Sýningaropnun laugardag 7. desember kl. 14.
Verið velkomin
No Regrets, einkasýning Haraldar Bilson opnar í Gallerí Fold laugardaginn 7. desember kl 14.
Verk Haraldar sem oftast er kallaður Harry, eru auðþekkjanleg af spaugilegu, litríku og heillandi myndefninu; fólki, dýrum og landslagi, oft öllu í senn. Á striganum getur allt gerst og Harry leikur sér að því að blanda íslensku landslagi og menningu saman við sitt breska sjónarhorn, með húmor og léttleika í fyrirrúmi. Má því oft finna skoplegar fígúrur eða dýr í kunnuglegum aðstæðum í verkum hans, og iðulega finnur áhorfandinn eitthvað nýtt við hverja skoðun. Harry málar með olíu, akrýl og vatnslitum en er jafnframt mjög fær teiknari.
Haraldur Bilson fæddist í Reykjavík árið 1948 en fluttist til Bretlands ungur að árum. Móðir hans var íslensk en faðir hans breskur. Hann byrjaði að mála á unga aldri og hélt sína fyrstu einkasýningu í London aðeins 21 árs gamall.
Harry hefur haldið fjölmargar einkasýningar víða um heim, meðal annars hér á landi og hafa þær ávallt vakið mikla athygli. Sjálfur segist hann vera heimshornaflakkari, en hann hefur dvalið víða um heim við listsköpun sína, og má með sanni segja að hann sé alþjóðlegur málari. Hann leggur þó ávallt áherslu á íslenskar rætur sínar og hefur kallað Ísland heimili sitt síðustu áratugina. Samstarf Harry og Gallerís Foldar hefur verið einkar farsælt en hann hélt sína fyrstu sýningu í Gallerí Fold fyrir tæpum 30 árum.
Verkin á sýningunni gefa innsýn í hinn fjölbreytta myndheim Bilsons, bæði í stórum og smáum verkum. Á sýningunni, sem stendur til 22. desember, sýnir Bilson ný verk í bland við úrval nokkurra eldri verka.
Sýningin opnar
laugardaginn 7. desember kl. 14
og stendur til 22. desember 2024.
Verið velkomin
Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg
mán-fös 12 – 18 og laugardaga 12 – 16.