Horft frá Grandagarði yfir hluta Vesturbæjar um 1926. Garðhús eru lágreista húsið fyrir miðju myndar. Önnur hús á myndinni standa við Brekkustíg, Nýlendugötu, Mýrargötu og Vesturgötu. (Ljósmynd: Magnús Ólafsson)

Garðhús og greifynjan 

Garðhús um 1946. Vinstra megin við húsið má sjá Hraðfrystistöð Reykjavíkur og hluta af Daníelsslipp hægra megin hússins.Steinbærinn sem hér stendur nefnist Garðhús. Steinbæir eru sérstök húsagerð frá seinni hluta 19. aldar og tóku við af torfbæjum víða við sjávarsíðuna. Sérkenni þeirra eru að hliðarveggir eru hlaðnir úr höggnum grásteini. Steinbæir voru algengir í Reykjavík fram á 20. öld en fáir þeirra standa enn í borginni. Litlar breytingar hafa verið gerðar á húsinu sjálfu í gegnum árin, þó viðbyggingar hafi verið byggðar við hann, þeim breytt og seinna teknar niður. Garðhús voru byggð árið 1884 af Bjarna Oddssyni sjómanni og síðar hafnsögumanni. Eiginkona Bjarna var Þuríður Eyjólfsdóttir. Hún þótti hinn mesti skörungur, stórgáfuð og mikill persónuleiki.

Barnabarn hjónanna, Þuríður Dýrfinna Þorbjarnardóttir, fæddist í Garðhúsum þann 30. október 1891. Þuríður var snemma efnileg stúlka og hneigð til bókar. Hún lauk Kvennaskólaprófi vorið 1912. Þuríður þótti hafa óvenjulega hæfni í tungumálum og var því sumarið 1921 fengin til að starfa á Hótel Skjaldbreið í Reykjavík til að annast samskipti við erlenda gesti. Meðal hótelgesta var markgreifinn Henri Charles Raoul de Grimaldi d‘Antibes et de Cagne, sem tilheyrði einni elstu furstaætt Evrópu, Grimaldi ættinni, sem er ríkjandi valdaætt í Mónakó.

Þuríður og Henri felldu hugi saman og giftu sig í Reykjavík í október 1921. Brúðkaupið hlaut mikla umfjöllun blaðamanna enda fátítt að svo tignir menn heimsæktu landið hvað þá að þeir kvæntust íslenskum konum. Hjónavígslan fór fram í Landakotskirkju þar sem að greifinn var kaþólskur. Hjónin sigldu af landi brott með Gullfossi seinna sama ár. Þá lá leið þeirra til Lissabon í Portúgal, þar sem greifinn átti miklar eignir. Á öðru hjúskaparári sínu veiktist Þuríður af berklum og leitaði sér lækninga víða, meðal annars í Belgíu, þar sem hún lést þann 10. október 1925 aðeins 33 ára gömul. Hún er jarðsett í Brussel undir skjaldarmerki de Grimaldi ættarinnar.

Stakkastæði Alliance við Ánanaust um 1927. Fyrir miðja mynd má sjá Garðhús. Einnig má sjá meðal annars Bakkastíg 1, 5 og 7 og Nýlendugötu 41. Í forgrunni er verið að breiða út saltfisk. (Ljósmynd: Magnús Ólafsson)

Menningarmerkingar í Reykjavík
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett upp menningarmerkingar í borgarlandinu. Merkingar á
sögulegum minjum og svæðum innan borgarmarka Reykjavíkur gera upplifun borgarbúa og gesta
borgarinnar ánægjulegri auk þess að veita fræðslu um sögu höfuðborgarinnar. Á skiltunum má finna
fróðleik um mannlíf, sögu, list og bókmenntir sem tengjast viðkomandi stað, ásamt myndefni.
Texti og myndir: Borgarsögusafn Reykjavíkur.
Sjá nánar á www.borgarsogusafn.is

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0