Verur vestur í Arnarfirði

Sá það fyrir margt löngu að á Bíldudal mælast flestir logndagar á ári á Íslandi. Enda er alltaf gott veður þegar ég kem í þetta litla sjávarpláss í Arnarfirði. Þessi stóri fjörður hefur upp á svo margt að bjóða fyrir ferðalanga. Ekki bara fossinn Dynjanda, eða Listasafn Samúels Jónssonar í Selárdal, Arnarfjörður er mesti skrímslafjörður á Íslandi. Fjörulallar eru víða, svo og ýmsar stærri og meiri ókindir. Nokkur dæmi eru um að togarar hafi fengið skrímsli í vörpuna. Því þarf að fara gætilega við og í Arnarfirði. Best er því að undirbúa sig vel með því að byrja að fara á Skrímslasetrið á Bíldudal. Þar lærir maður, hvað helst ber að varast þegar ferðast er þarna um. Eins og til dæmis um Faxaskrímslið. Sú skepna hefur oft sést í Arnarfirði, og stafar sjómönnum mikil hætta af þessu risastóra drekalíka skrímsli. Síðast sáust tvö Faxaskrísmsli saman í Geirþjófsfirði í botni Arnarfjarðar í maí 2010. 

Horft norður yfir Arnarfjörð frá Hyrndarnesi, að Bauluhúsaskriðum. Því miður náði ég ekki mynd af risastóru skrímsli sem rétt áður hafði öskrað upp í vestanvindinn, að mér var sagt.

 

Þorpið Bíldudalur, eini byggðarkjarninn í Arnarfirði. Bíldudalsfjall í bakgrunni.

 

Vestur Barðastrandasýsla  26 & 27/03/2020 09:47 & 19:31 – A7R III : FE 2.8/100mm GM & FE 1.4/50mm ZA

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson