Lýðræðisleg arfleifð Ólafs Ragnars Grímssonar,fyrrverandi forseta Íslands
Ólafur Ragnar Grímsson setti Arctic Circle ráðstefnuna í Hörpu þann 6. október 2016. Það var í fyrsta sinn sem hann kom formlega fram eftir að hafa látið af embætti forseta Íslands eftir 20 ár í embætti. Fyrstu tólf ár Ólafs Ragnars voru fremur hefðbundin en síðari átta árin – frá bankahruninu mikla í október 2008 – fór hann ótroðnar slóðir og skapaði sér ótvíræða sérstöðu meðal þjóðhöfðingja heims.
Hann skoraði hið alþjóðlega fjármála- og yfirþjóðlega vald á hólm með því að vísa hinni umdeildu Icesave-deilu til íslensku þjóðarinnar. Í stað þess að beygja sig fyrir hinu alþjóðlega fjármálavaldi sem til að mynda knésetti Grikki, þá stóð forseti Íslands hnarreistur frammi fyrir pólitískri elítu og óvígum her fréttamanna sem gagnrýndu ákvörðunina um Icesave. Hann fór fremstur í vörn fyrir þjóð sína sem stóð ein gegn umheiminum en hafði betur siðferðilega sem og fyrir dómstólum.
Lýðræði hafði sigur.
Með Arctic Circle hefur Ólafur Ragnar skapað alþjóðlegan, lýðræðislegan vettvang um málefni Norðurslóða sem fyrrum voru í lokuðum bakherbergjum á tímum kalda stríðsins. Norðurslóðir sæta nú vaxandi ógn hlýnunar jarðar. Heimskautaísinn bráðnar með ógnvekjandi hraða. Arctic Circle Assembly er vettvangur sem á sér ekki fordæmi á alþjóðavísu þar sem pólitík, vísindi, hugveitur, fyrirtæki, umhverfissamtök og frumbyggjar koma saman og beina kastljósi að Norðurslóðum sem áður fengu litla athygli. Arctic Circle Assembly er nýjung í alþjóðlegu samstarfi. Arctic Circle er vagga lýðræðislegrar umræðu þar sem áður ríkti þögn.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur í störfum sínum á Bessastöðum skipað lýðræði til öndvegis, fært valdið til fólksins.
Heimsleiðtogar á Arctic Circel
Ólafur Ragnar Grímsson setti ráðstefnuna í Hörpu sem formaður Arctic Circle Assembly en hafði áður verið heiðursforseti. Viðstaddir voru um 2.000 ráðstefnugestir frá yfir 50 löndum. Ráðstefnan markar þáttaskil því þar kemur pólitík og almenningur saman og ber saman bækur sínar; fólk sem vill láta rödd sína heyrast um málefni sem varða veröldina svo miklu. Ísland hefur á fáum árum orðið helsti vettvangur alþjóðlegrar umræðu um Norðurslóðir; miðdepill lýðræðisumræðu. Ísland hefur haslað sér völl á alþjóðlegum vettvangi svo eftir er tekið.
„Það vill gleymast hve Norðurslóðir eru mikið landflæmi, á stærð við Afríku. Norðurslóðir voru um aldir ókunnar hinum svokallaða siðmenntaða heimi, fjarlæg veröld frumbyggja. Í kalda stríðinu urðu Norðurslóðir eitt helsta átakasvæði stórveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Það var ekki fyrr en undir lok 20. aldar og raunar byrjun 21. aldar sem breyting verður á. Í fyrsta sinn í sögunni skapast yfirsýn yfir Norðurslóðir þar sem loftslagsbreytingar hafa djúpstæð áhrif og heimskautaísinn hopar. Það er mikið fagnaðarefni að um Norðurslóðir hefur myndast lýðræðislegur vettvangur opinnar umræðu sem skapar grundvöll til upplýstra ákvarðana,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson í samtali við Land & sögu.
National Press Club, Washington apríl 2013
Ólafur Ragnar tilkynnti um stofnun Arctic Circle Assembly í National Press Club í Washington vorið 2013. „Norðurslóðir gjalda fyrir alþjóðlegt afskiptaleysi og óskilvirka stjórnsýslu – skort á yfirsýn. Nú þegar heimskautaísinn bráðnar svo hratt sem raun ber vitni er tímabært að beina sjónum að Norðurslóðum. Alþjóðasamfélagið þarf að takast á við þessar breytingar af yfirsýn og með lýðræðislegum hætti,“ sagði Ólafur Ragnar í Washington, 15. apríl 2015.
