Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Þotuhreiður Magnúsar Tómassonar fyrir framan bygginguna. Vinstra megin á myndinni má sjá byggingarkrana, en það er verið að byggja við, stækka flugstöðvarbygginguna um 30%, og verður framkvæmdum lokið eftir tvö ár.

Bjartsýni

Samkvæmt vef Isavia, sem sér um rekstur íslenskra flugvalla, eru 77 erlendir áfangastaðir í Norður-Ameríku og Evrópu í boði frá Keflavíkurflugvelli. Búist er við met fjölda erlendra ferðamanna til Íslands í sumar, svipaður fjöldi og var fyrir heimsfaraldurinn. Yfir háannatímann í júlí og ágúst er þegar orðið erfitt bæði að finna gistingu á vinsælum stöðum, og bílaleigubíla. Sá erlendur áfangastaður sem er með besta tengingu við Ísland er London, en hvorki fleiri né færri en sex flugfélög fljúga milli höfuðborgar Stóra-Bretlands og Keflavíkur, Easy Jet, Icelandair, British Airways, Wizz Air, Fly Play og Jet2.com. Flogið er til níu borga í Stóra-Bretlandi frá Keflavík, til Belfast, Bristol, Birmingham, Edinburgh, Glasgow, Leeds, London, Manchester, og Newcastle. Flestir áfangastaðir frá Keflavík eru til Bandaríkjanna, en það er flogið til 13 borga þar.

 

Brottfararsalurinn í flugstöðinni. Frá Keflavíkurflugvelli er flogið til 77 áfangastaða, vestastur er Anchorage í Alaska, nyrstur er Nuuk höfuðborg Grænlands, syðst er flogið til Orlando í Florida, og austast til Vilnius höfuðborgar Litháens.

 

Keflavík 08/05/2022 14:04-14:49 : A7R III : FE 1.8/14mm GM
Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0