Vestfirðir eru utan alfaraleiðar og því minnst heimsótti landshlutinni, en Vestfirðir eru þó nær er marga grunar. Þeir sem heimsækja svæðið koma oft til að sjá stærstu seglana, Hornstrandir, Látrabjarg, Rauðasand og Dynjanda en það sem kemur oftast að óvart er kyrrðin. Vestfirðir hafa lengi verið paradís göngugarpa og er hægt að fara í margra daga ferðir og oft er hægt að ganga í heilan dag án þess að hitta nokkra lifandi sálu. Þarft þú hvíld frá ys og þys hversdagslífsins þá gæti verið notalegt að setjast í fjöruna og slappa af og hlusta á náttúruhljóðin og ekkert annað.
Á Vestfjörðum má finna mikið af villtum dýrum, þar má einnig finna stærsta fuglabjarg í Evrópu, margar skemmtilegar eyjur sem iða af lífi. Hægt er að fara í styttri ferðir í fuglaeyjurnar Vigur í Ísafjarðardjúpi og Grímsey í Steingrímsfirði.
Á sumrin er töluvert mikið um hval á Vestfjörðum og er meðal annars boðið upp á hvalaskoðunarferðir með RIB-bát frá Ísafirði. Þegar ferðast er um á Vestfjörðum er ekki ósjaldgæft að sjá seli á sundi eða að spóka sig í fjörunni. Í Hvítanesi í Ísafjarðardjúpi má yfirleitt finna seli, á Rauðasandi er boðið upp á skoðunarferðir niður á sandinn þar sem má finna mikið af sel.
En það eru ekki bara fuglar, hvalir og selir á Vestfjörðum, þar má einnig finna refi. Þetta umdeilda dýr er að finna víða á Vestfjörðum en einnig má oft yfir sumartímann hitta yrðling á Melrakkasetrinu í Súðavík
Vestfirðir eins og megnið af Íslandi byggðist upp í kringum fiskveiðar og er sjávarútvegur enn stærsta atvinnugreinin á Vestfjörðum. Það er gaman að heimsækja lítið sjávarþorp að sumri og fylgjast með lífinu í kringum hafnir þorpanna. Á stöðum eins og Suðureyri er meira að segja hægt að fara í matarsmakksferð um bæinn og heimsækja fiskvinnslu.
En lífið á Vestfjörðum er ekki bara saltfiskur!
Það eru margir viðburðir og fullt af söfnum og sýningum um alla Vestfirði sem veita smá innsýn inn í lífið og menninguna á Vestfjörðum. Viltu fræðast um sjóskrímsli, galdra, refi eða haferni. Þetta er aðeins brot af þeim söfnum og sýningum sem eru í boði á Vestfjörðum
Á Vestfjörðum eru oft kjöraðstæður fyrir allskonar ævintýri á og við sjó. Þröngir firðir veita gott skjól og gera okkur kleift að stunda sport eins og sjókayak. Mikið er um bátsferðir á Vestfjörðum og má þar nefna meðal annars sjóstangveiði, RIB-báta ferðir, fuglaskoðunarferðir á bátum. Einnig er hægt að fara með bátum yfir á Hornstrandir og Jökulfirðina bæði frá norðanverðum Vestfjörðum og frá Árneshrepp á Ströndum.
Fyrir þá sem treysta sér ekki á sjó er oft gaman að leika sér í fjörunni og er þar endalaus skemmtun fyrir yngstu meðlimi fjölskyldunnar. Að leika sér að gera sandkastala eða bara rölta og safna skeljum, allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.