Um 1.300 manns frá 30 löndum komu á Arctic Circle Assembly í Reykjavík haustið 2013. Fyrirlesarar voru meðal annarra Eric Schmidt, stofnandi Google, Aleqa Hammond, forsætisráðherra Grænlands og Artur Chiligangarov, ráðgjafi Vladimir Putin um Norðurslóðir. Ári síðar var Sauli Niinistö, forseti Finnlands helsti ræðumaður ráðstefnunnar og árið 2015 kom François Hollande, forseti Frakklands í aðdraganda Loftslagsráðstefnunnar í París. Tvö þúsund manns frá yfir 50 löndum sóttu ráðstefnuna. Forsetarnir fóru að Jökulsá á Sólheimasandi og skoðuðu ummerki loftslagsbreytinga.
Með Arctic Circle Assembly er Ísland í fyrsta sinn vettvangur meiriháttar alþjóðlegs samstarfs. Þjóðin hafði áður haldið leiðtogafundi. Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna og Mikhail Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, hittust í Reykjavík 1986. Richard Nixon og Georges Pompidou, forsetar Bandaríkjanna og Frakklands, hittust á Íslandi 1973. Frægasta skákeinvígi sögunnar fór fram í Laugardalshöll árið 1972 þegar Bobby Fischer hrifsaði heimsmeistaratitilinn úr höndum hins sovéska Boris Spassky. Einstakir viðburðir, en Ísland hafði aldrei áður verið árlegur vettvangur einnar stærstu ráðstefnu veraldar.
Ísland skínandi fyrirmynd
Í október 2016 voru Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar helstu ræðumenn. „Ísland er skínandi fyrirmynd en þið getið gert meira,“ sagði Ban Ki-moon í Hörpu og benti á að þá um sumarið hefði á nokkrum vikum heimsskautaís á stærð við England bráðnað. „Ban Ki-moon hefur skýra sýn á framtíðina, hann hefur sýnt mikla stjórnvisku og hugrekki,“ sagði Ólafur Ragnar. Arctic Circle hefur að sönnu orðið öflugur vettvangur lýðræðisumræðu þar sem helstu leiðtogar heims mæta til leiks.
Árið 1996 var Norðurskautsráðið stofnað af ríkisstjórnum átta þjóða; Bandaríkjanna, Rússlands, Kanada, Íslands, Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og Danmerkur fyrir hönd Grænlands og Færeyja. Ýmsir líta á Arctic Circle sem áskorun eða jafnvel mótvægi við ráðinu en Ólafur Ragnar segir það misskilning.
„Arctic Circle Assembly er stjórnvöldum Norðurslóða stoð. Á fundum Norðurskautsráðsins eiga pólitík og embættismenn sæti og rödd. Arctic Circle hins vegar er opinn lýðræðislegur vettvangur þar sem allir, sem telja sig hafa til mála að leggja, eiga sæti og rödd. Þannig koma saman pólitík, hugveitur, vísindi, viðskipti, umhverfissamtök og frumbyggjar Norðurslóða,“ segir Ólafur Ragnar. „Á Arctic Circle situr pólitíkin til borðs með almenningi. Lýðræði hefur fengið nýjan vettvang.“
Icesave vísað til þjóðar
Ólafur Ragnar Grímsson var formaður Alþýðubandalagsins 1987-1995 og ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991, kjörinn forseti Íslands 1996 og endurkjörinn 2000, 2004, 2008 og 2012. Fyrstu tólf árin voru fremur hefðbundin en í kjölfar bankahruns í október 2008 stóð íslensk þjóð frammi fyrir áður óþekktum vanda sem ógnaði fjárhag og fullveldi. Þjóðin var undir þungum alþjóðlegum þrýstingi um að gangast í ábyrgð fyrir Icesave-reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi.
Ríkisstjórn Íslands gekk að samkomulagi um að gangast í ábyrgð fyrir skuldir einkabanka en Ólafur Ragnar Grímsson neitaði í tvígang lögum staðfestingar og vísaði Icesave til þjóðarinnar sem hafnaði í bæði skiptin. Þjóðin hlaut fordæmingu fyrir víða um heim, meðal annars harða gagnrýni frá vinaþjóðum á Norðurlöndum. Ólafur Ragnar tók til varna frammi fyrir hinni alþjóðlegu pressu. Málinu var vísað til EFTA dómstólsins þar sem Ísland hafði fullan sigur gegn Bretum, Hollendingum og Brussel.
