Vín, vinir og vandræði

á hádegistónleikum í Hafnarborg
þriðjudaginn 3. október kl. 12

Þriðjudaginn 3. október kl. 12 er komið að tenórnum Gunnari Guðbjörnssyni að stíga á stokk í Hafnarborg. Þar mun hann ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara flytja nokkrar leikandi léttar óperettur fyrir gesti hádegistónleikanna. Yfirskrift tónleikanna er Vín, vinir og vandræði.

Gunnar Guðbjörnsson hóf söngnám í tónlistarskóla Garðabæjar árið 1984 og lauk síðar burtfararprófi í Nýja Tónlistarskólanum árið 1987. Gunnar hélt til Austur-Berlínar í framhaldsnám þar sem hann lærði hjá Frau Hanne-Lore Kuhse og síðar Michael Rhodes í Þýskalandi. Strax að loknu námi var hann ráðinn sem lýristkur tenór til Ríkisóperunnar í Wiesbaden. Á árunum 1995-97 var hann svo fyrsti lýriski tenór Þjóðaróperunnar í Lyon í Frakklandi. Gunnar hefur sungið í fjölda óperuhúsa um allan heim og er hlutverkaskráin fjölbreytt. Hann hefur sungið öll helstu aðalhlutverkin í óperum Mozarts, Almaviva í Rakaranum frá Sevilla, Stýrimanninn í Hollendingnum fljúgandi og Rodolfo í La Boheme til að nefna aðeins örfá. Í september 2007 þreytti Gunnar frumraun sína í hlutverki hetjutenórs þegar hann söng Walther von Stolzing í óperunni Meistarasöngvarnir frá Nurnberg í óperuhúsinu í Halla í Þýskalandi. Gunnar lauk meistaraprófi sínu í Menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst vorið 2012 og starfar nú sem skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.

Author

  • Editorial

    Icelandic Times Magazine - the only magazine in Iceland published in English, German, French and now Chinese. Icelandic Times Magazine's sister publication Land og Saga is published in Icelandic.

    View all posts
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0