– þýðanda Jónasar Hallgrímssonar á ensku og Fálkaorðuhafa
Dick Ringler var mikill velgjörðarmaður íslenskrar þjóðar, setti meðal annars yfir á ylhýra ensku megnið af höfundarverki Jónasar Hallgrímssonar. Hann er nú nýlátin og við syngjum þýðingar hans í opinni söngstund á morgun kl.16 í hans minningu og streymum frá því þannig að fjölskylda hans í Madison, Wisconsin og aðrir vinir geta hlustað og sungið með.
Dick Ringler (Richard Newman Ringler) (1934-2024) var einn af þessum Íslandsvinum sem lét um sig muna. Hann lærði íslensku á Hólum í Hjaltadal í kringum 1960, þar sem hann bjó um tíma ásamt ungri fjölskyldu sinni. Dick elskaði Jónas Hallgrímsson og fannst hann á pari við William Wordsworth. Honum fannnst að hinn enskumælandi heimur þyrfti að kynnast skáldskap hans Jónasar. Hann var trúr sinni sannfæringu og þýddi af alúð allt höfundarverk Jónasar, ljóð og laust mál, sem kom út í bókinni BARD OF ICELAND. Bókin er dýrgripur og gersemi, og svo vel tókst honum til að allt sem sungið er á íslensku af Jónasarlögum syngst jafnvel á enskunni, eftir að Dick Ringler fór um þau höndum. Dick fékk Fálkaorðuna árið 2004 fyrir störf sín í þágu íslenskrar þjóðar.
Nú viljum við heiðra minningu Dicks Ringler og þakka honum fyrir framlag sitt til íslenskrar menningar með því að koma saman og syngja eina stund Jónasarlögin á ensku uppúr bókinni Bard of Iceland laugardaginn 27.apríl kl.16. Við hefjum sönginn með einu erindi á íslensku í hverju lagi, en flytjum svo yfir í enskuna. Við höfðum þennan háttinn á fyrir rúmum tíu árum síðan, þegar við sendum Dick rafræna afmæliskveðju yfir hafið í tilefni af áttræðisafmæli hans og endurtökum leikinn nú.
Streymt verður frá stundinni á fésbókarsíðu Hannesarholts. Vinir Dicks í Hannesarholti og Hollvinafélagi Wisconsinháskóla og Madisonborgar standa að viðburðinum.
Allir velkomnir. Textar á tjaldi og allir syngja með. Frítt inn.