Van Gogh og list hans. Eftir Hans Bronkhorst

Van Gogh og list hans. Eftir Hans Bronkhorst

Van Gogh og list hans. Í fótspor áhrifamikils brautryðjanda í nútímalist. Eftir Hans Bronkhorst. Íslensk þýðing Ólafur Bjarni Guðnason. Ráðgjöf við þýðingu Gunnar B. Kvaran.

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að í ár eru liðin hundrað ár frá dauða hollenska listmálarans Vincents Van Gogh.
Bækur, blaðagreinar, kvikmyndir, útvarps- og sjónvarpsþættir eru meðal þess sem minna okkur á snilld Van Goghs og dapurlega ævi.
Á unglingsárum las ég Lífsþorsta eftir Bandaríkjamanninn Irving Stone, skáldsögu um dæmigert listamannslíf þar sem Van Gogh var í öndvegi. En þar komu líka margir aðrir við sögu, ekki síst hinn óstýriláti Paul Gauguin, félagi Van Goghs og tímamótamaður í málaralist einsog hann.new_vincent-van-gogh-landscape-with-the-chateau-of-auvers-at-sunset

Í bók Hans Bronkhorts haldast texti og myndir í hendur svo að hún verður kjörin leiðsögn um list Van Goghs. En mikið er lagt upp úr einkalífi málarans, baráttu hans, biðinni eftir viðurkenningu, mann fælni og brjálun að lokum.
van_gogh-bokRétt fyrir sjálfsmorð Van Goghs gerðust þau tíðindi að einn gagnrýnandi skrifaði lofsamlega um hann. Aðeins tvær eða þrjár myndir seldust meðan hann var á dögum.
Bréf Van Goghs, m.a. til Theos bróður síns, sem studdi hann einsog hann framast gat og kvað í hann kjark eru merkilegar heimildir og hafa ekki bara listsögulegt heldur einnig bókmenntalegt gildi eins og Bronkholst bendir á. Eitt af því sem kemur fram í Van Gogh og list hans er að málarinn fæddist ekki alskapaður og sumt afþví athyglisverðasta í list hans á sér vissar hliðstæður hjá minna þekktum listamönnum, sumir þeirra eru gleymdir nú.
Sumarið 1888 skrifaði Van Gogh systur sinni eftirfarandi og má velta fyrir sér hvort bréfið feli ekki enn í sér sannleikskjarna: Við lifum í heimi þar sem kjör listamanna eru ótrúlega erfið og ömurleg. Sýningar, listaverkaverslanir, allt, allt er rekið af fólki sem hirðir alla peningana. Þú mátt ekki halda að ég ímyndi mér þetta. Stórfé er greitt fyrir verk listamanna þegar þeir eru dánir og verk þeirra hindra lifandi listamenn.”

Texti bókarinnar um Van Gogh er ljós og skýringar listaverkanna aðgengilegar. Myndaval er gott, þýðingin lipur. Um hina fræðilegu hlið eru aðrir færari að dæma. Bókin verður að teljast prýðilegur inngangur að Vincent Van Gogh.
Jóhann Hjálmarsson

Vaka-Helgafell, 1990 (Weert : Royal Smeets Offset). 200 bls.