– Samfelld verslun frá árinu 1953
Íslendingar færðu fiskveiðilögsögu sína úr þremur mílum í fjórar 15. maí 1952. Það varð til þess að félög útgerðarmanna í Grimsby og Hull bönnuðu löndun íslenskra skipa. Efnt var til viðræðna embættismanna beggja ríkja í Lundúnum, en þær skiluðu engum árangri. Gríðarlegir hagsmunir voru í húfi því á þeim tíma fór 80% ísfisksaflans á Bretlandsmarkað. Bregðast þurfti hratt við og gripið var til þess ráðs að auka framleiðslu á skreið, saltfiski og frystum fiski, en ljóst var að það dygði ekki til. Afla þyrfti nýrra markaða. Úr varð að Íslendingar leituðu til Sovétmanna, en nokkur viðskipti höfðu verið milli landanna fáeinum árum fyrr en þau lagst af. Um sumarið 1953 hófust viðræður íslenskra og sovéskra embættismanna um viðskipti og var samningur undirritaður 1. ágúst. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sagði af því tilefni að land sem byggi við jafn einhæfa framleiðslu og Ísland væri nauðsynlegt að tryggja markaði sem víðast svo það yrði engum einum aðila háð í viðskiptum: „Er það von mín, að þessi nýja afstaða Sovétríkjanna sé fyrirboði um bætta sambúð, ekki aðeins í viðskiptamálum heldur einnig um önnur alþjóðamál.“
Moskwitchar, Volgur og Rússajeppar
Samkvæmt samningnum frá 1953 skyldu Sovétmenn sér í lagi kaupa síld og frosinn fisk, en á móti keyptu Íslendingar ýmsar vörur af þeim, einkum olíu. Um skeið var allt innflutt eldsneyti frá Sovétríkjunum (hvort sem það var selt undir vörumerkinu Shell, Esso eða BP). Í skiptum fyrir sjávarafurðir fengu Íslendingar líka steypustyrktarjárn, timbur og aðra byggingarvöru. Þá var keypt hveitiklíð af Rússum, en einnig rúgmjöl og kartöflumjöl. Samið var kaup sem svaraði ársþörf landsmanna af þessum vörum. Viðskiptin héldu áfram á næstu árum og þess var ekki langt að bíða að sovéskar bifreiðar yrðu algeng sjón á vegum landsins. Fyrst kom Pobeda, síðan Moskwitch, Volga og GAZ 69, sem var aldrei kallaður annað en Rússajeppi hér, og var mikið notaður víðs vegar um land. Sovétmenn keyptu þó ekki einungis fisk héðan, heldur einnig niðursuðuvörurogullarafurðir. Útflutningur til Sovétríkjanna nam 12,6% af heildarútflutningi árið 1953 og fór upp í 15,2% árið eftir. Þessi viðskipti skiptu sköpum fyrir þjóðarbúið þessi ár.
Löndun á síldartunnum frá Íslandi á svæði I í Leníngrad-höfn. Leníngrad, ljósmynd tekin 04.05.1948
Rússaviðskiptin ollu áhyggjum innan Atlantshafsbandalagsins. Sumir töldu jafnvel að Ísland væri að falla í faðm Sovétmanna og voru Bretar gagnrýndir fyrir hörku gagnvart Íslendingum. Ólafur Thors tók við embætti forsætisráðherra í september 1953. Hann mun eitt sinn hafa sagt að hann hefði þá reglu að ætla mönnum aldrei illt nema hann reyndi þá að því. Aldrei létu Íslendingar aðstoð Rússa hafa áhrif á utanríkisstefnu landsins og víst er að hinar íslensku afurðir nutu mikillar hylli í Austurvegi.
Sendiherra með fasta búsetu
Viðskiptasamningurinn styrkti diplómatísk samskipti ríkjanna og ákveðið var að sendiherra Íslands í Sovétríkjunum hefði eftirleiðis fasta búsetu í Moskvu, meðal annars til að greiða fyrir framkvæmd viðskiptasamningsins og undirbúa endurnýjun hans. Næstu áratugina hafði íslenska sendiráðið í Mosvku þá sérstöðu meðal íslenskra sendiráða að meginþorri starfseminnar fólst í því að gæta viðskiptahagsmuna Íslands.
