Snæbjörn Guðmundsson, Brynhildur Pálsdóttir og Ólöf Erla Bjarnadóttir

Leiðsögn: Brynhildur Pálsdóttir, Ólöf Erla Bjarnadóttir og Snæbjörn Guðmundsson
Laugardag 25. mars kl. 15 á Kjarvalsstöðum

Á sýningunni Dæmisögur: Vöruhönnun á 21. öld er verkefninu Leitin að íslensku postulíni gerð góð skil. Þetta er samstarfsverkefni þeirra Brynhildar Pálsdóttur, hönnuðar, Ólafar Erlu Bjarnadóttur, keramikers og Snæbjörns Guðmundssonar jarðfræðings. Markmið verkefnisins er að leita uppi íslensk jarðefni sem hægt er að umbreyta í postulín.

Brynhildur, Ólöf og Snæbjörn ganga með gestum um sýninguna og leiða þá í gegnum leitina, segja frá því hvert þau hafa farið og hvert þau eru komin í verkefninu hvert með sínu nefi. Gestum er velkomið að spyrja og taka þátt í umræðum um verkefnið.

Helsti munurinn á postulíni og öðrum leir er að leirinn er oftast nýttur beint úr jörðu en postulín er samsett efni, ljóst að lit. Þá er brennslustig postulíns hærra en jarðleirs sem gerir það að verkum að hægt er að gera sterkari og þynnri hluti.

Frumblanda postulíns er úr þremur jarðefnum, kaolínleir, kvartsi og alkalífeldspati. Á Íslandi finnst kvarts í töluverðum mæli í hreinu formi. Kaólín finnst víða, bæði á virkum og kulnuðum jarðhitasvæðum, en yfirleitt mjög blandað öðrum efnum. Alkalífeldspat finnst hér hins vegar nánast hvergi óblandað. Á Íslandi verður því að leita annarra hráefna sem komið geta í stað hinnar hefðbundnu postulínsblöndu ef búa á til íslenskt postulín.

Vinnan hefur því falist í því að taka fjölbreytt sýni af hentugum íslenskum jarðefnum, gera tilraunir með þau og rannsaka. Hér er það ferðalagið frekar en áfangastaðurinn sem er í brennidepli.

Á sýningunni Dæmisögur: Vöruhönnun á 21. öld eru samankomin nokkur framúrskarandi verkefni sem hvert um sig endurspeglar með skýrum hætti ólík viðfangsefni vöruhönnunar. Á sýninguna hafa verið valdir hönnuðir og fyrirtæki sem vinna hver út frá sinni áherslu sem sýnir þau tækifærin sem samfélaginu standa til boða með því að nýta krafta skapandi hugsunar.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0