Norðurland

Dettifoss
Dettifoss

 

Selir, hvalir, fuglar, gígar, hraunmyndanir…

Norðurland býður upp á mikil ævintýri.
„Selaskoðun á Vatnsnesi hefur aukist til muna en hægt er að fara í selaskoðun frá Hvammstanga sem og að heimsækja Selasetrið sem er í bænum,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.Picture12

„Þá er boðið upp á hvalaskoðun á svæðinu; lengi hefur verið boðið upp á hvalaskoðun frá Húsavík auk þess sem nú er boðið upp á hvalaskoðun frá Akureyri, Dalvík og Hauganesi.“

Ferðamenn geta skoðað fjölmargar fuglategundir á Norðurlandi og hefur verið lögð áhersla á að auðvelda aðgengi að þeim svo sem með stígum, slóðum, merkingum og fuglaskoðunarhúsum.

Dimmuborgir - myvatn area
Dimmuborgir – myvatn area

Náttúran er stórkostleg og má nefna Dettifoss sem dregur að margan ferðamanninn.
Svo eru það Ásbyrgi og Hljóðaklettar sem standa alltaf fyrir sínu. Umhverfið þar er ævintýralegt og hamraveggirnir í Ásbyrgi eins og vefja skógivaxinn völlinn örmum.
Margir fljúga eða sigla til Grímseyjar frá Húsavík og Dalvík. Eyjan er við heimskautsbaug og koma sumir þangað til að geta stigið norður fyrir baug – fyrir utan að heimsækja eyjuna grænu og gista þar, fara í sund eða kíkja á kaffihús.
Grettislaug í Skagafirði dregur líka marga til sín. Hægt er að fara í laugina og svo er hægt að sigla út í Drangey.

asbyrgi
Ásbyrgi
Jokulsargljufur
Jökulsárgljúfur
pass-8820
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

„Svo er það Mývatnssveitin eins og hún leggur sig. Þeir sem hafa ekki farið þangað þyrftu helst að dvelja þar í tvo til þrjá daga ef þeir ætla að skoða svæðið vel. Það er gaman að skoða hverasvæðin, bæði Námaskarð og Leirhnjúk, sem og Kröflusvæðið. Þá er frábært að ganga um í Dimmuborgum sem eru klettaborgir og mynda alls konar fígúrur. Þar eru góðar gönguleiðir og oft mikil veðursæld vegna þess hve þar er gott skjól. Höfði er frábært útivistarsvæði þar sem er mikil skógrækt og þá er einnig hægt að ganga í nágrenni Skútustaðagíga þar sem eru góðar gönguleiðir. Svo er tilvalið að fara í jarðböðin í Mývatnssveit – skreppa í lónið og láta líða úr sér eftir daginn.“
Vert er að minnast á ýmsar nýjungar á svæðinu svo sem Hótel Laxá í Mývatnssveit og útsýnispall við Skoruvíkurbjarg á Langanesi þar sem er að finna eina mestu súlubyggð landsins sem og lunda, álkur og langvíur. Þá er útsýnispallur við Skjálftavatn þar sem skoða má fuglalífið. Einnig  hafa verið opnaðar hestaleigur í Ásyrgi og á Blönduósi.

www.nordurland.is

–    S.J.
Callout box: Vert er að minnast á ýmsar nýjungar á svæðinu svo sem Hótel Laxá í Mývatnssveit og útsýnispall við Skoruvíkurbjarg á Langanesi þar sem er að finna eina mestu súlubyggð landsins sem og lunda, álkur og langvíur