Gengið um þrívíddarlíkön – Uppýsingalíkanið BIM samþættir öll svið byggingariðnaðarins
-Uppýsingalíkanið BIM samþættir öll svið byggingariðnaðarins
Markvisst er nú unnið að því að innleiða notkun upplýsingalíkana (BIM) í mannvirkjagerð á Íslandi. Haraldur Ingvarsson, verkefnisstjóri BIM Ísland, segir að upplýsingalíkönum fylgi ótal kostir sem nái að samþætta öll svið byggingariðnaðarins; hönnun, framkvæmdir, rekstur og viðhald.
Upplýsingalíkanið er gert með því að útbúa þrívítt líkan af byggingunni, sem er hlutbundið en ekki einungis samansett úr línum og flötum.
BIM er í stuttu máli hlutbundið upplýsingalíkan sem geymir allar upplýsingar um mannvirki yfir líftíma þess og gerir kleift að samnýta hönnunargögn milli mismunandi forrita t.d. CAD forrita og burðaþolsforrita frá mismunandi framleiðendum, en þar sem mismunandi verk ( lagnir, burðarþol, orkureikningar, o.s.frv.) eru unnin í mismunandi forritum er nauðsynlegt að geta flutt gögnin á milli og kallar það á samhæfða miðlun upplýsinga (IFC).
Misræmi milli fagaðila fyrirbyggt
Upplýsingalíkanið (BIM) er gert með því að útbúa þrívítt líkan af byggingunni, sem er hlutbundið en ekki einungis samansett úr línum og flötum. Þannig er hver byggingarhluti „meðvitaður“ um úr hverju hann er gerður („ég er 18 cm steinsteyptur veggur með 10 cm steinull, múrhúð beggja vegna og málaður hvítur).“ Haraldur segir þetta gera það mögulegt að sækja magntölur um leið og líkanið er búið til og það auðveldi notendum einnig að gera nákvæmari magntöku með því að bera saman mismundandi útfærslur og samræma allar breytingar á margfalt skemmri tíma en með hefðbundinni aðferð. Til viðbótar við að fyrirbyggja misræmi milli fagaðila, segir Haraldur að með því að nýta þrívíddina geti menn útbúið skýrari upplýsingar sem einnig leiði af sér færri mistök. „Þannig er auðvelt að skýra mannvirkið út fyrir öðrum þar sem allar upplýsingar eru í þrívídd og það er hreinlega hægt að labba um það,“ segir Haraldur. Hann segir BIM henta fyrir öll verk, bæði lítil og stór. „Almennt þar sem skipulagningar er þörf, sem er í flestum verkum, þá skilar vinnan sér á seinni stigum verksins,“ segir Haraldur.
Haraldur Ingvarsson, verkefnisstjóri BIM Ísland. Ljósm. Ingó
Breyttir vinnuferlar
Framkvæmdasýsla ríkisins hafði frumkvæði að því að setja á laggirnar BIM Ísland, sem hefur unnið að því undanfarið ár að innleiða BIM í mannvirkjagerð á Íslandi. Markmið hópsins er að stofna samstöðu meðal opinberra verkkaupa um notkun byggingaupplýsingalíkana í opinberum framkvæmdum með það fyrir augum að bæta gæði í hönnun og framkvæmdum og lækka líftímakostnað bygginga.
Haraldur segir að líklega séu ástæður þess að innleiðing BIM sé ekki komin lengra hér á landi vera að kröfur markaðarins hafi ekki ýtt á það og svo sé ákveðin tregða að breyta aðferðafræði sem virki. „BIM aðferðafræðin gerir kröfur um að menn breyti hefðbundnum vinnuferlum og aukin samvinna á milli hönnuða arkitektúrs, burðarþols og lagna verður ennþá mikilvægari. BIM er ekki eitt ákveðið forrit, en þau forrit sem eru notuð verða að geta skipst á upplýsingum og þá er IFC staðallinn skilyrði. Fólk er almennt ekki meðvitað um möguleikana sem skapast með BIM væðingu,“ segir Haraldur.
Auðvelt að skýra mannvirkið út fyrir öðrum, en það er hreinlega hægt að labba um það.
Allir fagaðilar njóta góðs af BIM
Haraldur segir það vera víðtæka skoðun að allir njóti góðs af slíku upplýsingalíkani og þar af leiðiandi eigi allir að bera hluta af kostnaðinum. „Það er almennt talið að kostnaðurinn við BIM væðinguna (endurnýjun tækja, hugbúnaður og þjálfun) sé lægri en hagnaðurinn sem fæst með breytingunni. Nánari skoðun er í gangi hjá mörgum aðilum, enda mikilvægt að upplýsingarnar séu sem nákvæmastar og menn viti hverjir eru að hagnast mest og síðan borga mest. Hvernig líkanið er afhent, hvernig samningar eru og hvernig greiðslum er háttað stýrir að verulegu leyti hvernig hagnaðinum af BIM væðingunni er skipt,“ segir Haraldur. Að hans sögn hafa verkkaupar yfirleitt leitt breytinguna í þeim löndum þar sem BIM er lengst komið, enda sé ávinningur mestur þar.
„BIM aðferðafræðin gerir kröfur um að menn breyti hefðbundnum vinnuferlum og aukin samvinna á milli hönnuða arkitektúrs, burðarþols og lagna verður ennþá mikilvægari. BIM er ekki eitt ákveðið forrit, en þau forrit sem eru notuð verða að geta skipst á upplýsingum og þá er IFC staðallinn skilyrði. Fólk er almennt ekki meðvitað um möguleikana sem skapast með BIM væðingu“