Viðskiptasamningar þjóðanna voru venjulega gerðir til fjögurra ára og fyrirtækin í útflutningi í báðum löndum gerðu síðan sölusamninga á báða bóga. Sendiráð Íslands í Mosvku gengdi hér lykihlutverki. Ef íslensku fyrirtækin töldu til dæmis að afgreiðsla á olíu og bensíni gengi treglegar en samningar gerðu ráð fyrir var það hlutverk sendiráðsins að ýta við viðkomandi fyrirtækjum í Sovétríkjunum og sama gilti um það þegar sovésk
innflutningsfyrirtæki kvörtuðu undan því að ákvæðum í samningum um afgreiðslu og gæði væri ekki fylgt. Aldrei var kvartað yfir ullarvörum, en því miður var of algengt að slakað væri á gæðaeftirliti með sjávarafurðum sem fóru á Rússlandsmarkað og þetta kom eðlilega niður á Íslendingum í samningaviðræðum. Sumir íslenskir framleiðendur virtust ekki gera sér grein fyrir því að Sovétmarkaðurinn var einn besti markaðurinn fyrir íslenska sjávarafurðir, en Rússar greiddu hærra verði en almennt fékkst á heimsmarkaði. Að sama skapi gerðu þeir kröfur um gæði framleiðslunnar.
Horfið frá jafnkeypisviðskiptum
Gríðarlegar olíverðshækkanir á fyrri hluta áttunda áratugarins leiddu til mikils greiðsluhalla á viðskiptum Íslendinga og Sovétmanna, Íslendingum í óhag, en olían var keypt á heimsmarkaðsverði að frádregnum afsláttarprósentum sem Sovétmenn veittu Íslendingum sem gömlum og góðum viðskiptavini. Svo fór að Ólafur Jóhannesson, viðskipta- og dómsmálaráðherra, hélt til Moskvu haustið 1974 til viðræðna við Nikolai S. Patolichev, utanríkisviðskiptaráðherra Sovétríkjanna. Góður árangur varð af viðræðunum, Sovétmenn
féllust á að kaupa meira magn af sjávarafurðum af Íslendingum til að minnka viðskiptahallann og þá sömdu Íslendingar við Sovétmenn um aukna yfirdráttarheimild, lán og gjaldeyrisgreiðslur fyrir eftirstöðvar af reikningsskuld vegna viðskiptahallans. Allt frá árinu 1953 og fram á miðjan áttunda áratuginn hafði verið um jafnkeypisviðskipti að ræða, en þegar þarna var komið sögu gerði Vneshtorgbank, utanríkisviðskiptabanki Sovétríkjanna, það að skilyrði fyrir lausn greiðsluvandamála Íslendinga að jafnkeypisfyrirkomulagið yrði afnumið. Fulltrúar Íslendinga undu þessu illa og forystumenn í sjávarútvegi óttuðust að án fastra kvóta gæti útflutningur sjávarafurða til Sovétríkjanna dregist saman. Þarna var því komin upp sú skringilega staða að Sovétmenn voru orðnir talsmenn frjálsra milliríkjaviðskipta en íslenskir markaðshyggjumenn töluðu fyrir óbreyttu ástandi jafnkeypisviðskipta! Sovétmenn höfðu sitt fram og frá og með 1. janúar 1976 fóru öll viðskipti landanna fram í frjálsum, skiptanlegum gjaldeyri. Útflutningur til Sovétríkjanna jókst á þessum árum og nam 10,6% af heildarútflutningi árið 1975. Hannes Jónsson var sendiherra í Moskvu á þeim tíma og sinnti viðskiptamálunum af miklu kappi. Árið 1975 hélt Einar Ágústsson utanríkisráðherra í heimsókn til Moskvu, fyrstu opinberu heimsókn íslensks utanríkisráðherra þangað, og tveimur árum síðar varð Geir Hallgrímsson fyrsti íslenski forsætisráðherrann til að fara í opinbera heimsókn til Sovétríkjanna.