Nú þegar þú hefur látið af störfum, vaknar sú spurning hvort þú hafir með Arctic Circle og Icesave breytt forsetaembættinu?
„Ég hef ákveðið að leggja sjálfur ekki dóm á störf mín í embætti forseta Íslands. Þó má segja að ég hafi annars vegar sinnt skyldum embættisins með hefðbundnum hætti, og hins vegar farið ótroðnar slóðir. Ég nýtti vald forseta til þess að vísa hinum umdeildu lögum um Icesave til þjóðarinnar og sætti harðri gagnrýni fyrir. En ég hef þá bjargföstu trú að lýðræðislegur vilji fólksins eigi að ráða. Það er almennt viðurkennt að það var rétt ákvörðun að vísa lögum um Icesave til þjóðarinnar sem reyndist traustsins verð. Ég er þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslurnar hafi breytt lýðræðislegum leikreglum á Íslandi. Áður hafði hin pólitísk elíta sagt að hún ein væri traustsins verð til þess að komast að réttri niðurstöðu en Icesave sýndi og sannaði að ríkisstjórn, hin pólitíska elíta, hafði rangt fyrir sér og að íslensk þjóð tók rétta ákvörðun.“
Virkur í alþjóðlegu samstarfi
Ólafur Ragnar segir að jafnhliða Arctic Circle hafi hann í störfum sínum á alþjóðavettvangi bryddað upp á ýmsum nýjungum. Þar komi loftslagsbreytingar og sjálfbær orka upp í hugann en líka þátttaka í ýmsum verkefnum og stofnunum. „Áður höfðu forsetar farið í opinberar heimsóknir, haldið ræður eða fyrirlestra en ekki verið virkir í alþjóðlegu samstarfi,“ segir Ólafur Ragnar.
Arctic Circle undirstriki þá staðreynd að forseti Íslands geti skapað vettvang um alþjóðlegt samstarf Íslandi til vegsauka, alþjóða samfélaginu til hagsbóta og gefið ungum Íslendingum tækifæri til þess árlega að taka þátt í slíku samstarfi. Slíkt sé afar lærdómsríkt. „Ég vona því að menn sjái að þó forseti sinni hefðbundum skyldum, þá megi nota embættið til þess að útvíkka alþjóða samvinnu og gefa Íslandi sterka rödd meðal þjóða heims.“
Íslensk þjóð varð ekki hlekkjuð
Ísland hefur styrkt stöðu sína á alþjóðavettvangi með Arctic Circle en gildir svo líka um Icesave?
„Klárlega, það er hin hlutlæga niðurstaða að Icesave ákvörðunin styrkti stöðu og jók virðingu Íslands. Sú ákvörðun að treysta þjóðinni fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave var einstök á alþjóða vettvangi. Því hafði verið haldið fram að lýðræði ætti ekki að taka fram fyrir hendur alþjóðlegra fjármálamarkaða. Allir vita að Grikkir fengu ekki að kjósa í sínum vandræðum. Gríska þjóðin var neydd til þess að gangast undir skuldafjötra sem hlekkja þjóðina um ókomin ár. Íslensk þjóð varð ekki hlekkjuð,“ segir Ólafur Ragnar.
Þá hafi orðstír Ísland vaxið fyrir tilstilli Arctic Circle. Stórþjóðir sendi árlega fulltrúa sína hingað til lands; Bandaríkin, Rússland, Kanada, Kína, Þýskaland, Frakkland, Bretland, Japan, Kórea og áfram megi telja. Þetta er staðfesting á því að Ísland geti og hafi mikilvægu hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi.
„Í opnum umræðum á Arctic Circle 2015 lýsti Mark Brzezinski, helsti embættismaður Barack Obama Bandaríkjaforseta um Norðurslóðir, ábyrgu samstarfi Bandaríkjamanna og Rússa þrátt fyrir djúpstæðan ágreining þjóðanna á alþjóðavettvangi, ekki síst um málefni Úkraínu. Brzezinski lagði áherslu á mikilvægi jákvæðrar opinnar samræðu. Arctic Circle er einmitt slíkur vettvangur,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson.
Sjá videó hér
Sjá grein á ensku hér
Texti: Hallur Hallsson