllum heimshornum sem njóta þess að fljóta um í draumkenndu andrúmslofti lónsins. Vinsælt allt árið um kring enda jafnheitt hvort sem er að vetri eða sumri, almenn andleg ró svífur yfir og svo má njóta norðurljósanna í bland við gufuna sem leikur um gesti – ef veðurguðirnir leyfa. 

Rannsakaðu eldgíga!

Þegar kemur að áhugaverðum gönguleiðum þá er Reykjanesið rétti staðurinn. Gönguferð að Stóru-Eldborg er til dæmis kjörin, en Stóra-Eldborg er einn fegursti gígurinn á suðvesturhluta Íslands. Hann er 50 metra hár og 30 metra djúpur og aðgengið er auðvelt, en gönguslóði liggur upp á topp. Annað áhugavert svæði er gígaröðin Stampar en það eru tvær gossprungur sem liggja frá sjó inn í land á vestanverðu Reykjanesi og mynda 2000 ára gamlar gígaraðir sem eru um 4 km. Segja má að Reykjanesskaginn sé einkar áhugavert og fjölbreytt landssvæði og vel þess virði að skoða einstaka náttúru og jarðfræðileg undur staðarins.