Málning vegna byltingarafmælis
Málning var meðal þess sem flutt var til Sovétríkjanna, en sem dæmi má nefna að árið 1979 seldi Málningarverksmiðjan Harpa 4000 tunnur af málningu til þangað austur. Útflutningurinn þangað var nær eingöngu hvítt lakk, nema hvað undanteking var gerð 1967 þegar pantað var mikið magn af lakki í fleiri litum vegna byltingarafmælisins það ár, en lakkið var notað til að mála gríðarstór veggspjöld í tilefni þess! Þá seldi Harpa einnig nokkuð af svörtu bílalakki til Sovétríkjanna. Unnið var þrjá til fjóra mánuði á ári við útflutningsframleiðsluna, en að magni til var hún um helmingur af heildarframleiðslu Hörpu. Með viðskiptum þessum náði Harpa að afla gjaldeyris til allra hráefniskaupa fyrir framleiðsluna. Magnús Helgason, framkvæmdastjóri Hörpu, átti í samskiptum við Sovétríkin vegna setu sinnar í viðskiptanefnd landanna og hafði forgöngu um það að rætt var við íþróttaráðherra Sovétríkjanna, sem hér var staddur vegna heimsmeistaraeinvígisins í skák1972, um að Sovémenn útveguðu Knattspyrnufélaginu Val góðan þjálfara, en Magnús var dyggur stuðningsmaður Vals alla tíð. Það varð úr og í kjölfarið var Youri Illitchev ráðinn þjálfari félagsins, en segja má að hann hafi lagt grunninn að velgengni Vals á knattspyrnumótum næstu ára. Þannig gátu viðskiptin getið af sér góð samskipti á öðrum sviðum.
Viðskiptin efla vináttu
Hér hafa aðeins verið nefndir örfáir þættir í viðskiptasögu þjóðanna síðustu 65 árin, en vitaskuld tóku þau gagngerum breytingum við fall Sovétríkjanna og þar með afnám miðstýrðs áætlunarbúskapar. Þrátt fyrir að ríkin tvö hafi ekki verið bandalagsríki hefur vinarhugur sovéskra ráðamanna skipt miklu fyrir íslenska hagsmuni á umliðnum áratugum. Sovétmenn voru meðal þeirra fyrstu til að viðurkenna stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944 og það skipti þjóðabúið sköpum að nást skyldi viðskiptasamningur milli ríkjanna árið 1953 eftir að Bretar höfðu beitt íslensk skip löndunarbanni. Sá samningur varð báðum ríkjum til mikilla hagsbóta. Til langs tíma litið styrktist staða Íslendinga í kjölfar löndunarbannsins. Nýir markaðir fundust og munaði þar ekki minnstu um Sovétríkin. Vörn var snúið í sókn, ný fiskiðjuver risu og mikil uppbygging varð í frystiiðnaði.
Sovétmenn reyndust Íslendingum einnig vel í fiskveiðideilum við Breta og aðrar Evrópuþjóðir við útfærslu fiskveiðilögsögunnar 1958, 1972 og 1975. Viðskiptin efldu samskiptin á öðrum sviðum og nægir þar að nefna samning ríkjanna um samvinnu á sviði menningar, vísinda og tækni frá árinu 1961, sem báðir aðilar nutu mjög góðs af.Þrátt fyrir ólíkt og efnahags- og þjóðskipulag gátu samskiptin farið fram með friðsamlegum hætti um áratugaskeið og þannig að að forystumenn ríkjanna sýndu hvort öðru fulla virðingu og skiptu sér ekki af innanríkismálum hvors annars.
Heimildir: „4000 tunnur af hvítu lakki til Sovétríkjanna“. Frjáls verslun 1979. ― Guðni Th.
Jóhannesson: Þorskastríðin þrjú. ― Hannes Jónsson: Sendiherra á sagnabekk. ―
Þorskastríðin. Fiskveiðideilur Íslendinga við erlendar þjóðir. Ritgerðasafn. ― Fréttir
blaðanna á sínum tíma.
Texti: Björn Jón Bragason