Börn að leik á Arnarhóli skömmu eftir að minnismerki Ingólfs Arnarsonar var reist.

Bílastæðahús undir Arnarhóli

Lengi voru uppi ráðagerðir um að reisa byggingar á Arnarhóli í Reykjavík. Þar skyldi rísa mikið gistihús „Hotel de Nord“ og einnig stóð til að Latínuskólinn yrði reistur þar þegar hann var fluttur frá Bessastöðum. Seinna var rætt um að byggja hús undir Landsbankann á hólnum og einnig Þjóðleikhús.
Aldrei varð neitt úr byggingaframkvæmdum á hólnum ― líklega einni bestu lóð bæjarins ― og á því var einföld skýring. Þegar tukthúsið var reist, þar sem nú er Stjórnarráð, var Arnarhóll lagður undir það. Síðar höfðu stiftamtmaður og landshöfðingi afnot þessarar jarðar, eftir að tukthúsið var orðinn embættisbústaður þeirra. Eiginhagsmunir þessara æðstu embættismanna vernduðu því hólinn. Þetta var þeirra tún og þar voru þeirra kýr á beit!

Árið 1973 hófust framkvæmdir við Seðlabankahús á Arnarhóli sem vakti miklar deilur. Fallið var frá áformum um bygginguna.

Á fundi í Kvöldfélaginu 10. janúar 1863 hreyfði Jón Árnason þjóðsagnasafnari fyrst við þeirri hugmynd reist yrði líkneski Ingólfs Arnarsonar í bænum, en Kvöldfélagið var forveri Stúdentafélags Reykjavíkur sem stofnað var 1871 og enn starfar. Annað merkt félag í bænum, Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, stofnað 1867, hafði löngu síðar forgöngu um að minnisvarðinn yrði reistur og lauk því verki árið 1924. Þá var landshöfðingi fyrir löngu horfinn á braut og engar kýr lengur að beit á hólnum.

Getur verið að lausnin á bílastæðavanda miðbæjarins liggi undir Arnarhóli?

Seðlabanki vekur deilur
Arnarhóll var að mestu óáreittur þar til árið 1971 að Seðlabanka Íslands var úthlutað lóð nokkru norðan við minnismerki Ingólfs. Gerðir voru uppdrættir að byggingu fyrir bankann og þær fyrirætlanir vöktu strax harðar deilur. Mótmælendur vildu ekki skerða hólinn og voru lítt hrifnir af útliti hússins, fannst það helst minna á pýramída á hvolfi (sjá meðfylgjandi mynd). Á mótmælafundi sem haldin var 10. september 1973 voru lesin ávörp eftir þjóðskáldin Gunnar Gunnarsson, Halldór Kiljan Laxness og Tómas Guðmundsson. Kvaðst Halldór mótmæla „ábyrgðarlausri hégómadýrð, með sóun á almannafé til að reisa afkáralegt monthús yfir fjárhagsvanmátt og verðbólgu, skerða stolt höfuðborgarinnar og byrgja náttúrfegurð höfuðstaðarins“. Þessi kröftugu mótmæli urðu til þess að fallið var frá framkvæmdum. Það var svo áratug síðar sem framkvæmdir við núverandi Seðlabankabyggingu hófust nokkru norðar og var hún vígð árið 1987.
Samhliða byggingu Seðlabankahússins var reist bílastæðahús undir hluta Arnarhóls, en um þær mundir var farið að halla undan fæti í verslun í miðbænum, ekki hvað síst vegna skorts á bílastæðum. Á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur 1982 lagði Albert Guðmundsson, forseti borgarstjórnar, fram tillögu þess efnis að fela borgarverkfræðingi að kanna möguleika á að koma fyrir bílageymslu undir Arnarhóli, þar með talið undir minnismerki Ingólfs. Hugmyndin var sú að við þá framkvæmd myndu jafnframt skapast aðstæður fyrir ódýrt grjótnám í hjarta borgarinnar. Að framkvæmdum loknum yrði tyrft yfir hólinn og útlit hans myndi í engu breytast.

Með nýju stóru bílastæðahúsi undir Arnarhóli mætti taka bílastæðahúsið Traðarkot undir önnur not.

Leysa þarf samgönguvanda miðbæjarins
Þessi tillaga Alberts náði ekki flugi á sínum tíma, en er allrar athygli verð enn þann dag í dag. Öll þekkjum við bílastæðaskortinn í miðborginni og sívaxandi andstaða er við akstur bifreiða um verslunargötur og bílastæði við þær götur. Borgaryfirvöld hafa því undanfarin ár fækkað bílastæðum mikið, en ekki hafa komið til ný stæði í þeirra stað og þjónusta strætisvagna í miðbænum hefur minnkað á sama tíma. Verslun og þjónusta við landsmenn flyst því annað, en vaxtarbroddurinn í atvinnustarfsemi í miðbænum er nær eingöngu þjónusta við ferðamenn. Flestir hljóta þó að geta sammælst um gildi þess fyrir borgarmyndina að hér séu góðar verslunargötur þar sem landsmenn geta gert innkaup sín, en til þess að miðbærinn megi eflast á nýjan leik þarf að bæta aðgengi bifreiða.
Í því sambandi er vel við hæfi að dusta rykið af tillögu Alberts Guðmundssonar og kanna í alvöru hagkvæmni þess að koma fyrir bílastæðahúsi undir Arnarhóli. Jafnvel væri mögulegt að notast við núverandi inngang bílastæðahússins undir Seðlabankanum, Kolaportsins svonefnda. Frá bílastæðahúsinu yrðu síðan nokkrir útgangar eftir því hvert leið manna lægi. Einn gæti legið upp í Arnarhvol, annar í Hæstarétt, þriðji í Þjóðleikhúsið og fjórði upp á Laugaveg. Þá mætti hugsa sér að bílastæði Stjórnarráðsins yrðu innan þessa bílastæðahúss með tengingu þangað um göng neðanjarðar.

Lausn á bílastæðavandanum?
Með því að hafa þetta bílastæðahús nógu stórt mætti loka bílastæðahúsinu Traðarkot við Hverfisgötu og taka það undir önnur not, svo sem verslun eða skrifstofur og fækka um leið bílastæðum annars staðar í nágrenninu. Þeir sem ættu erindi á þetta svæði á bíl yrði því beint inn í bílastæðahúsið.
Allir þekkja þá erfiðleika sem því fylgir að finna stæði ef förinni er heitið í verslun neðarlega við Laugaveg eða ef haldið er á leiksýningu í Þjóðleikhúsinu. Með stóru bílastæðahúsi undir Arnarhóli yrði vandinn leystur. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að engin slík helgi hvílir yfir Arnarhóli að hann megi ekki nota undir bílastæðahús, enda myndi útlit hans ekki breytast. Undir Hyde Park í Lundúnum er stór bílageymsla og sama gildir um ýmsa höfuðgarða í borgum nágrannalandanna.
Þegar öllu er á botninn hvolft var það okkur mikið lán að stiftamtmenn og landshöfðingar nítjándu aldar skyldu þurfa tún fyrir sínar kýr og undir Arnarhóli liggur ef til vill lykillinn að bílastæðavanda miðbæjarins.

Björn Jón Bragason

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0