Vetrarsumar
Vetur konungur á það til að heimsækja Ísland, jafnvel þegar komið er sumar, eins og núna. Þegar ég leit út um stofugluggan í morgun, yfir laufgaðan grænan garðin, blasti við í suðri skjannahvítur Reykjanesskaginn. Í útvarpinu var Vegagerðin með viðvaranir, að þungfært væri á flestum heiðum fyrir norðan, austan og á Vestfjörðum. Hálka og hálkublettir á þjóðleiðinni suður og austur frá Reykjavík. Best er á svona degi þegar kalt heimskautaloft heimsækir Ísland úr norðri að gefa sér góðan tíma áður en lagt er á stað og fara inn á heimasíður Veðurstofu Íslands, og Vegagerðarinnar, til að athuga með færð og veður. Báðar þessar síður eru á íslensku og ensku. En þegar snjóar svona seint, eins og nú í miðjum maí er sólin komin hátt á loft, og maður upplifir Ísland öðruvísi, frábær tími til að sjá, mynda og upplifa Ísland svart hvítt með grænni slikju sem gægist upp úr snjónum. Síðan kemur sumarið aftur.
Reykjanes 12/05/2022 07:22 – 08:40 : A7C – A7R III : FE 2.5/40mm G – FE 1.8/135mm GM