Byggðasafnið á Garðskaga er staðsett á fallegu safnasvæði við Garðskagavita í Suðurnesjabæ, þar sem víðsýni er til allra átta, fjölbreytt fuglalíf, hafið í sinni síbreytilegu mynd og gönguleiðir með sjónum. Byggðasafnið varðveitir og segir sögu fólks á Suðurnesjum. Menningarminjar er víða að finna í Suðurnesjabæ m.a. Skagagarðurinn frá 10. öld, á Rosmhvalanesi, sem er gamalt nafni yfir þetta svæði. Vélbáturinn Hólmsteinn GK20, 43 tonna trébátur, stendur við safnið. Vélasafn Guðna Ingimundarsonar og Trukkurinn hans hafa mikið aðdráttarafl. Elsta vélin er Scandia glóðarhausvél frá 1920 . Trébáturinn Fram, sexæringur með Engeyjarlagi, smíðaður 1887 er varðveittur í safninu. Nýlega var opnuð safnverzlun og móttaka með innréttingum frá 1921 úr Verzlun Þorláks Benediktssonar, Akurhúsum í Garði.