Íslendingum fjölgaði um 3.400 á síðustu þremur mánuðum, eða um 1133 á mánuði. Nú stendur íbúatalan Íslands í 394.200. Fæðingar voru 1150, látnir voru 580, og innfluttir umfram brottflutta voru 2800, rúmur helmingur frá Póllandi, næstir komu Úkraínubúar. Átján prósent þjóðarinnar eru nú erlendir ríkisborgarar, eða 71 þúsund einstaklingar. Með sama áframhaldi verðum við íslendingar nákvæmlega 400 þúsund þann 17. nóvember í ár.
Sú þjóð sem er með mjög svipaðan íbúafjölda er líka eyríki í Atlantshafi eins og við og staðsett í upptökum Golfstraumsins sem gerir lífið bærilegt hér. Bahamaeyjar eru akkúrat einn tíundi af stærð Íslands, en eyríkið sóttu heim 7 milljónir ferðamanna á síðasta ári, þrisvar sinnum fleiri en heimsóttu Ísland. Reyndar flestir á skemmtiferðaskipum frá næsta bæ, Flórída. Báðar þjóðirnar eru ungar, við urðum sjálfstæð 1944, þeir tuttugu og níu árum síðar, frá fyrrum breska heimsveldinu. Icelandic Times / Land & Saga fór út að mynda seinnipartinn.





Ljósmyndir & text : Páll Stefánsson
Reykjavík 20/07/2023 : A7R IV : FE 2.8/100mm GM